Borið hefur á því að hugmyndir um að fresta landsfundi Sjálfstæðisflokksins fram á haust leggist illa í marga flokksmenn, en boðað hafði verið til landsfundarins í lok febrúar. Í samtali við RÚV sagði Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur að líklega vilji Sjálfstæðismenn uppgjör eftir stjórnarsetuna síðustu sjö árin og niðurstöðu kosninganna er fóru fram á dögunum:
„Og vilji einfaldlega setjast á landsfund til að fara yfir þau mál og hugsanlega þá velja sér nýja forystu. Það blasir alveg við að það kraumar þarna óánægja undir niðri með stöðu flokksins. Sem getur reynst erfitt fyrir forystuna að reyna að fresta allavegana of lengi,“ sagði Eiríkur sem telur skiljanlegt að forystan vilji tíma til að melta niðurstöður kosninganna og ráða síðan ráðum sínum:
„Bjarni Benediktsson hefur auðvitað verið farsæll formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur setið lengi. Flokkurinn hefur stöðugt verið að missa fylgi og skilar núna verstu niðurstöðu frá upphafi þannig að staða hans er auðvitað veik vegna niðurstöðunnar úr kosningunum. En að sumu leyti er breytt stjórnmálaumhverfi og ekki hægt að gera þá kröfu að Sjálfstæðisflokkurinn sé 40% flokkur eins og hann var áður. En ég held að mörgum Sjálfstæðismönnum svíði að sjá hann kominn undir fimmtung atkvæða og þar hafi nú legið einhver sársaukamörk. Þannig að það má gera ráð fyrir því að það verði áköf krafa um breytingar í forystu flokksins. Það gerist nú yfirleitt þegar stjórnmálaflokkar eru í svona stöðu.“