Mánudagur 13. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

„Ekkert mátti klikka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eilífur Örn Þrastarson, meðeigandi og leikstjóri hjá framleiðslufyrirtækinu SNARK fékk krefjandi verkefni fyrir stuttu – að leikstýra myndbandi með bandarísku sveitinni Fleet Foxes við lagið Crack-Up þegar hljómsveitin tróð upp á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í fyrra.

Fleet Foxes hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár og hefur sveitin meðal annars verið tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir tónlist sína. Þá hefur sveitin hlotið lof gagnrýnenda fyrir tónlistarsköpun sína og vakti það mikla lukku á sínum tíma þegar tilkynnt var um komu sveitarinnar til Íslands. Mér leikur því forvitni á að vita hvernig það kom til að Eilífur landaði verkefni með þeim.

Ekkert mátti klikka á sjálfan tökudaginn í Hörpu.

„Það var haft samband við framleiðslufyrirtækið okkar, SNARK, í gegnum fyrirtækið Consequence of Sound, sem er ein stærsta tónlistarsíða í heiminum. Þeir höfðu séð myndband sem ég gerði með Ólafi Arnalds við lagið hans 0952. Þeir sendu lagið og ég byrjaði að hugsa um einfalda og skemmtilega útfærslu sem væri hægt að gera með þeim á meðan þeir væru hérna yfir Airwaves hátíðina,“ segir Eilífur. Í framhaldinu ákváð hann og teymið hans hjá SNARK að taka myndbandið upp í einni töku, sem reynir mikið á hæfileika leikstjórans.

„Það var vitað að við yrðum í Hörpu, en mig langaði að færa þetta frá því að vera hefðbundið tónleikamyndband, og langaði að gera þetta persónulegra, með persónulegri frásögn. Við komumst niður á þá hugmynd að gera þetta í einni töku og láta þá flytja lagið á sama tíma. Það er mun meiri áhætta, heldur en að taka margar tökur sem er hægt að klippa saman. Allt verður að gerast á sama tíma, bæði myndataka og tónlistarflutningur. Þannig verður þetta viðkvæmara, allir verða samstiltari fyrir vikið og meiri nánd myndast.

Áhorfandinn finnur fyrir því, og þannig náum við að gera þetta persónulegra, enginn leikur, bara hreinn flutningur.“

Tökumaður með tugi kílóa á sér

Meðlimum Fleet Foxes leist afar vel á hugmynd Eilífs og þar sem myndbandagerð af þessu tagi snýst mikið um nákvæmni og tímasetningu, hófst Eilífur strax handa við að undirbúa sjálfan tökudaginn.

„Við í íslenska teyminu fórum í Hörpu og tímasettum eins mikið og við gátum áður en meðlimir Fleet Foxes komu sjálfir til landsins. Lagið sjálft er í lengri kantinum. Kvikmyndatökumaðurinn þarf að vera með sérstakan stöðugleikabúnað og með öllu vegur búnaðurinn tugi kílóa, þannig að það var útséð að þetta yrði líkamlega erfitt fyrir tökumanninn.  Í ofanálag er lítið pláss, snúrur liggjandi úti um allt og dimmt svið. En allt gekk vonum framar, og þarf vart að taka það fram að Tómas Marshall, tökumaður, stóð sig eins og hetja,“ segir Eilífur er hann rifjar upp undirbúningstímabilið. Á sjálfum tökudeginum var síðan allt undir og ekkert mátti klikka.

- Auglýsing -
Fleet Foxes og Snark-liðar áttu fallega stund í Hörpu.

„Á tökudeginum settum við allt upp og lýstum í samstarfi við ljósamenn Fleet Foxes og starfsfólk Hörpu og ræddum um hvernig þetta gæti gengið sem best fyrir sig. Við heyrðum æfingu af laginu daginn áður, þannig að við vissum aðeins betur hvernig þetta myndi verða á tökudeginum. Meðlimir hljómsveitarinnar voru auðvitað líka mjög faglegir og allir vildu að þetta myndi ganga vel, og það er smá pressa því ekkert mátti klikka. Það má segja að það hafi verði smá spenna fólgin í því að gera svona. Performansinn, kameruvinnan, kórinn, ljósin og annað þurfti að passa vel tímalega, því annars yrði öll takan ónýt,“ segir Eilífur en kvennakórinn Graduale nobili tók einnig þátt í tökunum.

„Allt gekk eftir á endanum og hljómsveitin var ánægð með sinn performans og kórinn líka. Við kláruðum daginn, spjölluðum aðeins við hljómsveitina og það voru bara allir mjög sáttir og létt að þetta skuli hafa tekist vel.“

Besta myndband Fleet Foxes?

Eilífur segir það hafa verið gefandi að vinna með hljómsveitinni, þó hann hafi átt í mestum samskiptum við forsöngvarann, Robin Pecknoid.

- Auglýsing -

„Hljómsveitarmeðlimirnir voru heilt yfir mjög hressir, en það getur verið smá þreyta í mönnum á svona tónleikaferðalagi eins og þeir voru á. Söngvarinn var sá sem við áttum í mestum samskiptum við og hann var gífurlega viðkunnanlegur og rosalega spenntur fyrir þessu. Það var gaman að vinna með honum í að spá í smáatriðunum á staðnum.“

Myndbandið við lagið Crack-Up var frumsýnt fyrir stuttu á fyrrnefndri tónlistarsíðu, Consequence of Sound. Eilífur segir hljómsveitina hafa verið hæstánægða með afraksturinn.

Hér er Eilífur lengst til hægri. Í miðjunni er Robin, söngvari Fleet Foxes, og lengst til vinstri er Ólafur Páll Torfason, framkvæmdastjóri SNARK.

„Allir eru mjög ánægðir með lokaútgáfuna af þessu myndbandi og við náðum að fanga fallegt augnablik og góða minningu. Það fór ferli í gang þar sem allir skoða og hafa sitt að segja. Í rauninni þá var okkur bara tjáð það að ef þeir í Fleet Foxes yrðu ekki sáttir, yrði þetta ekki gefið út, en þegar þeir sáu þetta, þá sáum við þó fljótt að þeir væru sáttir,“ segir Eilífur en þess má geta að söngvari Fleet Foxes lét þau orð falla á samfélagsmiðlum á dögunum að þetta væri besta myndband sem hefði komið úr herbúðum hljómsveitarinnar.

Ánægður með útkomuna og viðtökurnar

SNARK framleiðir mikið af íslenskum auglýsingum fyrir net og sjónvarp og eins er Eilífur að vinna að handriti að bíómynd og þróa hugmyndir að leiknu efni. En opnar gerð Fleet Foxes-myndbandsins einhverjar dyr fyrir hann?

„Fleet Foxes-myndbandið er svo það nýkomið út, en hvaða áhrif það hefur á mitt líf eða tækifæri er í raun ómögulegt að segja og ég á svo sem ekki von á því að þetta breyti lífi mínu mikið. En þetta fer í mikla dreifingu og margir sem munu sjá þetta, þannig að það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni, vonandi auðvitað sjá einhverjir skemmtilegir það þarna úti og fleiri skemmtileg verkefni gætu fæðst í kjölfarið. En í rauninni er ég ekkert að hugsa um það. Ég er bara ánægður með útkomuna og viðtökurnar.“

Myndbandið umtalaða má sjá hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -