Daði Freyr Pétursson kom, sá og sigraði í annað sinn sem hann og Gagnamagnið tóku þátt í Söngvakeppninni, með lagið Think About Things. Það er samið til 10 mánaða gamallar dóttur hans og eiginkonu hans, Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur. Lagið hefur fengið mikla athygli erlendis og segir Daði hana velkomna, þótt áreitið sé gríðarlega mikið nú í aðdraganda Eurovision-keppninnar í Rotterdam í Hollandi. Hann segist ætla að nýta tækifærið til fullnustu, enda ekki sjálfgefið að fá slíkt tækifæri.
Hjónin kynntust árið 2009 í söngleik í Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar lék Árný og Daði spilaði á bassa. „Við byrjuðum ekki saman fyrr en í lok 2010,“ segir Daði. „Það leið alveg tími frá því að við kynntumst þar til við urðum vinir og svo óvart urðum við kærustupar,“ segir Árný.
„Já, það var alveg óvart,“ segir Daði.
Aðspurð um hvort þetta hafi þá ekki verið ást við fyrstu sýn svara þau bæði neitandi. En hvað varð svo til að ástin kviknaði? „Árný varð bara allt í einu svona geggjað skotin í mér,“ segir Daði.
„Nei, það var öfugt,“ segir Árný.
„Nei, það var öfugt,“ segir Daði, „þú varst geðveikt skotin í mér.“
„Ég alla vega kyssti þig fyrst á Hróarskeldu 2010,“ botnar Árný.
Þannig að þið þurftuð að skipta um umhverfi til að verða skotin? „Já, við urðum að fara til útlanda, við eigum sem sagt tíu ára sleikafmæli í sumar,“ segir Árný. „Við ætluðum að fara á Hróarskeldu til að fagna því, en það verður líklega ekki,“ bætir Daði við. „En samt, Hatari fékk boð um að spila á Hróarskeldu í fyrra og ég veit ekki hvort búið er að fylla upp í slottið. Ég væri alveg til í að spila þar, ég kannski hringi eitthvert.“
Foreldrar beggja búa fyrir austan. „Ég er eiginlega fædd og uppalin úti í fjósi á Skeiðunum, sem sagt Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hef verið þar nánast alla mína tíð og fjölskylda mömmu í nokkra ættliði, ég veit ekkert betra en sveitina,“ segir Árný.
Sjá einnig: „Ég hugsa að ég væri dáinn ef Árný væri ekki með“
Árið 2014 flutti parið til Berlínar í Þýskalandi þar sem Daði fór í nám við DBS Musik í upptöku- og tónlistargerð. „Ég var að klára námið þegar við vorum í keppninni 2017 og hafði eiginlega engan tíma til að taka þátt. Við bjuggust bara eiginlega ekki við því að komast áfram. Við vorum ekki tilbúin þá en erum miklu betur undirbúin núna.“
Fjölskyldan unir hag sínum vel í Berlín, er nýflutt í íbúð í 100 ára gömlu húsi, sem Daði segir nýja íbúð fyrir þeim og stað sem þau sjá fyrir sér að búa í í góðan tíma. „Það væri draumurinn að eiga íbúð á báðum stöðum. En svo borgar sig ekki að fljúga mikið á milli fyrir kolefnisfótsporin en við erum á fullu við að gróðursetja tré.“
Daði er með eitt herbergi á heimilinu fyrir stúdíó. Árný býður upp á íslenska leiðsögn um Berlín, og er í fjarnámi í mannfræði við Háskóla Íslands, þar sem hún er að skrifa lokaritgerð sína, um Eurovision, nema hvað. „Ég skoða þar hvernig þjóðir birta sína ímynd í gegnum keppnina, hvað þær vilja standa fyrir á sviði og hvernig fólk kýs að túlka landið sitt.“
Þau segja ódýrara að leigja, lifa og búa í Berlín en hér heima, þótt það sé svolítið skrýtið að búa erlendis og það í stórborg. Þau segja að þó að stórfjölskyldunnar njóti ekki við ytra, eigi þau fjölskyldu í íslenskum vinum sínum í Berlín. „Við eigum marga góða vini og flesta Íslendinga, enda búa mjög margir Íslendingar í Berlín, við þekkjum bara brot af þeim þó að okkur finnist við þekkja mjög marga hér,“ segir Daði.
„Við erum dugleg að koma heim og þá er ég bara í sveitinni og næ að jarðtengja mig. Stefnan er að flytja einhvern tíma heim, kannski þegar dóttir okkar byrjar í skóla en við erum ekki farin að huga að því enn þá, það eru fimm ár í það alla vega,“ segir Árný.
Hvernig er að búa saman og vinna saman? „Við höf -um búið saman síðan við byrjuðum saman, síðustu tíu ár bara,“ segir Árný og hlær. „Við erum mjög mikið saman, það er bara fínt og okkur kemur mjög vel saman. Það munar alveg um það að við kunnum að tala hvort við annað og tölum bara mannamál,“ segir Daði.
„Við reynum að leysa deilumál hratt og auðveldlega, það kemur alveg þreyta, en þá reynum við að breyta til. Mér finnst til dæmis gott að vera ein og hleð batt – eríin best í sveitinni,“ segir Árný. Daði segist aftur á móti fá aukna orku úr því að fara út og hitta fólk, enda oftast einn í stúdíóinu. Þegar þau eru spurð um áhugamál fyrir utan tónlist – ina segist Árný hafa áhuga á matargerð og Daði spilar í Nintendo.
„Þú ert líka mikið á YouTube. Þú ert eiginlega algjört nörd,“ segir Árný. „Nei, ég myndi frekar segja að ég sé lúði en nörd. Nörd muna alls konar, eru í tölum og landafræði og slíku, ég er meira í því að hafa áhuga á nördalegum hlutum en ég myndi ekki kalla mig nörd, þar sem ég er ekki nógu snjall.“
Hvernig er verkaskiptingin á heimilinu? „Já, komdu með það,“ segir Árný og hlær. „Nei, kom þú með það,“ segir Daði á móti.
„Daði er með helstu innkomuna fjárhagslega þannig að heima er hann í vinnunni. Ég sé meira um heimilisstörfin og elda, enda hef ég áhuga á því. Á morgn -ana skiptumst við á að vakna með dóttur okkar og hitt fær að sofa aðeins lengur. Hvorugt okkar þarf að mæta neitt á ákveðnum tíma, nema þegar ég er með leiðsögn,“ segir Árný.
Lestu viðtalið við Árný og Daða í heild sinni í Mannlíf.