Einn úr 16 manna hópi lögreglumanna sem höfðu afskipti af tveimur karlmönnum á Suðurlandi um helgina er smitaður af COVID-19. Allir úr hópnum fóru í sóttkví þegar í ljós kom að mennirnir sem lögregla hafði afskipti af voru með COVID-19.
Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarnadeild ríkislögreglustjóra nú síðdegis.
Lögreglumaðurinn greindist með COVID-19 í morgun og eru því núna sjö staðfest virk smit í samfélaginu. „Við hugsum til hennar,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði að nú værum við „aðeins að koma út úr logninu“ hvað COVID-19 varðar eins og hann hafði búist við.