Leiðari úr 25. tölublaði Mannlífs 2019.
Umhverfismálin hafa verið fyrirferðarmikil að undanförnu og ekki að ósekju, við erum á góðri leið með að tortíma jörðinni með sóun og ofneyslu. Jörðin er þakin rusli og drasli hvort sem er á landi eða láði og ljóst að mikil hugarfarsbreyting verður að eiga sér stað um heim allan til að snúa þessari þróun við.
Í nýlegri ástralskri rannsókn kemur fram að við innbyrðum að meðaltali plastagnir að því sem nemur einu kreditkorti á viku, mest með drykkjarvatni. Í fyrra gerði Umhverfisstofnun rannsókn á magni plasts í maga fýla á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Tæplega 70% fýla sem voru skoðaðir voru með plast í meltingarveginum en alls voru 43 fuglar skoðaðir. Einnig var gerð rannsókn á fjölda örplastagna í kræklingi á nokkrum stöðum við Ísland og fundust plastagnir í 40-55% kræklings á hverri stöð. Þetta segir okkur að vandamálið er mun yfirgripsmeira heldur en allt plastið sem við sjáum með berum augum og má auðveldlega tína saman með höndunum.
„Tæplega 70% fýla sem voru skoðuð voru með plast í meltingarveginum en alls voru 43 fuglar skoðaðir.“
Í Umhverfis- og auðlindarráðuneytinu er nú unnið að tillögu að aðgerðaráætlun í plastmálum sem er vel. Lokað var fyrir samráðsgáttina um tillögurnar í desember síðastliðnum og niðurstaðna beðið. En eins og tillagan lítur út núna er meðal annars lagt til að banni við einnota plasti verði flýtt hér á landi, ráðist verði í vitundarvakningu um ofnotkun á plastvörum, að hreinsun frárennslis verði bætt til að minnka losun örplasts í hafið og að hreinlætisvörur sem innihalda örplast verði bannaðar. Það eru eflaust margir sem gera sér ekki grein fyrir magninu sem skolað er út í náttúruna á degi hverjum í formi hreinlætis- og snyrtivara.
Vitundarvakning er lykilatriði í umhverfismálum, þá meðvitund og síðan framkvæmd. Ástandið er alvarlegt og aðgerða er þörf. Ekki gera ekki neitt.