Föstudagur 27. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Eiturlyf fyrir 50 milljónir í Vogum – Blásaklaus húsmóðir með tvö kíló af kókaíni í forstofunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kókaínsending sem kom frá Þýskalandi til Íslands fyrir tæpum sjö mánuðum átti eftir að draga dilk á eftir sér. Um var að ræða tvö kíló sem send voru á nafn eldri manns í Vogum á Vatnsleysuströnd. Húsráðendur munu hafa komið af fjöllum þegar sendingin barst á heimili þeirra. Þau tóku þó við pakkanum og greiddu uppsettan sendingarkostnað.

Mannlíf ræddi við konuna sem fullyrðir að vandræðagangur hafi verið með pakkann sem hafi verið í nokkra daga í forstofunni hjá henni og veikum manni hennar áður en sonur þeirra, kunnur athafnamaður, kom og sótti pakkann og flutti hann í nærliggjandi hús sem hann og þáverandi eiginkona hans voru með í byggingu. Aðrar heimildir eru um að pakkinn hafi aðeins stoppað við í forstofu hjónanna í örfáar klukkustundir áður en sonurinn nálgaðist sendinguna.

Húsið vaktað

Það sem fólkið í Vogum vissi ekki í október árið 2022 var að fylgst var með hverju fótmáli þeirra, símar hleraðir og húsið vaktað af dulbúnum lögreglumönnum. Yfirvöld í Þýskalandi höfðu uppgötvað efnið og ákveðið að fylgja pakkanum eftir til Íslands og upplýsa hverjir stæðu að glæpnum. Sendibúnaði var komið fyrir í pakkanum og honum fylgt eftir alla leið í Voga á Vatnsleysuströnd þar sem viðtakendur voru eldra fólk sem þótti afar ólíklegt til að standa í smygli á svo miklu af fíkniefnum. Innkaupsverðið Evrópu er talið vera um 10 milljónir króna, samkvæmt heimildum Mannlífs, en götuvirði efnanna, eftir íblöndun, allt að 50 milljónum króna og því gríðarlega mikið undir fyrir þá sem stóðu að innflutningnum.

Konan hringdi og lét hjónin vita af pakkanum. Þegar athafnamaðurinn kom með pakkann á áfangastað í nágrenninu dró til tíðinda. Lögreglan mætti og handtók manninn og 16 ára son hans og í framhaldinu eiginkonu hans, flugfreyju hjá Icelandair. Athafnmaðurinn þvertók fyrir að eiga efnin og kvaðst koma af fjöllum. Hann kunni þó enga skýringu á því að efnin voru send á foreldra hans og kvaðst ekkert vita um erlendan sendanda efnanna. Unglingurinn var talinn alsaklaus. Þá er fátt sem bendir til beinnar aðildar flugfreyjunnar að því máli. Spurningar eru þó uppi um afhendingu á peningum til ótilgreinds aðila í Hollandi.

Ásökun um nauðgun

Lögreglan lagði ekki trúnað á frásögn mannsins. Yfirgnæfandi líkur eru á aðild hans þótt hugsanlega sé stærri aðili að baki. Hjónin voru hneppt í gæsluvarðhald auk þess að meintur samstarfsmaður hjónanna var handtekinn á leið frá húsi hjónanna og hnepptur í gæsluvarðhald. Konunni var sleppt eftir nokkra daga en maðurinn sat inni á meðan málið var til rannsóknar. Gæsluvarðhaldið reyndist henni þó þungbært og hún hafnaði inni á geðdeild þar sem næsti hluti þessa máls hófst. Lögmaður mannsins var dæmdur frá málinu vegna áralangra vináttutengsla við þau hjónin. Hann heimsótti konuna á geðdeild þar sem þau áttu í nánum samskiptum en ekki kynferðislegum. Það mál átti eftir að vekja enn meiri athygli en kókaínsmyglið eftir að það var látið berast að lögmaðurinn hefði átt í ástarsambandi við eiginkonu skjólstæðings síns.

Grein Vísis frá byrjun mánaðarins.

Vefmiðillinn Vísir sagði frá geðdeildarmálinu og lét í veðri vaka að lögmaðurinn hefði misnotað konuna og jafnvel nauðgað henni á geðdeild. Málinu var lýst sem einstöku í íslenskri réttarsögu. Það voru blaðamennirnir Magnús Heimir Jónasson og Oddur Ævar Gunnarsson eru skrifaðir fyrir greininni. Oddur Ævar er blaðamaður á Vísi en Magnús Heimir var á Fréttablaðinu þegar það fór í þrot og starfaði ekki á Vísi. Vísir fylgdi málinu ekki eftir og ræddi ekki við lögmanninn. Mannlíf ræddi við lögmanninn sem staðfesti að hann hefði átt í ástarsambandi við konuna en harðneitaði að hafa beitt hana nauðung. „Þetta var einfaldlega ástarsamband og mistök af minni hálfu,“ sagði hann.

- Auglýsing -

Ásökun á lögmann

Lögmaðurinn þvertók fyrir það en viðurkennndi að þau hefðu átt í ástarsambandi sem færst hefði á alvarlegt stig eftir að konan útskrifaðist af geðdeildinni. Í frétt Vísis í byrjun þessa mánaðar var því haldið fram að lögmaðurinn hefði misbeitt valdi sínu sem verjandi og haldið eiginmanninum lengur í gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til svo hann gæti ræktað ástarsambandið við konuna. Fátt í gögnum málsins styður að lögmaðurinn hafi brotið af sér með þessum hætti. Þegar konan var inni  á geðdeild var lögmaðurinn dæmdur í undrrétti frá því að gæta hagsmuna mannsins. Það mál var kært til Landsréttar sem staðfesti í framhaldinu að vegna  vináttutengsla gæti lögmaðurinn ekki gætt hagsmuna gæsluvarðhaldsfangans sem yrði að fá nýjan verjanda.

Konan vildi skilnað

Á meðan athafnamaðurinn var ennþá í gæsluvarðhaldi ákvað flugfreyjan að sækja um skilnað. Þannig var staðan þegar hann losnaði. Allt var komið í bál og brand. Hjónin voru grunuð um stórfellt smygl á kókaíninu auk þess að hafa smyglað til landsins frá Spáni miklu magni af ópíóðalyfjum sem áttu að gefa gríðarlegan hagnað. Lyfin eru lyfseðilsskyld á Íslandi en ekki á Spáni. Gríðarlegur hagnaður er af slíku smygli. Neysla þeirra stórhættuleg og hefur kostað mörg mannslíf að undanförnu. Lögreglan byggði grun sinn á símagögnum úr síma flugfreyjunnar sem hafði verið gerður upptækur. Samkvæmt þeim hafði konan meðal annars ráðlagt manninum að taka tiltekið flug frá Spáni til Íslands til að forðast leit.

Rekin frá Icelandair

Afleiðingarnar fyrir flugfreyjuna urðu alvarlegar. Hún stóð í skilnaði og var rekin úr starfi sínu hjá Icelandair. Þá slitnaði fljótlega upp úr sambandi hennar við lögmanninn. Nokkru eftir að frétt Vísis birtist var hún aftur lögð inn á geðdeild. Fréttaflutningur af málinu hafði að sögn valdið henni áfalli. Flugfreyjan og athafnaðurinn hafa nú sameinast í því að bera sakir á lögmanninn.

- Auglýsing -
Stjórnendur Icelandair brugðu skjótt við og ráku flugfreyjuna.

Lögmaðurinn sagði í samtali við Mannlíf að sér hefði, eftir krókaleiðum, borist há fjárkrafa gegn því að málið yrði fellt niður. Hann harðneitar að borga. Ekki eru til staðfest gögn um það en lögfræðingar sem virðast starfa fyrir hjónin óskuðu eftir fundi með lögmanninum til ræða framvindu málsins. Því erindi var ekki svarað.

Segist saklaus

Mannlíf hefur rætt við eiginmanninn sem vildi ekki á því stigi tjá sig efnislega um málin. Hann sver af sér sakir í kókaímálinu og smyglinu á ópíóíðunum. Hann staðhæfir að lögmaðurinn hafi með sambandinu við eiginkonuna brotið gegn þeim hjónum og rústað fjölskyldu hans og kallar eftir réttlæti þar. Hann sagðist jafnframt myndu una niðurstöðu dómstóla í kókaínmálinu, sem er enn á rannsóknarstigi. Hann lofaði að segja sína hlið málsins í Mannlífi. Móðir hans tekur í sama streng. Hún telur son sinn vera saklausan, enda hefði hann engin fjárráð til þess að kaupa svo mikið magn af eiturlyfjum. Hún efast því um sekt sonar síns en telur eðlilegt að réttarkerfið taki á málinu og upplýsi um það hvernig tvö kíló af kókaíni bárust inn á heimili þeirra hjóna í Vogum.

Áréttað skal að ekki hefur verið dæmt í málinu. Viðurlög við smygli af þessari stærðagráðu geta verið allt að þriggja ára fangelsi, ef sök sannast. Við bætist að ef sök sannast í ópíóíðamálinu þá liggur þar fangelsisdómur undir. Staða fólksins er því grafalvarleg.

Óljóst er hver staða ásakananna á hendur lögmanninum er. Það mál er einnig hjá lögreglu og yfirheyrslur hafa farið fram, meðal annars yfir honum og ástkonunni fyrrverandi.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -