Ekkert nýtt COVID-19 smit greindist á síðasta sólarhring hér á landi samkvæmt nýjustu upplýsingum á covid.is. Fjöldi staðfestra COVID-19 smita er ennþá 1.789. Virkum smitum hefur undanfarið fækkað á milli daga en virk smit voru 237 í gær, þau voru 270 talsins daginn áður, miðvikudag.
Í gær voru 178 sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þá voru 15 sýni rannsökuð hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær. Ekkert sýni reyndist jákvætt af COVID-19.
Samkvæmt tölum covid.is hafa nú 1.542 einstaklingar náð bata eftir að hafa smitast.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar í dag klukkan 14.00 líkt og áður. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma D. Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, munu fara yfir stöðu mála.