Ein stærsta stefnumótasíða á netinu í heiminum, Match.com, gaf nýverið út sína árlegu rannsókn á einhleypum í Bandaríkjunum. Í rannsókninni voru spurningar settar fyrir fimm þúsund einhleypa einstaklinga, átján ára og eldri. Var einhleypa fólkið til dæmis spurt út í kynlíf og hvað gæti orðið til þess að samfarir væru slæmar.
82% þeirra sem svöruðu sögðu að of mikið mas í kynlífi væri mjög slæmt, 74% sögðu enga ástríðu gera samfarir slæmar og 63% sögðu litla hreyfingu í bólförum vera afar vont. Þá sögðu 62% að kynlíf væri ekki ánægjulegt ef hinn aðilinn í rúminu væri slæmur að kyssa.
Þegar kom að því að kanna hvað það væri sem gerði kynlíf gott voru 83% sammála um að umhyggjusamur og áhugasamur bólfélagi væri líklegur til vinsælda. Þá sögðu 78% samskipti skipta mestu máli og 76% að kynlífið væri gott ef bólfélaginn væri góður í að kyssa.
Þessir þrír þættir þóttu meira að segja mikilvægari en að fá fullnægingu. Það verður þó að taka það fram að þeir sem svöruðu í rannsókninni sögðu það nánast gulltryggt að báðir aðilar fengju fullnægingu ef samskipti væru góð og ef bólfélaginn væri áhugasamur og góður í kossafimi.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]