„Ég varð rosalega þunglyndi, þjáðist af miklum kvíða og sérstaklega félagsfælni. Ég á til dæmis mjög erfitt með að svara símanum, tala við fólk sem ég þekki ekki, fara í Kringluna eða Smáralindina og hvað þá að láta sjá mig í Hafnarfirði,“ segir Eva Rún Hafsteinsdóttir, bloggari á maedur.com, í samtali við Mannlíf.
Eva byrjaði skólagöngu sína í Reykjavík og var lögð í einelti frá 1. til 4. bekk, eða allt þar til hún flutti með fjölskyldu sinni á Selfoss.
„Ég upplifði mikið andlegt einelti. Ég var þybbinn krakki og fékk sko aldeilis að heyra það. Við mæðgur vorum ekki vaðandi í peningum og ég átti ekki nýjustu fötin eins og hinir krakkarnir,“ segir Eva, sem lenti einnig í að vera misnotuð að unga aldri.
„Ég var misnotuð af eldri strák sem var með mér í skóla og hann montaði sig af því. Eftir það var ég alltaf litla feita druslan.“
Ráðist á hana tvisvar því hún var ólétt
Eva segir betri tilveru hafa tekið við á Selfossi.
„Þar var ég ekki dæmd fyrir útlitið mitt. Þar áttu krakkarnir ekki nýjustu fötin né dæmdu þig fyrir að vera öðruvísi. Við vorum öll jöfn,“ segir Eva. Um miðjan sjöunda bekk flutti hún síðan til Hafnarfjarðar og byrjaði í Víðistaðaskóla. Hún náði að samlagast vel og eignast góðar vinkonur. En þegar hún byrjaði í níunda bekk eftir sumarfrí dundi áfall yfir Evu – hún var með barni.
„Mér leið skelfilega, það er varla hægt að lýsa tilfinningunni. Mér leið eins og partur af mér hefði horfið,“ segir Eva og bætir við að viðhorf samnemenda sinna hafi breyst mikið við þessar fréttir.
„Þegar ég tilkynnti óléttuna mína, þá var þetta svolítið eins og ég hefði kastað banvænum sjúkdómi inn í skólastofu og lokað hurðinni. Það þorði enginn að tala við mig, fólk pískraði sín á milli í staðinn. Og þá fékk ég fyrst að kynnast líkamlegu ofbeldi, en það var í tvígang ráðist á mig og ég kýld „því það var ógeðslegt að vera ólétt 14 ára“. Ég hafði ekki hugmynd um að krakkar gætu orðið svona vondir. Eggjum var kastað í húsið mitt, það var kúkað í poka og hann settur í skápinn minn, krakkar gerðu símaat í mér, ég var elt heim úr skólanum, niðrandi orð voru látin falla um mig, ég fann fyrir miklu áreiti á internetinu og svo framvegis.“
Það vita allir hver ég er
En hvernig var að verða móðir bara fjórtán ára gömul?
„Það var drulluerfitt, ég ætla alls ekkert að skafa af því. Mér hefði aldrei grunað að þetta ætti eftir að verða svona erfitt. Ég upplifði mikla fordóma, sérstaklega vegna aldursmuninum á mér og barnsföður mínum, en hann er fimm árum eldri en ég. Í dag á ég 2 börn og þvílíkur munur að eignast barn 14 ára og 22 ára,“ segir Eva. Hún segist enn finna fyrir því að fólk pískri um hana og hennar aðstæður.
„Það vita allir hver ég er. Ég vill ekki meina að fólk í dag dæmi mig fyrir að vera ung móðir, en ég veit að fólk hneykslast enn þá yfir því.“
Eva segir það hjálpa sér mikið að opna á þetta einelti sem hún hefur þurft að þola nánast allt sitt líf og hefur unnið mikið í sér sjálfri síðustu ár.
„Ég vakna á hverjum morgni og segi við sjálfa mig að í dag verði góður dagur. Það hefur virkilega hjálpað mér svo ég detti ekki í sjálfsvorkun.“
Einelti drepur
En hvað vill Eva segja við þá sem eru í sömu sporum og hún var, það er þolendur eineltis?
„Stattu upp fyrir sjálfum þér. Ég er ótrúlega reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki staðið með sjálfri mér, því ég átti þetta ekki skilið. Það á enginn skilið að vera lagður í einelti,“ segir Eva. Ekki stendur á svörunum þegar ég spyr hvað hún vill segja við þá sem leggja í einelti.
„Hættu því strax! Það hefur sýnt sig og sannað að einelti drepur, ef ekki þá skilur það eftir djúp sár. Ef þú hefur lagt í einelti og ert að lesa þetta, farðu þá og biddu manneskjuna afsökunar, það er besta meðalið fyrir sárin. Ég vildi óska þess að gerendurnir mínir myndu biðja mig afsökunar.“
Myndir / Úr einkasafni