Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.7 C
Reykjavik

„Eins og maður sé nánast einskis virði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kona sem varð fyrir því á Menningarnótt í fyrra að leigubíll ók yfir fót hennar með þeim afleiðingum að hún slasaðist illa, segir bílstjórann hafi stungið af frá slysstað. Málið hefur legið hjá lögreglu síðan og segist konan vera reið og sár yfir því að rannsóknin skuli hafa dregist á langinn.

Á Menningarnótt fyrir ári síðan lenti Theodóra Heba Guðmundsdóttir í alvarlegu slysi þegar leigubíll sem hún og kærasti hennar höfðu farið með heimleiðis úr bænum, ók yfir fótinn á henni. Atvikinu lýsti Theodóra í smáatriðum í færslu á Facebook á sínum tíma og sagði þar meðal annars frá því að þegar á áfangastað kom hafi ökumanni leigubílsins legið svo á að komast á næsta stað að hann hafi ekið af stað áður en hún var komin almennilega út úr bílnum með fyrrgreindum afleiðingum. „Ég dróst einhverja metra með bílnum og hurðin ennþá opin. Loksins stoppaði hann! En ekki til að tékka á mér, heldur til að loka hurðinni og stinga af,“ sagði Theodóra, sem hlaut alvarlega áverka, meðal annars opið sköflungsbrot, og lá á spítala í tæpa viku.

Í samtali við Mannlíf segir Theodóra að hún hafi samstundis leitað sér aðhlynningar á bráðamóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi. Þangað hafi lögreglumaður mætt til að taka skýrslu af henni og kærasta hennar og frásagnir þeirra hafi verið studdar af vitnisburði nokkurra sjónarvotta að atvikinu. „Í kjölfarið höfðu pabbi og kærasti minn samband við Hreyfil á meðan ég lá á spítalanum til að ræða atvikið við forsvarsmenn fyrirtækisins og þeir voru bara með stæla. Pabbi sendi þáverandi framkvæmdastjóra tölvupóst og hann vildi ekkert gefa út á þetta. Sagði að lögreglan væri að skoða málið, þetta væri því lögreglumál og þangað til niðurstaða lægi fyrir gæti hann ekkert gert í málinu. Hann lét næstum eins og þetta kæmi sér ekki við.“

Nú er heilt ár liðið frá atvikinu og segist Theodóra enn vera að jafna sig eftir slysið. „Ég fer í röntgenmyndatöku á þriggja mánaða fresti þar sem sárið grær ekki nógu vel. Ég er mölbrotin eftir þetta, plötur og skrúfur halda öllu saman, ég er með tvö risastór ör á sköflungnum og fæ reglulega verki. Ég kemst ekki langt án hækju. Er alveg óvinnufær. Get ekki einu sinni gert einföldustu heimilisverk hjálparlaust. Læknirinn sem annast mig segir að þetta hafi verið mjög slæmt brot. Hann sér fram á mikla endurhæfingu og er ekki bjartsýnn á að ég nái mér nokkurn tíma.“

Andlegu hliðina segir hún sömuleiðis vera í molum. „Ég fékk áfallahjálp strax þegar þetta gerðist og hef síðan verið hjá sálfræðingi sem hefur hjálpað mér að takast á við áfallastreituröskun sem hefur fylgt þessu. Ég endurupplifi nefnilega enn atvikið í huganum og fæ matraðir, heilu ári seinna.“

Ekkert heyrst í lögreglu eða Hreyfli
Verst þykir Theódóru þó að hafa ekki fengið svör frá lögreglunni um hvar málið sé statt, þrátt fyrir að hafa reynt að setja sig í samband við lögreglumanninn sem tók skýrsluna. Hún hafi heldur ekki enn fengið afsökunarbeiðni frá Hreyfli, ekki svo mikið sem heyrt í forsvarsmönnum fyrirtækisins.

„Nei, ég hef ekkert heyrt,“ segir hún ósátt. „Hvorki í framkvæmdastjóra Hreyfils, eiganda bílsins né ökumanninum. Mér skilst reyndar að bílstjórinn hafi sagt eiganda bílsins að hann hefði ekki séð mig þegar þetta gerðist og því sé rangt að hann hafi stungið af. Þetta er því orð gegn orði. Ég veit ekki til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur bílstjóranum, ég held að honum hafi ekki einu sinni verið veitt tiltal út af þessu. Og eftir því sem ég kemst næst starfar hann enn hjá Hreyfli,“ segir hún og kveðst vera reið og sár yfir skeytingarleysi fyrirtækisins.

- Auglýsing -

„Ég er satt að segja hissa á þessari framkomu þar sem ég bjóst við að stórt fyrirtæki eins og Hreyfill tæki einhverja ábyrgð. En nei, ekkert gerist. Mér líður eins og þetta skipti engu máli, að maður sé nánast einskis virði,“ segir hún og kveðst vera að skoða næstu skref. „Ég er staðráðin í að leita réttar míns, það er í vinnslu.“

Þess má geta að Mannlíf hafði samband við Hreyfil vegna málsins. Vignir Þröstur Hjálmarsson deildarstjóri varð fyrir svörum en hann hafði ekki heyrt um málið og óskaði eftir því að haft yrði samband við núverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Harald Gunnarsson. Haraldur var hins vegar vant við látinn. Hjá lögreglu fengust þá svör að rannsókn málsins hefði tekið skamman tíma og að því loknu verið sent til ákærusviðs, þar sem málið virðist liggja enn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -