Laugardagur 16. nóvember, 2024
-0.1 C
Reykjavik

Ekki auðvelt fyrir minni framboðin að keppa við þau stóru: „Atkvæði greidd öðrum gagnast ekki“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sveitastjórnakosningar er nú í hámarki, en kosið verður næstkomandi laugardag 14. maí. Mannlíf fjallaði um skoðanakönnun sem flokkarnir í Hafnarfirði létu gera fyrir sig þar sem kom í ljós að núverandi stjórn virðist vera fallin. Við greiningu skoðanakönnunarinnar sem birtist í Fréttablaðinu í gær má sjá að lítið framboð sem kallar sig Bæjarlistann mælist með 5% stuðning og vantar þar með 2% til að ná manni inn.

Mannlíf fór á stúfana og forvitnaðist aðeins meira um þennan tiltölulega nýja flokk. Á heimasíðu flokksins segir að Bæjarlistinn í Hafnarfirði sé stjórnmálaframboð sem sé skipað fólki sem vill hafa jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og að flokkurinn sé óháður stjórnmálaflokkum.

Sigurður Pétur Sigmundsson sem skipar 1. sæti flokksins segir í samtali við Mannlíf að:  „hann leiði nú listann eftir að Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi vildi draga sig úr forystusætinu. Listinn samanstandi af fólki með víðtæka reynslu og þekkingu sem hefur mikinn áhuga á að vinna að framfaramálum í Hafnarfriði.“

Í grein sem birtist í Fjarðarfréttum í gær, segir Sigurður að ekki sé auðvelt fyrir minni framboð að keppa við þau stóru.

Hann segist vilja vekja athygli á yfirgangi stærri framboða sem eigi ekkert skylt við lýðræðisleg vinnubröð að hans mati. „Nú er endaspretturinn framundan og spurning hvort gamli maraþonmeistarinn nær að komast yfir endalínuna og inn um bæjardyrnar.“

Sigurður Pétur Sigmundsson og Hulda Sólveig Jóhannsdóttir
Mynd/Skjáskot: Guðni Gíslason. Fjarðarfréttir

Flokksmaskínurnar eira engu

Sigurður útskýrir sína sýn ennfremur:

- Auglýsing -

„Erfitt er fyrir minni framboðin að keppa við Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna sem virðast hafa úr töluverðum fjármunum að spila ef marka má auglýsingar og útgáfu fjölda blaða. Við þessu mátti búast og lítið við það að athuga. Maskínur þessara flokka láta þó ekki þar við sitja heldur eru að störfum úthringiteymi sem ætlað er að ná í sem flesta bæjarbúa í því skyni að reyna að fá þá á sitt band sem ekki eru búnir að ákveða sig. Engu er eirt í þessum efnum, ekki einu sinni oddvitum annarra framboða. Fyrir þremur dögum hringdi í mig ungur maður frá Samfylkingunni sem spurði hvort ég gæti hugsað mér að kjósa þann flokk. Í gær var svo hringt í konuna mína frá Sjálfstæðisflokknum. Í fyrstu fannst mér þetta fyndið en svo fer maður að hugsa hvort lýðræðið eigi að virka svona. Er þetta, kjósendur góðir, ekki merki um frekju og yfirgang? Þið veltið þessu fyrir ykkur.“

Atkvæði greidd öðrum gagnast ekki

Sigurður segir meðal annars að það hefði skotið skökku við sig þegar Kristinn Andersen, bæjarfulltrúi og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, skuli hafa sagt í grein í Vísi að: „Atkvæði greidd öðrum gagnast ekki.“

Fullyrðingar Kristins koma Sigurði verulega á óvart: „Mér hefur alltaf líkað vel við Kristin sem er hinn ágætasti maður. Ólíkt honum að vera með svona hrokafullar staðhæfingar. Á Kristni er að skilja að hann vilji að samsetning bæjarstjórnar sé sem einsleitust. Um þetta er ég honum algerlega ósammála. Tel mikilvægt að breiddin í bæjarstjórn sé góð og að ólík sjónarhorn fái að koma þar fram. Þannig næst yfirleitt besta niðurstaðan við úrlausn mála.“

- Auglýsing -

Vinnum fyrir Hafnfirðinga

Sigurður fullyrðir að fólkið í Bæjarlistanum sé ekki valdasjúkt. „Við viljum komast til áhrifa til að vinna að framfaramálum í þágu bæjarbúa. Við teljum okkur geta gert það vel enda innan okkar raða fólk með víðtæka reynslu og þekkingu á mörgum sviðum. Við viljum fjárfesta í framtíð barnanna og þar með unga fólksins með því að efla leikskólastarfið, starfið í grunnskólunum og styðja við fjölbreytt íþrótta – og æskulýðsstarf. Eitt það mikilvægasta í því efni á næstunni er uppbygging knatthúss Hauka en mikil fjölgun íbúa er framundan á starfssvæði félagsins. Við viljum líka vinna að bættri þjónustu við aldraða og fjölda annarra góðra mála.“

Að lokum ávarpar Sigurður kjósendur. „Ágæti kjósandi. Er ekki bara best að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang. Við treystum þér fyllilega til að ákveða hvað þú kýst. Vonum hins vegar að þú eigir samleið með okkur í Bæjarlistanum.“

Bæjarlistinn í Hafnarfirði. Mynd/Skjáskot: Heimasíða flokksins

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -