Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hafði ekki samráð við skólastjórnendur þriggja skóla í Laugardalnum vegna breytta áætlana en þetta kemur fram í bókun sem áheyrnarfulltrúi skólanna lagði fram á fundi skóla- og frístundasviði.
Eftir langt og ítarlegt samráð við íbúa Laugardals og stjórnendur skóla, félagsmiðstöðva og frístundamiðstöðva var tekin sú ákvörðun árið 2022 að heppilegast væri að framtíð skólastarfs í hverfinu yrði byggt upp með þeim hætti að Laugarnesskóli, Laugalækjarskóli og Langholtsskóli myndu halda áfram störfum, að miklu leyti, í óbreyttri mynd en byggt yrði við skólanna til að mæta þörfum og fjölgun nemenda.
Safnskóli verður byggður
Í gær var sú ákvörðun dregin til baka á fundi skóla- og frístundaráðs og ber meirihlutinn fyrir sig breyttum forsendum. Nú stendur til að byggður verði nýr safnskóli sem verði aðeins fyrir nemendur í 8. – 10. bekk. Í þetta sinn var hins vegar ekki haft samráð við íbúa eða skólastjórnendur en greint er frá því í bókun sem lögð var fram á fundinum.
„Á sínum tíma áttu skólastjórar Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla ríkan þátt í starfshópi og samráðsferli um framtíðarskipan skólamála í Laugardal. Sá starfshópur skilaði af sér skýrslu sem var kynnt fyrir tæpum tveimur árum þar sem ákveðnar voru aðgerðir sem beðið hefur verið eftir að ráðist verði í. Félag skólastjórnenda í Reykjavík vill vekja athygli á því að skólastjórar skólanna áttu ekki sæti í þeim starfshópi sem nú kynnir niðurstöður sínar, né vissu af þeirri vinnu sem var í gangi. Þessi bókun er gerð til að vekja athygli á þessu óheppilega vinnulagi.“