Nú, þegar farið er að dimma og kólna, er ekki úr vegi að hægja á, kveikja á kertum og reykelsum, hita engiferte og hlusta á angurværa tónlist, að mati Báru Huldar Beck, blaðakonu á Kjarnanum. Hér mælir Bára Huld með þremur plötum sem hún segir fullkomna helgina.
„Á föstudagskvöldi er fullkomið að skella In Rainbows frá árinu 2007 með Radiohead á fóninn eftir að börnin eru sofnuð, draga fram góða bók og hlusta á draumkennda rödd Thom Yorke. Áreynslulausi tónninn kemur mér alltaf á annan stað í góðum skilningi. Það er misskilningur að lög af þeirri plötu – eins og Nude – séu þunglyndisleg. Þau eru þvert á móti heillandi og skilja eitthvað órætt og ljúft eftir sig í hjartanu.
Til þess að halda sömu línu yfir helgina en poppa samt sem áður laugardagskvöldið upp er hægt að hlusta á PJ Harvey. Hún kemur mér alltaf í fíling þannig að mig langar að drekka heimabruggað rauðvín og dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi fara beint í gamla „stöffið“ og skella plötunni Dry frá árinu 1992 á fóninn. Nafnið á plötunni lýsir henni vel – það er ekkert skraut, bara kraftur!
Á sunnudegi er gott að slaka aftur á og grípa til drottninga angurværðarinnar … systranna í CocoRosie. Ég varð ástfangin þegar ég heyrði Noah’s Ark árið 2005 þegar ég leigði með þremur vinum mínum í lítilli kommúnu á Laugaveginum. Ef eitthvað er töfrandi í þessum heimi þá eru það raddir þeirra systra. Fullkomnara sunnudagskvöld verður það ekki!“