Þessa dagana keppast fjölmiðlar við að rifja upp hrunið sem var fyrir tíu árum. Þeim rennur blóðið til skyldunnar. Fjölmiðlar sátu nefnilega undir ámæli eftir að hrunið skall á fyrir að hafa ekki staðið vaktina nógu vel í aðdraganda þess, að hafa verið meðvirkir með útrásarvíkingunum og slegnir sömu gróðablindunni og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir voru húðskammaðir fyrir að hafa ekki veitt stjórnvöldum nægt aðhald og að hluta til gerðir ábyrgir fyrir því að hlutirnir gengu eins langt og þeir gerðu. Allt hefði farið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu staðið sína plikt skilst manni jafnvel.
En breytir það miklu fyrir þróun mála að fjölmiðlar standi sína plikt? Nýjasta hneykslismál þjóðarinnar er meðferðin á erlendu vinnuafli sem tekin var fyrir í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV á þriðjudaginn. Þar var vel að verki staðið og uppljóstrað um fjölmörg grafalvarleg brot á mannréttindum og vinnusamningum þegar erlendir verkamenn eiga í hlut. Þjóðin saup hveljur og fylltist réttlátri reiði og vandlætingu. Samfélagsmiðlar loguðu, svo gripið sé til útþvældrar klisju. Fólk var hissa og hneykslað á því að þetta skuli viðgangast í velferðarríkinu Íslandi. Alveg steinhissa. Eins og þetta væru glænýjar uppljóstranir.
Það er gott og sjálfsagt að bregðast hart við þegar fjölmiðlar varpa ljósi á það sem aflaga fer í samfélaginu, en hvers vegna var fólk svona hissa? Allt frá því að fjölmiðlar fjölluðu um aðbúnað verkamanna við Kárahnjúkavirkjun árið 2005 hafa reglulega birst fréttir og úttektir á þeim viðbjóði sem viðgengst gagnvart erlendu starfsfólki hjá íslenskum fyrirtækjum. Hvert málið hefur rekið annað alveg síðan fyrir hrun og alltaf verður fólk jafnreitt og hissa en svo tekur næsta hneykslismál við, fréttin um misnotkun á útlendingum á íslenskum vinnumarkaði gleymist og ekkert breytist. Fyrirtæki og stofnanir halda áfram að níðast á útlendingum óáreitt af stjórnvöldum og almenningi. Árum saman. Aftur og aftur. Og alltaf er almenningur jafnhissa.
Umfjöllun fjölmiðla, sem passa sig á að standa nú vaktina vel í þetta sinn, breytir engu þegar upp er staðið. Það er nefnilega ekki nóg að flytja fréttir af ástandinu með reglulegu millibili þegar hin heilaga reiði almennings endist ekki nema í þrjá til fjóra daga. Þjóðfélög breytast ekki nema fyrir tilstilli fólksins sem myndar þau. Hrunstjórnin hefði ekki sagt af sér ef ekki hefði verið fyrir elju og þrautseigju almennings sem mætti á Austurvöll viku eftir viku, berjandi potta og látandi illúðlega. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefði ekki hrökklast frá völdum haustið 2017 í kjölfar krafna #höfum hátt hreyfingarinnar ef fólkið sem að þeirri hreyfingu stóð hefði ekki verið óþreytandi að minna á ranglætið og krefjast réttlætis fyrir fórnarlömb barnaníðings. Alveg sama hversu oft fjölmiðlar hefðu flutt fréttir af því óhugnanlega máli þá hefði ekkert gerst nema fyrir tilstilli samstöðumáttar almennings. Fjölmiðlar bylta ekki samfélögum, það gera þegnarnir. Þetta er undir okkur komið.