Íslandshótel skilar nú í fyrsta sinn samstæðureikningi í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS. Tekjur félagsins jukust um rúmlega 1,3 milljarða króna milli ára og hækkuðu úr 9,9 milljörðum í 11,2 milljarða króna. EBITDA félagsins stóð í stað milli ára og var um 3 milljarðar króna. Hagnaður ársins er um 400 milljónir króna og dróst saman á milli ára, sem skýrist fyrst og fremst af hækkun afskrifta vegna virðisrýrnunar fasteigna sem voru endurmetnar í samræmi við IFRS reikningsskilastaðla.
Heildarvirði eigna félagsins nam 37,8 milljörðum króna í árslok 2017 á mót 32,8 milljörðum króna í árslok 2016. Tekjuberandi fasteignir félagsins voru endurmetnar í árslok í samræmi við IFRS reikningskilastaðla og var hækkað endurmat fært meðal eiginfjárreikninga en lækkun á endurmati er færð í rekstrarreikning félagsins og hefur þar með áhrif á hagnað ársins til lækkunar.
Á árinu, opnaði félagið nýtt hótel Fosshótel Mývatn í Skútustaðahreppi, stækkaði Fosshótel Núpa í Skaftárhreppi auk þess sem unnið var að stækkun Fosshótel Reykholts.
Íslandshótel á og rekur í dag 18 hótel og fasteignir hringinn í kringum landið og er ein af stærstu hótelkeðjum landsins.