Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Eiður sagður vera undir áhrifum í beinni útsendingu – KSÍ og Síminn á flótta – Sjáðu atvikið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ræddi við Eið Smára Gudjohnsen, aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins í knattspyrnu, vegna sögusagna um drykkju fyrir sjónvarpsútsendingu. Umtalað er að Eiður hafi verið undir áhrifum í útsendingu sem knattspyrnusérfræðingur í þættinum Vaktin í Sjónvarpi Símans. Myndbrot úr þættinum umdeilda má finna hér neðst.

Rætt um þöggun 

Nokkur umræða hefur verið um atvikið á Twitter en sumir furða sig á því að ekkert hafi verið fjallað um það í fjölmiðlum. Einn þeirra er Tómas Orri Hreinsson en hann hefur verið dómari í knattspyrnuleikjum öðru hvoru síðasta áratug. Hann telur þögn um málið sýna að fréttamat íþróttafréttamanna sé óeðlilegt.

„Íþróttafréttir: tvær ungar stúlkur hitta enska landsliðsmenn og fá mikla umfjöllun. Mjög eðlilegt imo. Landsliðsþjálfari Íslands mætir undir áhrifum í beina útsendingu sem sérfræðingur. Enginn segir neitt. Mjög óeðlilegt imo,“ skrifar hann.

Tómas ítrekar þó að hann sé ekki að gagnrýna Eið sérstaklega heldur viðbrögðin. „Og svo ég sé skýr með þetta. Hann gerði ekkert vitlaust. Það að honum hafi verið hleypt í settið er hinsvegar glórulaust. Tómas Þór hefði einfaldlega átt að grípa innî og meina honum aðgang, sem stjórnandi þáttarins. Gagnrýnin er ekki á einstaklinginn. Gagnrýnin er á þöggunina og meðvirknina í kringum þetta. Ég óska honum einskis ills eða annara hrakfalla, gagnrýnin snýr að Síminn Sport og KSÍ að láta eins og ekkert sé. Gangi honum sem allra best.“

Ræddi við Eið Smára

- Auglýsing -

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir að Guðni hafi rætt við Eið vegna málsins enda hafi í upphafi ekki verið ánægja með það innanhúss þegar sögusagnirnar bárust þangað. Hún getur að öðru leyti ekki rætt einstaka starfsmenn sambandsins. „Okkur barst það til eyrna að þarna hafi hann ekki átt sinn besta leik og Guðni er búinn að vera í sambandi. Þar heyrði Guðni hans hlið á málinu varðandi þennan tiltekna sjónvarpsþátt. Þarna er um að ræða sjónvarpsþátt þar sem viðkomandi starfsmaður var ekki á vegum KSÍ. Hvað gerist þar er kannski eitthvað sem við vitum ekki nákvæmlega hvað er. Fulltrúar okkar eru hins vegar alltaf fulltrúar KSÍ hvar sem þeir eru,“ segir Klara.

Guðni þrætir fyrir samtalið

Í samtali við Mannlíf neitar Guðni því aftur á móti að hafa rætt við Eið Smára. Hann telur að hér sé lítið annað en vangaveltur á ferðinni. „Nú, hvaðan færðu það að ég hafi sett mig í samband við Eið? Veistu, þetta hefur ekki komið neitt sérstaklega til tals og Eiður er bara að undirbúa sig fyrir verkefnin framundan,“ segir Guðni.

- Auglýsing -

Þegar blaðamaður ítrekaði spurninguna hvort hann hafi rætt við aðstoðarlandsliðsþjálfarann vegna sögusagnanna sagði Guðni: „Ég hef bara í rauninni rætt verkefnin framundan en ekkert um þetta sérstaklega. Þetta eru vangaveltur um sjónvarpsþátt sem ég hef ekki séð mikið af. Yfirhöfuð ræði ég ekki samtöl við mína starfsmenn.“

Pálmi skellti á

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri Enska boltans í Sjónvarpi Símans, vildi hvorki tjá sig um þær sögusagnir sem á sveimi eru um að Eiður Smári hafi verið undir áhrifum í þættinum hjá sér né hvernig hann liti til þess hafi landsliðsþjálfarinn verið undir áhrifum í settinu. Sjálfur kom hann af fjöllum varðandi umræðuna. „Bera undir mig hvaða umræðu? Hver er spurningin? Ég get náttúrlega ekki svarað fyrir neitt sem hann gerði eða á að hafa gert. Því miður, þá hef ég bara ekkert um þetta mál að segja og mæli með því að þið talið við hann,“ segir Tómas ákveðinn.

Pálmi Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps Símans, vildi heldur ekkert ræða hinar háværu sögusagnir um Eið Smára í sjónvarpssettinu. „Þú ert búinn að tala við ritstjórann minn og við látum það bara duga,“ sagði Pálmi og lauk símtalinu í kjölfarið með því að skella á.

Mannlíf hefur gert tilraunir til að fá viðbrögð frá Eiði en án árangurs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -