Fimmtudagur 23. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Einkaviðtal við bakvörðinn: „Ég var meðhöndluð eins og stórglæpamaður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég lýsi algjörlega yfir sakleysi mínu. Það er bara verið að reyna koma á mig einhverri sök og drulla yfir mig,“ segir Anna Aurora Waage Óskarsdóttir sem handtekin var í gær vegna ásakana um að hafa villt á sér heimildir og þjófnað sem bakvörður á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Hún hefur ráðið sér lögmann til að stefna Gylfa Ólafssyni forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og lögreglustjóranum á Vestfjörðum.

Anna Aurora fullyrðir að hún hafi ekkert að fela og að hún hafi frá upphafi sýnt fulla samvinnu. Hún segist ekki hafa fengið það uppgefið hvað átti að hafa horfið. „Þeir leituðu í öllu hjá mér og fundu ekki neitt. Síðan vildi lögreglan meina það að ég væri að reyna að smita sjálfa mig og aðra af COVID. Ég hló bara,“ segir Anna Aurora.

„Þeir leituðu í öllu hjá mér og fundu ekki neitt. Síðan vildi lögreglan meina það að ég væri að reyna að smita sjálfa mig og aðra af COVID. Ég hló bara.“

Í gærkvöldi voru sýni sem tekin voru úr bakvarðasveitinni á Bergi flutt til Reykjavíkur og í morgun fékkst það staðfest að öll sýnin voru neikvæð. Bakverðirnir geta því áfram sinnt heimilisfólkinu en grunur var um að Anna Aurora væri smituð.

Sjá einnig: Bakvörðurinn á lögmannsstofu og starfar sem forfallakennari

„Í morgun fékk ég staðfestingu þess efnis að ég mældist neikvæð. Eitthvað hlýt ég að hafa gert rétt í vinnunni varðandi hlífðarfatnað og annað. Ég lærði allt saman áður, um hvernig ég ætti að verja mig og aðra. Það gerði ég í náminu og einnig var það rifjað upp núna áður en ég fór af stað. Ég fór algjörlega eftir öllum leiðbeiningum og kennslu,“ segir Anna Aurora og ítrekar að hún hafi lokið sjúkraliðanámi erlendis. Alveg frá upphafi hafi hún gert grein fyrir menntun sinni og það einnig við yfirmenn á Bergi.

Sjá einnig: Falski bakvörðurinn á framboðslista í síðustu kosningum – „Harmleikur“ segir fyrrverandi samstarfsmaður

- Auglýsing -

„Ég sagði allan tímann frá því að ég væri með erlent próf en ekki íslenskt, sem ætti eftir að meta. Úti er þetta sem sjúkraliðapróf og síðan er ég líka með annað próf sem er ígildi háskólagráðu. Ég tilkynnti það strax á minni umsókn að ég væri með erlend próf og það voru allir meðvitaðir um það enda tilkynnti ég það líka strax við komuna vestur. Það gerði ég um leið og ég mætti og það stóð á öllum plöggum. Það var allt uppi á borðum frá upphafi, ég var alls ekkert að reyna að falsa neitt.“

Anna Aurora sat um tíma sem stjórnarmaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar og hefur verið virk í starfi flokksins. Sem bakvörður fyrir vestan leggur hún ríka áherslu á að hún hafi aldrei verið ein á vakt og að þær vaktir sem hún sinnti hafi verið næturvaktir þar sem engin lyfjagjöf fór fram. Þá segist hún frá upphafi hafa sýnt lögreglu samvinnu og boðist til að taka öll þau próf sem þyrfti.

Sjá einnig: Gátum ekki tekið neina áhættu varðandi bakvörðinn

- Auglýsing -

„Ég er aldrei ein á vakt og var aldrei að reyna að ganga í starf hjúkrunarfræðings og ég sagði þeim líka að ég væri ekkert tilbúin í það. Ég var bara á næturvöktum þar sem ég sinnti almennri umönnun og bjöllukalli. Ég fer þarna í góðum tilgangi einum. Mér finnst það grafalvarlegt að gefa það í skyn að ég hafi verið að setja sjálfa mig, samstarfsfólk og sjúklinga í hættu,“ segir Anna Aurora og er ekki par hrifin af framgöngu Gylfa Ólafssonar og lögreglunnar í sinn garð. Enda ætli hún sér að stefna báðum aðilum.

„Það er mjög óábyrgt og ófaglegt af forstjóranum að tala með þessum hætti. Þetta er mjög alvarlegt og ég mun stefna honum ásamt lögreglustjóra Vesfjarða.  Ég var ekki að hugsa um sjálfan mig heldur sjúklingana. Annað væri mjög óeðlilegt. Að lenda svo í þessu er alveg skelfilegt, þetta er eins og einhver lygasaga.“

„Að lenda svo í þessu er alveg skelfilegt, þetta er eins og einhver lygasaga.“

Jón Bjarni Kristjánsson er lögmaður Önnu Auroru og sendi hann í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem ásakanir á hendur henni eru sagðar fjarstæðukenndar. Sjálf segir hún ljóst að málefni bakvarðasveitarinnar hafi verið unnin í of miklum flýti. Sem dæmi þá hafi bakvörðunum ekki enn borist ráðningarsamningar vegna vinnunnar.

Aðspurð um líðanina eftir handtökuna segist hún í algjöru sjokki. „Mér var mjög brugðið og hef bara aldrei lent í svona. Ég hef alltaf verið með hreina sakaskrá og aldrei verið handtekin. Þarna var ég meðhöndluð eins og stórglæpamaður. Þeir voru ekki með neitt á mig enda bauðst ég til að gangast undir öll próf. Ég hef ekkert að fela,“ segir Anna Aurora.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -