Lögreglunni barst tilkynning um umferðarslys í Kópavogi í gær. Hafði verið ekið á hjólreiðamann sem var á leið yfir gangbraut og kastaðist hann 3-4 metra við höggið. Manninn verkjaði á nokkrum stöðum og ók eiginkona hans honum á Bráðadeild en hún var komin á vettvang.
Brotist var inn í fyrirtæki í hverfi 105 rétt fyrir klukkan átta í gærkvöld. Gluggi hafði verið spenntur upp en ekki er víst hverju var stolið.
Um klukkan tvö í nótt var lögregla kölluð á hótel í miðbæ Reykjavíkur. Þar var maður sem reyndist ofurölvi og hafði starfsfólk átt í vandræðum með hann. Maðurinn sem gistir venjulega í aðstöðu á vegum Reykjavíkurborgar var í straffi og sefur því á götunni í -7 gráðu frosti. Maðurinn fékk að gista í fangaklefa lögreglu.
Þá barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp í hverfi 108 í gærkvöld. Bifreið hafði verið ekið á ljósastaur en ekkert slys varð á fólki.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir af lögreglu í gærkvöld og nótt. Allir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.