Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum (LSH) myndi viðbragðsáætlun sem þegar er í gildi og síðast var uppfærð í desember 2018 verða sett í gang ef alvarleg skotárás yrði gerð á Íslandi.
Viðbragðsáætlun Landspítala (LSH) tekur til eitrana, farsótta, geislavár, hópslysa, rýmingar og bilana í klínískum tölvukerfum. Ekki er skilgreint sérstaklega í áætluninni tegund slyss en í tilfelli alvarlegrar skotárásar myndi fjöldi slasaðra ráða viðbragðsstigi. Unnið er eftir verklagsreglum og gátlistum fyrir þessa atburðaflokka til að auðvelda starfsfólki LSH starfið þegar mikið reynir á.
Viðbragðsstig áætlunarinnar eru þrjú og er samræmi á milli nafngifta hjá LSH og Almannavarna. Viðbragðsstigin eru: Óvissustig, hættustig og neyðarstig.
Á óvissustigi eru fáir kallaðir til en treyst á það starfsfólk og þekkingu sem er til staðar á vaktinni hverju sinni. Á hættustigi verður útkallið stærra en samt um mikinn sveigjanleika að ræða. Á neyðarstigi er umfangið svo mikið að nauðsynlegt er að virkja LSH að fullu. Ákvörðun um viðbragðsstig er tekin til hliðsjónar við stærð verkefnis fyrir LSH og ástands innan stofnunar. LSH starfar því oft ekki á sama viðbragðsstigi og aðrir í almannavarnakerfinu.
Viðbragðsstjórn Landspítala ákveður hverju sinni viðbragðsstig Landspítala.