Fimmtudagur 26. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Einar Þor lögmaður Atla Rafns segir hann og fjölskyldu hans einu þolendurna sem hafa verið nafngreindir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einar Þór Sverrisson, lögmaður Atla Rafns Sigurðssonar í málinu gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra, segir það engum vafa undirorpið að brotið hafi verið á rétti Atla Rafns með fyrirvaralausri uppsögn án þess að hann væri upplýstur um meintar sakir sínar. Einu þolendurnir sem hafi verið nafngreindir í þessu máli og sé alveg víst að séu til séu Atli og fjölskylda hans. Það sé ekki hægt að breyta reglum samfélagsins að geðþótta í takt við þær átakshreyfingar sem séu í gangi á hverjum tíma.

 

„Mál Atla Rafns er ekki kynferðisbrotamál,“ segir lögmaður Atla Rafns, Einar Þór Sverrisson, og vill undirstrika að málið snúist um brot á löggjöf í vinnurétti. Spurður hvernig Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, hefði átt að bregðast við kvörtunum annarra starfsmanna vegna meintrar kynferðislegrar áreitni Atla Rafns segir Einar að það séu alveg skýrar reglur um hvernig bregðast skuli við í slíkum málum í reglugerð sem gefin er út af ríkinu og hann segir gilda um alla atvinnurekendur í landinu, hvort sem þeir séu á vegum ríkis eða sveitarfélaga eða einkaaðila.

„Þessi reglugerð kveður á um það að það eigi að fara yfir málið með öllum aðilum, þar með talið þeim sem borinn er sökum, og gefa þeim færi á að tjá sig. Sé ekki nægileg þekking fyrir hendi inni á vinnustaðnum á að kalla til ytri aðila til að fara yfir málið. Samkvæmt reglugerðinni er alveg ljóst að þessi skoðun verður að fara fram. Það getur síðan leitt til þeirrar niðurstöðu að eitthvert brot hafi verið framið en það getur líka leitt í ljós að ekkert brot hafi verið framið. Slík skoðun getur líka leitt í ljós að brotið sé minniháttar og aðilar geti sæst eða þá að þetta sé meiriháttar brot sem leiði til þess að sá sem ásakaður er sé rekinn, það er allur gangur á því. En hvernig sem þessu er snúið þá byggja reglurnar á þeirri hugsun að koma í veg fyrir að einhver aðili geti, í skjóli nafnleyndar, vegið að öðrum aðila úr launsátri. Það ætti að vera öllum augljóst ef þeir lesa þessa reglugerð.“

Einar segir ekki hægt fyrir Borgarleikhúsið að skáka í því skjóli að það ríki óvissa um það hvernig koma eigi að slíkum málum hjá einkafyrirtækjum eins og haldið hafi verið fram í yfirlýsingu þess eftir að dómurinn féll.

„Það er bara þvæla,“ segir hann. „Það er einmitt talað um báða aðila í reglugerðinni og það er engin óvissa um það ferli sem fella þarf slík mál í.“

- Auglýsing -

Þannig að þú hefur engar efasemdir um að Landsréttur muni staðfesta þennan dóm?

„Ég kann ekki þá lögfræði sem gæti leitt til einhverrar annarrar niðurstöðu,“ segir Einar. „Það væri því handan míns skilnings ef Landsréttur gæti komist að þeirri niðurstöðu að þessi málsmeðferð í máli Atla Rafns hafi verið í lagi. Það er algjörlega útilokað.“

Ekki háar miskabætur

- Auglýsing -

Nú hefur staðið mikill styr um upphæð þeirra bóta sem Atla Rafni voru dæmdar í héraðsdómi en Einar segir þá umræðu byggða á dálitlum misskilningi.

„Honum voru dæmdar 5,5 milljónir samkvæmt dómsorði,“ útskýrir hann. „Fjórar af þeim milljónum voru fjártjónsbætur vegna atvinnumissis og síðan ein og hálf milljón í miskabætur. Miðað við það sem Atli Rafn hefur þurft að ganga í gegnum, þar sem hann var gerður að nokkurs konar holdgervingi gerenda í #metoo-byltingunni, úthrópaður sem einhver kynferðisbrotamaður og svertur eins mikið og menn geta orðið, þá er alveg á hreinu að þessi fjárhæð bætir ekki hans tjón. Hitt er svo aftur annað mál að miskabætur í íslensku réttarkerfi eru almennt mjög lágar og þar með talið í alvarlegum kynferðisbrotamálum þar sem illa leiknir þolendur fá smánarlega lágar bætur. En það má undirstrika það að Atla voru ekki dæmdar 5,5 milljónir í miskabætur.“

„Hitt er svo aftur annað mál að miskabætur í íslensku réttarkerfi eru almennt mjög lágar og þar með talið í alvarlegum kynferðisbrotamálum þar sem illa leiknir þolendur fá smánarlega lágar bætur.“

Einar segir mál Atla Rafns einstakt að því leyti að réttur þess sem ber fram ásökunina sé sagður svo mikill að það sé í lagi að taka öll réttindi af þeim sem fyrir ásökununum varð. Er þá enginn möguleiki að svona mál geti haft framgang nema að sá sem ber ásakanirnar fram komi fram undir nafni?

„Nei, ég get ekki séð það,“ segir hann. „Vegna þess að það er ekki hægt að upplýsa meintan geranda um málið án þess að hann fái að vita hver það er sem hann á að hafa brotið á. Reglurnar eru þannig að atvinnurekandi sem fær inn á borð til sín kvörtun með því skilyrði að sá sem ber kvörtunina fram vilji njóta nafnleyndar getur ekki tekið kvörtunina lengra. Hann getur auðvitað boðið þeim sem ber kvörtunina fram alls kyns aðstoð og gert allt til að halda utan um þann aðila, en hann getur ekki gert meintan geranda algjörlega réttlausan í ferlinu. Níutíu og níu prósent allra reglna í samfélaginu eru byggðar á einhverri hugsun og hugsun þessara reglna er augljóslega sú að þetta séu viðkvæm og erfið mál, það er óumdeilt. En reglurnar gera það að verkum að það er komið í veg fyrir að það sé hægt að vega að fólki úr launsátri og þær koma í veg fyrir að það séu teknar ákvarðanir án þess að málið sé skoðað frá báðum hliðum.“

Ekki hægt að breyta reglum í takt við átakshreyfingar

Í umræðunni hefur komið fram ótti um að þessi dómur muni fæla meinta þolendur frá því að segja frá, hvað segir Einar um þær hugleiðingar?

„Ég hef ekki trú á því, nei,“ segir hann. „Enginn sem telur sig hafa verið beittan einhverjum rangindum, í hvaða formi sem það er, getur búist við því að það sem hann hvíslar að einhverjum öðrum með skilyrði um nafnleynd geti haft einhverjar afleiðingar fyrir annan einstakling. Ég er ekki að gera lítið úr neinum sem ber fram sakir. Staðreyndin er hins vegar sú að stundum eiga ásakanir ekki við rök að styðjast, hvort sem þær lúta að kynferðislegri áreitni, einelti eða einhverju öðru, eða eru það brogaðar að eitthvað sem leit út fyrir að vera mjög alvarlegt í fyrstu er ekki eins alvarlegt og talið var.“

Þannig að þú lítur svo á að þessi dómur sé fordæmisgefandi?

„Já, ég held hann geti verið það,“ segir Einar. „Ég man ekki til þess að það hafi reynt á þessa reglugerð með jafnnákvæmum hætti fyrr. Þetta mál Atla Rafns sýnir það mjög vel hversu gríðarlega mikilvægt það er að það séu reglur um svona mál og að stjórnendur í fyrirtækjum fylgi þeim. Alltaf þegar verða einhverjar hreyfingar í samfélaginu, eins og #metoo-hreyfingin sem er í heild sinni af hinu góða, skiptir rosalega miklu máli að við virðum þær reglur sem við höfum sett. Það er aldrei leyfilegt að segja að nú sé einhver hreyfing í gangi og þess vegna eigum við að víkja reglunum til hliðar. Það náttúrlega bara gengur ekki upp. Frá fyrstu mínútu þessa máls vissi Atli Rafn ekkert hvað um var að ræða og hann hefur hafnað því að hafa áreitt einhvern aðila, hvorki kynferðislega né með öðrum hætti, og það er ekki ásættanlegt fyrir neinn að fá ekki einu sinni að vita hvaða sökum hann er borinn og geta þar af leiðandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Atli Rafn er enginn gerandi í þessu máli, miklu frekar þolandi ranginda og algjörlega vanhæfrar vinnustjórnunar á þeim vinnustað sem hann starfaði tímabundið á.“

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -