Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Nú er búið að hafa af manni jólin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiríkur Sigurðsson er þaulreyndur skipstjóri til tæplega fjörutíu ára. Hann er aflakló, þykir slyngur við veiðar og leiðbeinir sínum sjógörpum frá brúnni í frystitogaranum Reval Viking. Þegar lagt er úr höfn á veturna er stefnan sett djúpt inn í svartasta myrkrið sem er að finna á jarðarkringlunni. Og á meðan vetur konungur ræður ríkjum er myrkrið alltaf á sínum stað. Fiskimið þessara sæfara er nefnilega nærri Norðurpólnum, í ríki ís og kulda. Hér, á þessum slóðum eru öldurnar engin smásmíði. Margra metra háar æða þær hvítflissandi í átt að skipinu, en Eiríkur er öllu vanur og stýrir fleyinu upp úr djúpum öldudölum sem í ofsaveðrum virðist aldrei ætla að enda.

En svo kannski aðra daga, þegar dagurinn losar sig við síðustu stálgráa tónana og fær aftur sinn lit og kannski skín sólin, þá er líklega hvergi fallegra, en akkúrat hér, á dekkinu á Reval Viking, innanum ísbreiður og jaka og síðan klýfur selur sjóinn og horfir forvitinn á skipsverja. Ekki langt undan er örugglega ísbjörn sem nuddar saman hrömmunum og hugsar sér gott til glóðarinnar.

Þannig sér blaðamaður þennan heimshluta alla vega fyrir sér þar sem náttúruöflin sýna enga vægð. Í huga Eiríks eru miðin á þessum slóðum auðvitað ekki sveipuð neinum rómantískum blæ. Með nokkrum vel völdum orðum kippir hann blaðamanni inn í ískaldan, kolbikasvartan raunveruleikann á norðurslóðum. Eiríkur og áhöfnin eru við veiðar yfir jól og áramót á togara sem smíðaður var árið 2000 og telur 2.350 brúttótonn.  Reval Viking er 61 metri að lengd og er skráð í Eistlandi. Eigendur eru Íslendingar og Danir. Eiríkur ætlaði að eyða jólunum með fjölskyldunni sinni en hann getur bölvað kórónaveirunni fyrir að enn ein jólin er hann fjarri ástvinum sínum. Hann er eini Íslendingurinn um borð.

Fjölskyldustund á Hlíðarenda. Guðrún ásamt dætrunum.

Eiríkur er kvæntur Guðrúnu Sæmundsdóttur sem um árabil lék knattspyrnu með Val og var ein sú fremsta á sínu sviði. Eiríkur og Guðrún eiga fjórar stúlkur sem nú feta hver á fætur annarri í fótspor móður sinnar og hafa vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína. Fyrr á árinu voru þrjár af systrunum, þær Málfríður Anna, Hlín og Arna í byrjunarliði Vals í meistaradeildinni. Þá styttist í að sú fjórða, Bryndís, bætist í hópinn.

Víða komið við

Eiríkur hefur ýmsa fjöruna sopið á sínum ferli í skipstjórastól. Hann var í einu aðalhlutverkanna í Svalbarðardeilunni árið 1994 og sneri þá oft á norsk yfirvöld sem reyndu að íslenskum sið að klippa á togvíranna en höfðu ekki erindi sem erfiði. Deilan harðnaði, Eiríki var, við annan mann, stungið í steininn í Noregi eftir að norski herinn hafði í þrígang skotið á skip hans. En frásögn Eiríks af þeim ótrúlegu atburðum má nálgast hér. Þá hefur Eiríkur ratað í fjölmiðla fyrir eitt og annað, meðal annars að bjarga áhöfn úr brennandi skipi og leggja sitt af mörkum fyrir bætt kjör sjómanna.

- Auglýsing -

Í þetta sinn er Eiríkur dreginn fram á sviðið af blaðamanni sem falaðist eftir viðtali er hann las stutta hugvekju á Facebook-síðu skipstjórans. Þar gagnrýndi Eiríkur óþolinmæði margra Íslendinga. Þá er Eiríkur afar ósáttur við framgöngu Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, eftir að hafa grímulaus tekið þátt í veisluhöldum í Ásmundarsal. Um leið þykir Eiríki sorglegt að sjá einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar nýta sér atburðinn til að slá pólitískar keilur.

Í pistlinum á Facebook birti Eiríkur mynd af togaranum Reval Viking með yfirskriftinni:

„Þetta er „jólakúlan mín“

Jólakúla Eiríks

Greindi Eiríkur frá því að hann myndi eyða jólunum á 80 gráðum norðlægrar breiddar, í rúmlega 20 stiga frosti, myrkri og ís, órafjarri sínum nánustu, skammt frá norðurpólnum. Eiríkur og áhöfn hans eru þeir einu sem eru á veiðum svo norðarlega, það er engu líkara en að þeir séu einir í einmana veröld og mörg hundruð mílur í næstu skip. Eiríkur sagði:

- Auglýsing -

„Ég „glotti við fót“ af meðaumkun þegar ég heyri fólk bera sig aumlega yfir að þurfa að halda jólin með sinni nánustu fjölskyldu eingöngu og neyðast jafnvel til að sleppa fjölmennum jólaboðum þetta árið. Mikið er heimsins böl og óréttlæti. Ekki lítið sem lagt er á fólk!“

Í samtali við Mannlíf kveðst Eiríkur hafa legið undir feldi í nokkurn tíma áður en hann nýtti slitrótt netsambandið til að koma hugvekju sinni á framfæri.

„Kveikjan að því að ég skrifaði þessi orð var að málsmetandi maður í þjóðfélaginu gagnrýndi sóttvarnayfirvöld harðlega og sagði:

„Nú er búið að hafa af manni jólin“.

Eiríkur segir með ólíkindum að verða vitni að hegðun sumra Íslendinga. Á hann bágt með að skilja af hverju sumir landar hans eigi erfitt með að fara, án þess að reka upp harmakvein, eftir tilmælum sóttvarnaryfirvalda. Eiríkur metur það svo að ekki sé um miklar fórnir að ræða.

„Er það eitthvað skelfilegt að þurfa að vera fimm daga í sóttkví einhvers staðar í vellystingum í sumarbústað með allt til alls? Hita og rafmagn, netsamband, síma, nóg að borða og mega fara út í göngutúr? Og er það mikli „fórn“ að sleppa fjölmennu jólaboði í eitt skipti?  Á fólk ekki bara að þakka fyrir að geta verið allt upp í tíu saman á jólunum með sinni nánustu fjölskyldu? Ég skil ekki að fullorðið fólk skuli væla yfir því,“ segir Eiríkur sem margsinnis hefur verið við veiðar þessa hátíðardaga, bæði yfir jól og áramót.

Hin óendanlega fegurð náttúrunnar á norðurslóðum

Eiríkur er mikill fjölskyldumaður og náinn sínu fólki, börnum og konu. Það eru þung skref að fara upp landganginn, vitandi að eftir nokkrar vikur eru jól, þar sem hann verður fjarri fjölskyldunni, innan um hafís og kulda. Hann stýrir skipinu út úr höfninni og hverfur svo inn í myrkrið og stefnan er sett á einn einmanalegasta stað á jarðríki, þar sem kári ræður ríkjum þessi misserin.

Eiríkur hefur ekki bara misst af útskrift dætra sinna. Hann hefur líka orðið að sleppa jarðarförum ættingja. Eiríkur er eini Íslendingurinn um borð að þessu sinni og það er enginn til að tala við eða fagna jólum.  Aðrir í áhöfninni eru frá Eistlandi og Úkraínu halda rússnesk jól.

„Það var erfiðara þegar þær voru litlar,“ segir Eiríkur og kveðst auðvitað sakna barnanna. „Ég held að þetta taki meira á þær.“

„Menningin er þannig að skipstjórinn er hálfgerður guð um borð og menn ræða ekkert sín persónulegu mál við hann og því hef ég  engan til að tala við eða fagna með. Þar að auki tala flestir eingöngu rússnesku,“ segir Eiríkur.

Ofan á einangrunina bætist takmarkað net – og símasamband. Þá líða oft fleiri dagar án þess að skipverjar hafi nokkra hugmynd um hvað sé að gerast í heiminum. Áhöfnin er á fullu í vinnu yfir jólin, eins og alltaf, og aldrei stoppað.“

Velur ekki túranna

Eiríkur er spurður hvort hann sé ekki að kveinka sér heldur mikið yfir hlutskipti sínu. Hann hafi valið það sjálfur að vera úti yfir hátíðardaga í gegnum árin. Eiríkur svarar að þetta sé umræða sem oft komi upp á yfirborðið en eigi ekki rétt á sér. Hann segir:

„Auðvitað velur maður starfsvettvanginn en það gengur ekkert að ætla að velja sér þá túra sem henta best og ætlast til að aðrir taki hina. Þetta virkar ekki þannig. Skip sem eru skráð á Íslandi eru skyldug til að vera í landi um jól og áramót en það er nánast einsdæmi og þekkist hvergi annars staðar sem ég veit um.  Af því að mitt skip er skráð í Eistlandi eru engin takmörk og við megum var úti hvenær sem er og ekkert hámark á túralengd heldur. Ég hef verið úti á sjó flest jól og áramót á síðustu árum en átti að vera heima núna.“

En vegna heimsfaraldurs fóru þau plön í súginn og lengd túranna breyttist.

„Menn geta sagt að þetta sé val en það er ekki auðvelt að fórna starfinu og þar með lífsafkomu fjölskyldunnar til að geta verið heima á jólunum.  Vegna Covid þurftum við að reyna að lengja túrana til að geta fækkað áhafnaskiptum og þetta hefur verið mjög erfitt alveg síðan í febrúar. Við reynum allt til að fá ekki smit um borð því við vitum að ef einn er smitaður eru mestar líkur á að allir smitist og skipið þar með úr leik í einhvern tíma.“

Skipsverjar um borð

Strax í byrjun árs hafði kórónaveiran  áhrif á lengd túra. Eiríkur sigldi sínu skipi úr höfn í lok febrúar og átti að vera í höfn mánuði síðar. Þegar Eiríkur taldi að nú kæmist hann brátt heim til fjölskyldunnar kom í ljós að Norðmenn höfðu sett bann á áhafnaskipti en þar landar skipið.

„Ég komst ekki heim fyrr en eftir 120 daga á sjó. Það var svo sannarlega ekki mitt val. Þetta hljómar örugglega eins og versta væl en það er ekki meiningin, ég er bara að lýsa aðstæðum.“

Eiríkur bætir við:

„Ég veit alveg að fullt af fólki í landi þarf að vinna á stórhátíðum en munurinn er kannski sá að það fólk hefur oftast aðra í kringum sig og þarf oftast ekki að vera nema einhverja klukkutíma eða í mesta lagi daga í burtu en ekki margar vikur eða mánuði.  Hefur aðgang að síma, Internetið, sjónvarpi og útvarpi og ekki síst mikilvægt; getur komist heim ef eitthvað alvarlegt kemur uppá í fjölskyldunni. Hérna er enginn möguleiki til þess.“

Sjómennska í Kófinu

Íslenskir sjómenn sigla um öll heimsins höf á margskonar skipum, en líklega eru flestir á flutninga- og fiskiskipum. Það er allur gangur á því hvar skipin eru skráð en það segir samt ekkert um eignarhaldið. Þau geta verið allt frá því að vera í 100 prósent eigu Íslendinga og svo alveg án þess að Ísland komi nokkurs staðar nærri. Allir sjómenn á erlendis-skráðum skipum sem Eiríkur þekkir, borga skatta og skyldur á Íslandi og ættu því að njóta sömu réttinda og aðrir íslenskir ríkisborgarar.

Fljótlega eftir að Corona-fárið byrjaði í mars voru öll áhafnaskipti í erlendum höfnum bönnuð. Fjöldi sjómanna urðu að sætta sig við að vera fastir um borð í skipum sínum í allt að 100 til 150 daga.

„Þannig var það m.a. á mínu skipi en við lönduðum tvisvar í Noregi á þeim tíma og þá máttum við ekki einu sinni fara upp á bryggju á meðan við vorum í landi og engan mann hitta,“ segir Eiríkur og bætir við:

„Þetta úthald lagðist mjög misjafnlega í menn og alls ekki allir sem þoldu það vel enda aðstæður manna misjafnar.  Ég veit um dæmi þar sem menn voru komnir í verulega sjálfsvígshættu. Verst var samt óvissan og að vita ekki hvort það yrðu nokkrir mánuðir eða jafnvel heilt ár þangað til menn kæmust heim. Um það vissi enginn.“

Jólamaturinn á sjónum var hreint afbragđ þetta árið.

Fjöldi þjóða bönnuðu áhafnarskipti og þekkir Eiríku til sjómanns sem komst ekki til síns heima fyrr en eftir sex og hálfan mánuð úti á sjó. Þó að takmörkunum hafi verið aflétt í maí var í fæstum tilvikum gerlegt að skipta út heilli áhöfn í einu.

„Á mínu skipi voru menn búnir að vera um borð frá 100 og upp í 220 daga þegar þetta var og auðvitað í sóttkví megnið af tímanum því við erum ekkert að hitta annað fólk úti á sjó og enginn hefur mér vitanlega haldið því fram að óværan berist með fiskum eða fuglum. Þrátt fyrir það máttum við engan mann hitta og hvergi koma við í sjoppu eða verslun á leiðinni út á flugvöll loksins þegar hægt var að skipta um hluta af áhöfninni,“ segir Eiríkur.

Á myndinni eru nokkrir „feitir forstjórar“ að bíða eftir ríkisaðstoð.

„Við vorum búnir að vera mánuðum saman í sóttkví en á sama tíma var fólk í landi þar sem við komum búið að hafa nánast frjálsar hendur allan tímann með búðarferðir, samkomusókn og hitting af öllu tagi en okkur „sóttkvíarrottunum“ var ekki treyst til að hitta nokkurn mann.“

Auðvelt er að mati Eiríks að rökstyðja að um gróft brot á mannréttindum sé að ræða. Hann veit ekki til þess að nokkur starfsstétt hafi mátt þola viðlíka meðferð. Landgöngubann hafi sem dæmi gert það að verkum að áhöfn sem hafði verið í fleiri vikur við einhverjar erfiðustu aðstæður voru í stofufangelsi um borð eftir langa túra og þar urðu þeir að dúsa þar til var aftur haldið á miðin. Ein undantekning var á þessu, væru Norðmenn um borð, máttu þeir leika allar sínar listir og spranga óáreittir um allar koppagrundir.

„Ég veit ekki til þess að veiran sé svo klár að hún geti lagst misjafnt á fólk eftir því hvað stendur í vegabréfum þess,“ segir Eiríkur og bætir við að galið sé að setja svo sjómenn á fiskiskipum, sem eru mjög lengi í hverjum túr, undir sama hatt og sjómenn á ferjum.

Nóg af sel að éta og ísbreiðurnar endalausar. Norska Hafrannsóknastofnunin segir að ekki hafi verið meiri ís við Svalbarða síðan árið 1988 Félagarnir á veiðislóðinni fóru í kröfugöngu í dag. Aðalkrafan var að ísbirnirnir mundu hætta að éta þá. Fullkomlega réttmæt krafa, mundi ég halda, segir Eiríkur um þessa mynd.

„Það er svo vitlaust að engu tali tekur. Ég hef ekki orðið var við að hagsmunasamtök sjómanna hafi mótmælt þessu mikið og líklega reiknaði svo sem enginn með því. Það væri kannski ráð fyrir þá sem málum stjórna að pæla aðeins í þessu. Sjómenn átta sig auðvitað á alvarleika málsins og þessi veira er ekkert grín en það verður að vera einhver skynsemi og meðalhóf í þessu öllu.“

Syrgir úti á sjó

Á síðustu árum hefur Eiríkur syrgt föður sinn, báða tengdaforeldra og fleiri nána vini og fjölskyldumeðlimi. Það hefur Eiríkur neyðst til að gera að mestu í einrúmi.

„Ég hef aldrei getað verið viðstaddur útför eða kvatt þau. Það er tveggja til þriggja sólarhringa sigling í land og það er bara ekki hægt að stoppa svona skip sem kostar marga milljarða og er með 25 manna áhöfn í nærri viku, sigling fram og til baka, fyrir einn mann.“

Þá hefur Eiríkur misst af sumum útskriftarveislum dætra sinna úr mennta- og háskólum, fyrir utan alla aðra merkisatburði í fjölskyldunni.

„En núna ætla ég að hætta að væla,“  segir Eiríkur kankvís og bætir við: „Þessi viðbót kom bara vegna þess að ég hef fengið að heyra það síðustu daga að ég hafi engan rétt á að kvarta, sem ég er samt ekki að gera, vegna þess að ég „velji“ að vera úti á sjó um jól og áramót. Til að allrar sanngirni sé gætt þá skal tekið fram að við erum ekki alltaf svona norðarlega og oft höfum við þokkalegt síma- og netsamband, þó það sé ekki hér.“

Óttast annan skell

Eiríkur er í þeim hópi sem óttast eina COVID-bylgju til viðbótar. Hann merkir það á því að fyrir jól mat hann það svo að fjölmargir virtust ætla að hunsa tilmæli sóttvarnarlæknis og ekki átta sig á hversu alvarleg eftirköst veirunnar séu. Þá hrósar hann Þórólfi og samstarfsmönnum hans og telur þau hafa staðið sig með miklum sóma.

„Fólk á bara að fara eftir því sem þau segja í einu og öllu, punktur!“

Eiríkur tekur sterkt til orða og það er því ekki hægt að sleppa honum án þess að inna hann eftir hvaða skoðun hann hafi á uppátæki Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni var staðinn að því að brjóta reglur um sóttvarnar. Eiríkur segir flesta Íslendinga hafa lagt sig fram um að fylgja ábendingum sótvarnarlæknis. Íslendingar hafi lagt miklar fórnir. Þeir hafi ekki hitt foreldra sína, systkini eða vini í fleiri mánuði.  Þá hafi margir misst vinnu og atvinnulífið orðið af gífurlegum fjárhæðum. Fyrirtæki hafi skellt í lás og farið í þrot.

„Svo ég nefni dæmi í mínu umhverfi þá stoppuðum við skipið í heila viku í landi fyrir þennan túr til að tryggja það að enginn af þeim sem voru að koma úr fríi væru smitaðir. Þeir voru látnir vera í einangrun á sóttvarnahóteli og þurftu að taka fjórar skimanir áður en þeir fengu að koma um borð. Þetta heitir að sýna ábyrgð en kostaði tugi milljóna í aflatjóni,“ segir Eiríkur.

Félaginn á myndinni varð á okkar vegi í morgun. Hann virtist sem betur fer í góðum holdum og kippti sér lítið upp við ónæðið.

„Ríkisstjórninni hefur orðið tíðrætt um að allir þurfi að standa saman í baráttunni gegn Covid en þá kemur fjármálaráðherra og sínir svo mikið dómgreindarleysi að maður trúir varla því sem maður sér. Eftir höfðinu dansa limirnir og ef þetta á að vera fyrirmyndin er eins gott að biðja guð að blessa Ísland aftur. Þetta er ófyrirgefanleg hegðun.“

Ef bráðnauðsynlegt hefði verið fyrir fjármálaráðherra að sækja samkunduna heim, ef þjóðarhagur væri í húfi, hefði Bjarni, að mati Eiríks, engu að síður átt að huga vandlega að smitvörnum.

„En þetta var fullkomlega ónauðsynlegt partíhald, sem er fáránlegt,“ segir Eiríkur og bætir svo við: „Að því sögðu þoli ég ekki stjórnmálafólk úr öðrum flokkum sem er að reyna að nýta sér þessi afglöp í eigin þágu og til að slá pólitískar keilur.“

Ævintýri á jóladag

Stundum gerast óvænt og skemmtileg ævintýri á sjónum. Eitt slíkt átti sér stað á jóladag. Eiríkur lýsir þeirri atburðarás á þessa leið á Facebook-síðu sinni:

„Eftir að hafa verið að veiðum norður í rassgati að undanförnu neyddumst við til að hörfa undan stormi og hafís vestur fyrir Svalbarða og inn á Isfjord á aðfangadag. Við Isfjord stendur höfuðstaðurinn Longyearbyen þar sem Kristján vinur minn Breiðfjörð, Svavars heitins Cesars– og Guðnýjarson býr ásamt fjölskyldu sinni.

Í gær, jóladag, vorum við að veiðum skammt frá landi við Longyearbyen þegar Kristján mætti í fjöruna og óskaði okkur gleðilegra jóla með ljósmerkjum á morsi. En fyrir þá sem ekki vita hvað „morse“ er, þá er það stafróf sem notað er til fjarskipta með ljós- eða hljóðmerkjum á sjó.

Kristján var að sjálfsögðu alvopnaður enda staddur á kunnum bjarndýraslóðum og skammt frá þeim stað þar sem ísbjörn varð manni að bana í haust.

Þetta er frumlegasta og skemmtilegasta jólakveðja sem ég hef fengið og munaði minnstu að við félagarnir, ég og Skröggur dyttum í jólagírinn.

Það má eiginlega segja að þetta hafi verið Covidjólahittingur hjá okkur Kristjáni.

Ef vel er gáð sést skært ljós neðarlega til hægri á annarri myndinni en þar er Kristján í fjörunni að morsa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -