Eiríkur Auðunn Auðunsson fisksali lætur ekki fiskverð á mörkuðum hafa áhrif á verðlagningu í fiskbúð sinni. Hann forðast sveiflur og heldur verðinu jöfnu þótt hækkanir verði á mörkuðum. „Ég tek sjálfur á mig sveiflur á meðan þær ganga yfir. Ég hleyp ekki eftir tímabundnum hækkunum“ segir hann í samtali við Mannlíf.
Eins og Mannlíf greindi frá í gær er verð á ýsuflökum mjög hátt um þessar mundir. Dæmi eru um að kílóverð á ýsu og lambalæri sé það sama. Gríðarlegar hækkanir á vöruverði dynja nú á landsmönnum.
Eiríkur er með sína eigin vinnslu og verslar sjálfur af fiskmörkuðum. Hann vill halda sanngjörnu verði og ekki gera sínum viðskiptavinum þann óleik að vera með rokkandi verð.
Eiríkur rekur Fiskbúðina Hvaleyrarbraut 2, Hafnarfirði. Hann byrjaði að vinna 16 ára í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi og hefur alla sína starfsævi unnið í fiskbúð. Hafnfirðingar eru mjög duglegir að versla hjá honum og jafnvel sameinast fólk úr öðrum sveitarfélögum í bíla og kemur og verslar hjá honum.