Eiríkur Sigurbjörnsson, sjónvarpsstjóri kristilegu sjónvarpsstöðvarinnar Omega, segist fullkomlega saklaus gagnvart því skattasvindli og peningaþvætti sem hann var dæmdur fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur nýverið. Í samtali við Mannlíf er hann vongóður um að niðurstöðunni verði snúið við á næsta dómstigi.
Eiríkur var ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti á árunum 2011 til 2016. Á því tímabili á hann að hafa vantalið 67 milljónir sem teknar voru út af greiðslukortum af bankareikningi Gospel Channel Evrópa hjá norska bankanum DNB. Þá var Eiríki gefið að sök að hafa ekki talið fram fram úttektir af viðskiptareikningi hjá Global Mission Network upp á rúmar 11 milljónir.
Eiríkur var dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða tæplega 109 milljónir í sekt vegna brotanna. 360 daga fangelsi kemur í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá því að dómurinn var birtur. Sjálfur fór Eiríkur fram á frávísun málsins.
Aðspurður segist Eiríki hafa verið mjög brugðið við fréttaflutning af niðurstöðu dómstólsins. „Þessu er slegið upp eins og ég sé á leið í fangelsi, slegið upp myndum af mér með fyrirsögnum um peningaþvætti. Ég varð bara skíthræddur við að lesa þessar fréttir. Þetta er ekki svona og ég er búinn að áfrýja þessu. Það er fjaðrafok núna en ég trúi ekki öðru en þegar Landsréttur tekur á þessu verði þetta dæmt ógilt.“
„Þetta er bara klúður. Það hefur aldrei verið í mínum huga að svindla. Ég hef aldrei tekið peninga ófrjálsri hendi og er til Guðs alveg stálheiðarlegur. Allar tekjur sem ég hef fengið hérna heima hef ég gefið upp. Allt saman. Af því ég vil hafa góða samvisku og staðið fyrir framan hvern mann og sagt: „Ég hef aldrei tekið neitt í vasann öðruvísi en það sé skráð““.
Frávísunarkrafa Eiríks byggði á því að hann afhendi sjálfur gögn til ríkisskattstjóra, útprentanir af reikningum og úttektum erlendis, og gerði það í góðri trú. Þá var honum ekki ljóst að hann væri með réttarstöðu sakbornings en það voru hans eigin gögn sem felldu á hann sök fyrir dómi.