Mánudagur 13. janúar, 2025
2.2 C
Reykjavik

„Ekkert hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er fyrir löngu orðið jólalegt um að litast í miðborg Reykjavíkur, en neðst í Skólavörðuholtinu er þó allt með kyrrum kjörum. Þar tekur Pálmar Ragnarsson á móti blaðamanni með þéttu handtaki og hlýlegu brosi. En Pálmar hefur að undanförnu getið sér gott orð sem fyrirlesari um samskipti fólks. Hann hefur einnig notið fádæma vinsælda sem körfuboltaþjálfari fyrir yngstu kynslóðina, en í því starfi hefur hann lagt áherslu á gleði og vellíðan barnanna.

Aðspurður hvort að hann sé kominn í hið víðfræga jólaskap brosir hann út að eyrum og segir að það sé í raun óumflýjanlegt í hans tilviki.

„Ég tapaði jólagleðinni um tíma á unglingsárunum og það var ekki fyrr en ég var fenginn til þess að koma með pabba mínum á jólaball í hlutverki jólasveins þegar ég var tuttugu og fjögurra ára sem þetta breyttist.

Ég man að ég var dauðstressaður og fannst þetta bæði óþægilegt og erfitt en samt nógu gaman til að gera þetta aftur. Síðan hef ég leikið jólasvein á hverju einasta ári í tíu ár og núorðið kemst ég auðvitað ekkert hjá því að fara í jólaskap, því á hverjum degi í desember syng ég jólalög,“ segir Pálmar og skellihlær.

Pálmar er ættaður norðan af Ströndum, alinn upp í Grafarvogi og kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu, hann segir að lífið hafi alfarið snúist um körfuna á hans yngri árum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Talar daglega við ókunnuga

Pálmar er ættaður norðan af Ströndum, alinn upp í Grafarvogi og kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu, hann segir að lífið hafi alfarið snúist um körfuna á hans yngri árum. „Ég var feiminn og hlédrægur strákur, átti mína vini en þorði ekki að tala fyrir framan fólk eða við ókunnuga, hvað þá stelpur. Það var ekki fyrr en ég var eiginlega neyddur til þess að taka á þessu í Versló, þegar ég var í tímum sem hétu tjáning. Þá þurfti ég fyrst að mæta og segja nafnið mitt fyrir framan bekkinn og það var ótrúlega erfitt.

Ég var með kvíðahnút í maganum og langaði til þess að sleppa því að mæta en gerði það þó og það var erfitt. Í næsta tíma átti maður líka að segja frá áhugamálum sínum og þannig skref fyrir skref og þetta skánaði smám saman. Þetta var fyrsta skrefið fyrir mig í þá átt að gera eitthvað sem mér fannst mjög erfitt og ég er ekki viss um að ég hefði einhvern tímann tekið þessi skref sem þurfti hefði ég ekki verið neyddur til þess á þessum tímapunkti. Núna, eftir að hafa sagt já við öllum tækifærum sem hafa boðist á lífsleiðinni, finnst mér ekki margt vera svo erfitt eða íþyngjandi lengur.“

- Auglýsing -

Pálmar segir að hann hafi á þessum árum sett sér það markmið að segja já og forðast ekki það sem hræddi hann. „Ef það er erfitt þá geri ég það. Hluti af þessu er að ég setti mér það markmið að tala við ókunnuga á hverjum degi. Oft bara í röðinni í bankanum, á kassanum í Bónus eða hvar sem er. Bara að spjalla án þess að vera uppáþrengjandi og langflestir taka þessu vel, en auðvitað verður maður að kunna sig og þekkja sín mörk. En ég held að fólk mætti gera meira af þessu frekar en að grúfa sig yfir símann. Við þurfum að temja okkur að vera með fólki og innan um fólk og leggja þá símana frá okkur.“

„Ef það er erfitt þá geri ég það. Hluti af þessu er að ég setti mér það markmið að tala við ókunnuga á hverjum degi. Oft bara í röðinni í bankanum, á kassanum í Bónus eða hvar sem er.“

Forsendan er góð samskipti

Pálmar segir að eftir að hafa verið duglegur námsmaður í grunnskóla hafi hann farið að slaka á og verið latur við námið í Versló. Eftir stúdentsprófið hafi hann svo ýmist verið að skussast við nám í sálfræði eða viðskiptafræði og árangurinn verið eftir því.

- Auglýsing -

„Ég var svona á þessu: Æ, þetta reddast-viðhorfi en það reddaðist auðvitað ekki af sjálfu sér því lífið snerist bara um körfubolta og félagslíf. Eftir þrjú ár af þessu bulli skráði ég mig aftur í sálfræði og setti mér loksins markmið. Ég ætlaði að dúxa. Ætlaði að læra meira og vera duglegri en allir hinir 350 sem skráðu sig. Ég var í frábærri stöðu til þess að leggja mig allan fram, nýtti mér bæði íþróttahugarfarið og keppnisskapið, mætti alla daga, um helgar, á afmælinu mínu, alltaf. Lærði eins og brjálæðingur og sagði öllum sem ég gat að ég væri að fara að dúxa, til þess að setja pressuna á mig. Svona gekk þetta í þrjú ár og heldurðu að ég hafi dúxað? Nei, en ég útskrifaðist og með góða einkunn svo ég þurfti ekki að sjá eftir neinu,“ segir Pálmar og hlær við tilhugsunina.

„Markmiðið er einfaldlega að standa sig vel og til þess þarf maður að leggja sig fram.“

Ég ætlaði að dúxa. Ætlaði að læra meira og vera duglegri en allir hinir 350 sem skráðu sig.

Pálmar lauk prófi með BS-gráðu í sálfræði og bætti síðar við sig MA-gráðu í viðskiptafræði. Á þessum tíma hefur hann einnig sinnt ýmsum störfum en flestir þekkja hann þó í hlutverki körfuboltaþjálfara barna.

„Ég sneri mér að þjálfun eftir að hafa meiðst illa á hné. Mig langaði ekki til þess að fara að þjálfa því mér fannst óþægilegt að þurfa að tala fyrir framan krakkana og hvað þá foreldrana. En ég lét tilleiðast og fann fljótt hvað þetta er rosalega skemmtilegt og var með þennan flokk í þrjú ár. Eftir það sneri ég mér alfarið að því að þjálfa yngstu börnin og þar fór ég geta mér góðs orðs fyrir að það mynduðust góð samskipti innan hópsins. Hvað börnunum líður vel, þau hlakka til að mæta, þau langar að leggja sig fram, og við þetta varð alveg gríðarleg fjölgun á æfingum.

Þessa ánægju rek ég til þeirrar áherslu að öllum börnum líði eins og þau séu mikilvægur hluti af hópnum, óháð getu. Það skiptir mig engu máli hvað barnið er flinkt eða hvort það hegðar sér vel. Ég vil að hvert einasta barn sem mætir á æfingu finni að það skipti máli og forsenda þess séu góð samskipti. Ekkert annað.“

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Að stíga skrefið formlega

Pálmar segir að það hafi svo verið í gegnum þjálfarastarfið sem hann byrjaði að halda fyrirlestra. Aldrei hafi honum dottið í hug að hann ætti eftir að vinna við það í fullu starfi að halda fyrirlestra á eigin vegum en nú, tveimur árum og einum 350 fyrirlestrum síðar, sé það samt raunin.

„Það merkilega er að ég hef aldrei beðið einhvern um að fá að halda fyrirlestur en þetta byrjaði í gegnum það að ÍSÍ hafði samband því þar á bæ höfðu menn frétt af minni nálgun. Þau voru að fara halda ráðstefnu um aðferðir í íþróttaþjálfun ungmenna og báðu mig um að koma og segja frá hvað ég er að gera með börnunum, segja frá samskiptunum við börnin. Mér fannst þetta erfið tilhugsun en ég sagði auðvitað já út af markmiði mínu um að taka erfiðum áskorunum. En mig langaði til þess að halda geggjaða ræðu og slá í gegn svo ég fór að semja og æfa mig sem skilaði sér í mjög fínni frammistöðu, þótt ég segi sjálfur frá.

Eftir þetta fór fleira fólk að hafa samband og biðja mig um að flytja þessa ræðu og í framhaldinu hafði Dale Carnegie samband og bað mig um að halda fyrirlestra fyrir þeirra fólk, fyrir sína þjálfara, og þá fékk ég stærsta hnútinn í magann. En mér hefur líkast til aldrei verið eins vel tekið og af þessu fólki sem vinnur við að halda ræður. Þau kunna að taka vel á móti fólki og láta því líða vel. Eftir þetta ákvað ég að að stofna síðu á Facebook, Pálmar Ragnarsson fyrirlestrar, og við það fór þetta á næsta stig. Er þar með orðinn fyrirlesari að atvinnu. Ég mæli með því ef maður er með einhvern draum að stíga skrefið svona formlega, því það gerir það enginn fyrir mann.“

Mæli með að ferðast einn

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs.

„Ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig eða pæla eitthvað í þessu, ákvað bara að fara til Mexíkó af því að mér finnst það hljóma vel og var harðákveðinn í að vera í ekki tölvupóstsambandi eða öðru slíku á meðan. Ég vissi ekkert hvað beið mín, keypti bara miða aðra leið og lét vaða. Það eina sem ég gerði daginn sem ég fór af stað var að bóka mér pláss á hosteli fyrstu þrjár næturnar. Þegar ég er kominn út, gerðist eitthvað innra með mér.

Ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig eða pæla eitthvað í þessu, ákvað bara að fara til Mexíkó af því að mér finnst það hljóma vel og var harðákveðinn í að vera í ekki tölvupóstsambandi eða öðru slíku á meðan.

Stressið, streitan og álagið sem var farið að segja til sín hreinlega gufaði upp. Það kom yfir mig einhver innri friður sem ég hafði nánast ekki fundið síðan ég var unglingur og svo fór ég að finna hvað þetta yrðimikið ævintýri. Ekkert plan og eina markmið að kynnast fólki og reyna að sjá mikið af spennandi hlutum. Þannig ferðaðist ég eftir því sem hugurinn bar mig hverju sinni, gisti á hostelum og kynntist mörgu frábæru fólki. Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt. Það er allt annað. Margir halda að þeir verði einmana en ég var það aldrei. Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana. Þegar maður ferðast á milli hostela er margt fólk sem er líka eitt á ferð og það hópar sig saman, kynnist og gerir skemmtilega hluti.

Ég lagði mig fram um að kynnast fólki frá Mexíkó. Þetta er dásamlegt fólk, lífsglatt og skemmtilegt og það virðist ekki skipta það öllu máli hvað það á af hlutum eins og er hérna heima. Það eru nefnilega ekki hlutir sem veita lífshamingju. Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó, en ég gat ekki betur séð en að það væri jafnvel meiri gleði og hlátur þar ef eitthvað er.“

Skiptir engu máli hvað ég hefði keypt

„Á sama tíma sá ég líka að þarna lifa margir við erfiðar aðstæður og þar á meðal mörg börn. Hvert sem ég fór varð ég var við börn í slæmum aðstæðum, svöng og í slitnum fötum. Þarna sá ég himin og haf á milli þeirra aðstæðna sem við flest búum við hér á Íslandi og hvernig mörg börn hafa það í Mexíkó. Ég hugsaði því um það að búa á Íslandi og vera í þeirri forréttindastöðu að geta látið gott af sér leiða. Því setti ég mér það markmið úti í Mexíkó að gera eitthvað gott fyrir börnin í landinu.

Þegar ég kom heim velti ég því fyrir mér hvort væri mikilvægara að ég keypti mér fleiri hluti, kannski nýjan og flottari bíl, eða að eitthvað af börnunum í Mexíkó hefði það kannski örlítið betra? Og það er sama hvað ég hugsaði þetta oft, svarið var alltaf það sama: Það er alltaf mikilvægara að bæta aðstæður barnanna en að auka við minn lúxus. Ég vona að ég muni ná að halda þessum hugsunarhætti og láta áfram gott af mér leiða.“

Pálmar segir að eftir að hann kom heim hafi hann unnið mikið með það markmið að leiðarljósi að geta gefið milljón krónur til hjálparstarfs fyrir börn í Mexíkó. „Þegar það var komið kynnti ég mér hvernig væri best að gera þetta, bar þetta undir marga og fékk alls konar viðbrögð. Sumir sögðu já, það er frábært, en aðrir svona reyndu að telja mér hughvarf, sögðu að þetta breytti engu úti í hinum stóra heimi. En auðvitað breytir það miklu fyrir börnin sem fá að njóta þess þó svo ég sé ekki að fara að breyta öllum heiminum.

Niðurstaðan varð sú að ég styrkti SOS barnaþorpin um 600.000 kr. sem fara í að kaupa þvottavélar, eldavélar og rúmdýnur handa barnaþorpi í Mexíkóborg.

Þannig að ég lagðist í smárannsóknarvinnu og hafði samband við SOS barnaþorp á Íslandi og Barnaheill. Niðurstaðan varð sú að ég styrkti SOS barnaþorpin um 600.000 kr. sem fara í að kaupa þvottavélar, eldavélar og rúmdýnur handa barnaþorpi í Mexíkóborg. Svo gef ég 400.000 kr. til Barnaheilla og það fer í uppbyggingu fyrir börn og fjölskyldur á jarðskjálftasvæðum í Mexíkó.“
Pálmar staldrar við og segir að í kjölfarið að hann kom peningunum frá sér á þennan hátt, hafi komið yfir hann góð tilfinning.

„Mér leið mjög vel. Það er ekkert sem hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu en þetta, það skiptir engu máli hvað ég hefði keypt mér. Engu máli. Sama hvað, þá get ég alla vega sagt við sjálfan mig að ég hafi gert eitthvað gagn.“

„Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum og stundum eigum við kannski bara nóg og getum nýtt tækifærið sem í því felst.“ Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Draumurinn að gera meira

„Við bræðurnir pælum mikið í þessu, hvernig maður geti látið gott af sér leiða í heiminum og mér finnst æðislegt þegar fólk tekur þátt í hjálparstarfi. Það er gaman að hugsa til þess hvort einhver þarna úti sé tilbúinn til þess að neita sér um hluti og munað, eingöngu í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða fyrir aðra.

Margt fólk gefur þannig að það hafi engin áhrif á þeirra daglega líf. Gefur eitthvað sem breytir engu fyrir það, þannig að það þarf ekki að neita sér um neitt í staðinn. Það er mjög mikilvægt og ég er alls ekki að gagnrýna það, langt frá því. Auðvitað er alltaf frábært þegar fólk tekur þátt í hjálparstarfi en ég hef mikið verið að hugsa um það hvort það sé til fólk í heiminum sem neitar sér um jafnvel mikilvæga hluti til þess að geta látið gott af sér leiða fyrir aðra? Þegar ég heyri sögur af slíku fólki fæ ég alltaf mikinn innblástur þótt sögurnar séu ekki endilega margar. Ég er svo sannarlega ekki að segja að ég hafi verið eða sé kominn þangað. En með þessu langar mig þó til þess að taka skref í þessa átt á sama tíma og ég vona að þetta sé hvatning fyrir aðra til að taka svipuð skref.“

Aðspurður hvort að hann hafi ekki orðið var við umræðu um fátækt barna á Íslandi og jafnvel kynnst henni af raun í sínu starfi, segir Pálmar að vissulega hafi hann orðið var við að börn hafi það misgott á Íslandi. „Hins vegar hef ég ekki upplifað að börn sem koma til mín í íþróttastarf, upplifi skort. Að þau séu í ónýtum fötum eða svöng en þá verðum við að hafa í huga þann möguleika að þau börn skili sér ekki inn í íþróttirnar. En auðvitað hef ég fylgst með þessari umræðu eins og aðrir og það er dapurlegt að hugsa til þess að börn á Íslandi búi við fátækt.

Ekki síst í ljósi þess að við erum klárlega í aðstöðu til þess að koma í veg fyrir að það sé fátækt á Íslandi. En mín tilfinning er að þrátt fyrir að það sé fátækt á Íslandi þá er það mjög ólíkt þeirri fátækt sem mörg börn búa við úti í hinum stóra heimi. Þar sem börn eru horuð úr hungri, skólaus í ónýtum fötum og sofa jafnvel úti undir berum himni.“

„Áhrifin sem ég vil hafa á samfélagið er að smita út frá mér góðum samskiptum. Og Íslendingar almennt eiga í góðum samskiptum, það er að minnsta kosti mín tilfinning, að fólk hér sé að megninu til gott hvert við annað.“

Látum gott af okkur leiða

Pálmar hittir margt fólk í sínu starfi sem fyrirlesari og er greinilega umhugað um velferð náungans. Það er því ekki úr vegi að spyrja hvort að hann hafi hugsað sér að fara út í stjórnmál í framtíðinni?

„Þetta er góð pæling,“ segir Pálmar og brosir. „Áhrifin sem ég vil hafa á samfélagið er að smita út frá mér góðum samskiptum. Og Íslendingar almennt eiga í góðum samskiptum, það er að minnsta kosti mín tilfinning, að fólk hér sé að megninu til gott hvert við annað. Ég er farinn að nálgast 20.000 manns sem ég hef hitt á minni vegferð og ég bæði sé og finn að Íslendingar vilja leggja sig fram um að eiga í góðum samskiptum. Það væri erfitt fyrir mig að taka þátt í stjórnmálum á sama tíma og ég vil boða góð samskipti.

Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum.

Um leið og ég væri kominn í stjórnmálaflokk, alveg sama hvaða, mundi helmingur Íslendinga hætta að vilja hlusta á mig. En seinna meir hef ég ýmsar skoðanir á því hvernig best væri að gera hlutina og ég ætla ekkert að útiloka að ég komi einhvern tímann til með að sjást í stjórnmálum. En það sem mér finnst vera númer eitt, tvö og þrjú í íslenskum stjórnmálum er að koma heiðarleikanum á réttan stað. Málefni verða að vera í öðru sæti þangað til það er búið að laga heiðarleikann og traustið.“

Pálmar ítrekar að Íslendingar séu almennt í góðri aðstöðu til þess að láta gott af sér leiða í heiminum. „Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum og stundum eigum við kannski bara nóg og getum nýtt tækifærið sem í því felst. Og þótt við breytum ekki öllum heiminum, þá breytum við kannski öllu fyrir þau börn sem við getum hjálpað.

Ég hvet fólk til þess að láta gott af sér leiða. Í gegnum SOS, Heimsforeldra, Barnaheill og fleiri hjálparstofnanir, og núna er einmitt góður tími til þess að huga að slíku um jól og áramót. En svo hvet ég fólk auðvitað líka til þess að njóta hátíðarinnar, fara á eins mörg jólaböll og það mögulega getur. Komast í jólaskapið og nýta tækifærið til þess að eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -