Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Ekki líkt mér að bera tilfinningar mínar á torg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður og forseti Golfsambands Íslands, og Guðríður Magndís Guðmundsdóttir, sambýliskona hans, eignuðust andvana tvíbura í lok október eftir rúmlega tuttugu og tveggja vikna meðgöngu. Ekkert hafði bent til þess að eitthvað væri að og áfallið því enn meira en ella. Haukur lýsti upplifuninni af því að missa drengina í Bakþönkum Fréttablaðsins og segist aldrei hafa órað fyrir þeim viðbrögðum sem pistillinn fékk.

Í vikunni eftir að drengirnir fæddust birti Haukur Bakþanka í Fréttablaðinu um þá upplifun að fara tómhentur heim af fæðingardeildinni. Hvað kom til að hann ákvað að gera það?

„Ég veit það í rauninni ekki,“ segir hann hugsi. „Ég er ekki opinn maður og það er ekki líkt mér að bera tilfinningar mínar á torg. Ég skrifaði pistilinn strax kvöldið sem við komum heim af spítalanum en var í fjóra daga að velta því fyrir mér hvort ég ætti að birta hann. Ég held að ákvörðunin um að gera það hafi mestmegnis sprottið af þörf fyrir að láta fólk vita af þessu, hlífa mér og öðrum við vandræðalegum samtölum og símtölum. Það má segja að þetta hafi verið einskonar sjálfsbjargarviðleitni. Ég hafði fyrr í haust skrifað pistil um að ég ætti von á tvíburum, grínast með að ég þyrfti að fá mér ljótan fjölskyldubíl og verið svona á léttu nótunum, og mér fannst einhvern veginn að það væri eðlilegt framhald að láta fólk vita af því að svo yrði ekki.“

„Fólk setti sig í samband við mig eftir ýmsum leiðum til að votta mér samúð og stuðning og deila eigin reynslu af því að hafa lent í þessum aðstæðum, alls konar fólk sem ég þekki ekki neitt. Mér þykir óskaplega vænt um það og það hefur veitt mér mikinn styrk í þessu ferli.“

Viðbrögðin við pistlinum voru gríðarmikil, læk og komment hrönnuðust upp og hver einasti vefmiðill landsins tók pistilinn upp á sína arma og skrifaði frétt um málið. Haukur segir það hafa komið sér mjög á óvart hversu mikla athygli þetta vakti og hvernig fólk brást við.

„Ég hef verið að skrifa þessa Bakþanka í Fréttablaðið í um það bil tvö ár og maður þykist góður ef maður fær hundrað læk á hvern pistil,“ segir hann. „Viðbrögðin við þessum pistli voru svo miklu meiri en mig hafði órað fyrir og ég var eiginlega bara alveg steinhissa á þeim. Fólk setti sig í samband við mig eftir ýmsum leiðum til að votta mér samúð og stuðning og deila eigin reynslu af því að hafa lent í þessum aðstæðum, alls konar fólk sem ég þekki ekki neitt. Mér þykir óskaplega vænt um það og það hefur veitt mér mikinn styrk í þessu ferli. Menn sem hafa upplifað þetta hafa sent mér tölvupósta og skilaboð, sýnt mér samhygð og gefið góð ráð og hver einasta manneskja sem hefur brugðist við pistlinum hefur gert það með kærleika og hlýju.“

Haukur er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -