Engar vísbendingar eru um að kórónaveiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum berist með matvælum. Þetta kemur fram í nýútgefnu áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA).
Í áliti EFSA er bent á fyrri faraldra af völdum skyldra kórónaveira en í þeim tilfellum áttu smit sér ekki stað með matvælum. Ekkert bendir til að kórónaveiran sem veldur COVID-19 sé öðruvísi að því leiti og geti borist með matvælum.
Stjórnvöld og vísindamenn um heim allan fylgjast náið með þróuninni og hafa enn þá ekki tilkynnt um smit með matvælum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út ráðleggingar um meðhöndlun matvæla í varúðarskyni þar sem hvatt er til handþvottar, að hita kjöt í gegn og að forðast krossmengun milli eldaðra og hrárra matvæla. Nánari upplýsingar er að finna á vef WHO.