Einar Kárason, rithöfundur og varaþing kvað sér hljóðs á allsherjarfundi Samfylkingarinnar í Reykjavík um helgina og hélt furðulega tölu sem beindist meðal annars gegn Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Þetta herma heimildir Mannlífs en Rósa spyr hann á Facebook hvort honum þyki orð sín sjálfum sér sæmandi.
Mannlífi er ekki kunnugt um hvað Einar sagði nákvæmlega en gestir höfðu orð á því að ræðan hafi verið einkennileg. Hann lét ræðuna þó ekki duga. Rétt fyrir miðnætti á laugardaginn lýsti hann yfir vanþóknun sinni í athugasemd við færslu Loga Einarssonar, formanns flokksins.
Í þeirri færslu býður hann Rósu velkomna í hópinn. „Til hamingju kæra vinkona, ég treysti á að þú sért komin í kosningaham og farin að reima á þig gulu hlaupaskóna!,” skrifar Logi. Óhætt er að segja að færslan hafi ekki lægt öldur.
Nú hafa ríflega hundrað færslur verið skrifaðar og fæstar eru þær jákvæðar. Einar er þar á meðal og skrifar: „Kverúlant dauðans”. Rósa svarar honum fullum hálsi í athugasemd og segir: „Kæri Einar, finnst þér þessi skrif og tal um mig á fjölmennum fundi í dag þér sæmandi ? Kveðja, Rósa Björk.” Einar hefur ekki svarað henni enn.