Staðfest COVID-19 smit hér á landi eru orðin 1.586 talsins samkvæmt nýjustu tölum á covid.is. Greindum smitum hefur fjölgað um 24 á síðasta sólarhring.
235 sýni voru rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær, 23 reyndust jákvæð. Þá voru 877 sýni rannsökuð hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær, eitt þeirra var jákvætt.
Alls eru nú 4.407 einstaklingar í sóttkví hér á landi vegna útbreiðslu veirunnar. Samkvæmt tölum covid.is hafa 559 einstaklingar náð bata eftir að hafa smitast.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar klukkan tvö í dag. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma D. Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, munu fara yfir stöðu mála. Gestur fundarins verður Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.