Einar Bárðarson athafnamaður, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs og eigandi Víkinga mótaraðarinnar, hvetur fólk til að hafa í huga að þó mikið sé um neikvæðar fréttir þá sé full ástæða til að vera jákvæður. Dagurinn verður sífellt lengri og landið er nánast smitlaust.
„Ég skautaði yfir miðlana í mínútur og þeir eru allir fullir að neikvæðum fréttum. Staðan er samt þessi: Dagurinn í dag er stórkostlegur og þessi er 5 mínútum lengri en gærdagurinn og um hálftíma lengri en bóndadagurinn fyrir viku. Bláfjöll og Hlíðarfjall eru opin, veður er frábært til allrar útivstar,“ skrifar Einar.
Hann minnir á að við öll sem þjóð höfum lagt mikið á okkur fyrir þessa stöðu. „Landið er nánast smitlaust á meðan að í flestum Evrópu ríkjum er fólk fast inni hjá sér í sóttkví vegna mikils fjölda smita alltof víða. Við lögðum geggjað mikið á okkur og fórnuðum nánast jólunum og nú á bara að vera gleði í hjörtum allra! Hleypum ljósinu inn og ljótinu út! lifum í ábyrgð en ekki í ótta.“