Forsvarsmenn Emirates flugfélagsins heimsóttu Ísland til að kanna þann möguleika að hefja flug til og frá landinu. Verði það raunin opnast Íslendingum dyr að mörgum af mest framandi stöðum heims.
Samkvæmt heimildum Viðskiptamoggans sendi Emirates, sem er ríkisflugfélagið í Dúbaí, fulltrúa sína hingað til lands og fundaði sendinefndin með fyrirtækjum sem tengjast flugrekstri. Hins vegar mun nefndin ekki hafa fundað með Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll. Tekið er fram að málið sé á frumstigi.
Emirates er eitt af stærstu flugfélögum heims með um 250 flugvélar í flota sínum. Heimahöfn þess er í Dúbaí en þaðan flýgur félagið til 138 áfangastaða í öllum heimshornum. Auk þess heldur Emirates úti áætlunarflugi til Oslóar, Stokkhólms og Kaupmannahafnar.