Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Hef ekki þörf fyrir já-fólk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum sig. Henni finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála sér og kippir sér lítið upp við gagnrýni en myndi hins vegar aldrei þora að birta eigin skáldskap af ótta við að vera grilluð.

„Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt,“ segir Katrín, spurð út í þátttöku hennar í stjórnmálum.

Katrín er eðli málsins samkvæmt umsetin kona og ekki margar lausar stundir í hjá henni í deginum. Hún gefur sér þó tíma til að spjalla við mig og þar sem viðtalið fer fram í vikunni þegar Trump Bandaríkjaforseti setur alþjóðasamfélagið á hliðina með innflytjendastefnu sinni, jafn vel þótt hann hafi síðan vikið frá því að skilja að foreldra og börn innflytjenda, er eðlilegt að fyrsta spurningin snúi að því hvað henni finnist um framgöngu hans.

„Það að skilja börn frá foreldrum sínum er auðvitað ekki í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir hún. „Og þótt Bandaríkin séu ekki aðilar að honum stríðir þetta líka gegn þeim gildum sem við stöndum fyrir þegar kemur að því að tryggja velferð og réttindi barna. Þetta er auðvitað líka mjög umdeilt innan Bandaríkjanna, hefur sætt mikilli gagnrýni úr báðum flokkum og sérlega áhugavert að allar lifandi forsetafrúr Bandaríkjanna hafa gagnrýnt þetta.“

Þú munt sem forsætisráðherra Íslands ávarpa NATO-ráðstefnuna í Brussel í júlí, þar sem Trump og Erdogan verða meðal áheyrenda, hvernig leggst það í þig?

„Það er bara hluti af starfinu að eiga í alþjóðlegum samskiptum,“ svarar Katrín hin rólegasta. „Það er bara þannig.“

VG er eini flokkurinn sem hefur haft það á stefnuskrá að Ísland gengi úr NATO, þannig að það hlýtur að taka svolítið á þig persónulega að þurfa að taka þátt í ráðstefnu þess.

„Við höfum þá stefnu, það er rétt,“ segir Katrín. „Það breytir því ekki að allir aðrir flokkar á þinginu hafa samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem aðildin að NATO er einn af hornsteinunum og við fylgjum þeirri stefnu sem er lýðræðislega samþykkt, það er auðvitað bara hluti af því að vera í stjórnmálum og það höfum við gert áður þegar við vorum síðast í ríkisstjórnarsamstarfi og það liggur fyrir að sem ráðherra starfar maður samkvæmt þeirri stefnu sem Alþingi hefur tekið lýðræðislega ákvörðun um að fylgja.“

- Auglýsing -

Ég var reyndar að fiska eftir persónulegri líðan Katrínar með það að þurfa að vera í samskiptum við þessa menn en hún er ekki á því að láta mig komast upp með það. Hún bætir þó við: „Ég mun auðvitað tala fyrir okkar utanríkisstefnu sem er sú að það beri alltaf að reyna að stefna að pólitískum og friðsamlegum lausnum á átökum. Það eigi alltaf að vera fyrsta val. Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

„Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

Hefur húmor fyrir fólki
Vinstri græn hafa setið undir gagnrýni síðan þau fóru í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, er starf forsætisráðherra ekki ofboðslega slítandi?

„Það er nú ekki allt neikvætt, sem betur fer,“ svarar Katrín um hæl og ég heyri að hún brosir. „Það eru einhverjir ánægðir og aðrir ekki. Það er nú bara hluti af því að vera í stjórnmálum.“

- Auglýsing -

Þetta svar vekur upp spurninguna um það hvað upphaflega hafi valdið því að Katrín fór að taka þátt í stjórnmálum.

„Ég er búin að vera á Alþingi síðan 2007 og mun lengur í pólitík og ástæðan fyrir því er að ég hef rosalegan áhuga á samfélagsmálum og fyrir því að vinna fyrir samfélagið. Þann áhuga hef ég haft frá því ég byrjaði að vera virk í félagslífi í framhaldsskóla. Ástæðan fyrir því að ég endist í pólitík er hins vegar að ég hef líka áhuga á fólki og mér finnst gaman að vinna með því, líka fólki sem er ósammála mér. Það finnst mér geta verið krefjandi og áhugavert. Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt.“

Þrátt fyrir langan stjórnmálaferil, meðal annars sem menntamálaráðherra, hlýtur starf forsætisráðherra að vera mun meira álag en Katrín hefur áður upplifað. Er þetta starf það erfiðasta sem hún hefur tekist á við?

„Já, ætli það sé það ekki,“ segir hún hugsi. „En það er auðvitað þannig að við öll sem vorum í stjórnmálum eftir hrun, óháð því hvort við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu held ég, lifðum tíma sem reyndust mörgum mjög erfiðir og það að vera menntamálaráðherra og vinna í málaflokkum sem maður hefur ástríðu fyrir, bæði menntamálum og menningarmálum, var auðvitað flókið á mestu niðurskurðartímum í lýðveldissögunni, þannig að ég segi ekki að maður hafi ekki mætt mótlæti eða álagi áður. En þetta er auðvitað stórt verkefni sem ég er í núna.“

„Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Sofnar um leið og hún sest niður
Hefurðu einhvern tíma til að eiga eitthvert líf fyrir utan starfið? Geturðu horft á fótbolta og gert eitthvað sem þér finnst skemmtilegt?

„Starfið er sem betur fer líka skemmtilegt. En það er ekki mikill tími sem gefst til að kúpla sig út en maður verður að gera það við og við, annars missir maður bara vitið,“ segir Katrín og hlær. „En það verður að viðurkennast að til þess gefst minni tími en oft áður.“

Ertu áhugamanneskja um fótbolta?

„Já, ef ég væri í öðru starfi eða hefði tök á því þá myndi ég horfa á alla leiki en akkúrat núna er ástandið þannig að maður lætur sér nægja að fylgjast með leikjum Íslands. Svo sér maður kannski slitrur úr öðrum leikjum á hlaupum. Það er auðvitað töluvert horft á þetta á mínu heimili þar sem ég á nú þrjá stráka þannig að ég missi ekki alveg af þessu.“

Geturðu einhvern tíma verið heima hjá þér á kvöldin?

„Jú, jú, auðvitað kemur maður stundum heim,“ svarar hún og andvarpar. „Gallinn er að maður sofnar yfirleitt strax og maður sest niður þannig að maður er kannski ekki góður félagsskapur.“

Katrín hefur áður talað um það í viðtölum að heimilishaldið hvíli mest á eiginmanni hennar, Gunnari Sigvaldasyni, og það hefur væntanlega ekki breyst við nýja starfið, eða hvað?

„Já, þetta hvílir ansi mikið á honum, það verður að viðurkennast,“ segir hún. „Það er held ég hluti af því sem gerist hjá mörgum stjórnmálamönnum að makar þeirra þurfa að taka mestu ábyrgðina á öllu þessu sem þarf að sinna hjá öllum fjölskyldum. Vinnutíminn er oft mjög óvenjulegur og ófyrirséður og það er kannski það sem ég ímynda mér að sé leiðinlegast við að vera giftur stjórnmálamanni. Að vita í sjálfu sér aldrei hvað gerist.“

„Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

Alltaf erfitt að vera í ríkisstjórn
Eins og fram kom áður hefur þingflokkur VG setið undir gagnrýni fyrir að hafa gengið inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf. Er ekkert erfitt að takast á við það?

„Það er bara erfitt að vera í ríkisstjórn, það var líka erfitt á árunum 2009-2013, það er bara hluti af lífinu. Maður gengur ekki inn í þetta verkefni með það að markmiði að verða eitthvað sérstaklega vinsæll. Okkur fannst hins vegar mjög mikilvægt að hafa áhrif á stjórn landsins. Það hefur verið að molna undan innviðum samfélagsins eftir kreppu og við verðum bara að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Það er mjög mikilvægt að við nýtum núna þá efnahagslegu hagsæld sem verið hefur til þess að byggja upp þessa innviði. Það eru líka stór verkefni sem mínum flokki fannst mikilvægt að hafa áhrif á, ég get nefnt umhverfismálin, náttúruvernd og loftslagsmál, kynjajafnréttismál og þessa innviðauppbyggingu sem mér finnst mikilvæg til þess að tryggja aukinn jöfnuð og aukna velsæld í samfélaginu. Þannig að, jú, jú, við erum gagnrýnd fyrir það að gera málamiðlanir og ná ekki öllum okkar málum fram en það er bara fylgifiskur þess að fara í ríkisstjórn. Það er ekki eins og við séum ókunnug þessum viðbrögðum frá fyrri tíð. Ef maður er alltaf að hugsa um að einhverjum muni finnast eitthvað athugavert við það sem maður gerir þá mun maður líklega aldrei gera neitt.“

Er þetta ekki bara svipað og að vera í hjónabandi? Snýst þetta ekki meira og minna um málamiðlanir og tilslakanir?

„Jú, jú, það er náttúrlega undirstaða lýðræðissamfélaga að ólík öfl geti gert málamiðlanir og það þekkjum auðvitað bæði úr okkar sögu og sögu annarra landa að undirstaðan er sú að við höfum öll okkar hugmyndir og okkar stefnu og svo þurfum við einhvern veginn að lenda einhverjum ásættanlegum niðurstöðum og það er auðvitað alltaf flókið.“

Katrín í myndatöku á tröppum Stjórnarráðsins.

Tekur ekki fram fallbyssuna
Oft hefur verið bent á Katrínu sem einn mesta diplómatann í íslenskum stjórnmálum, er hún sammála því mati? Á hún auðvelt með að miðla málum og aðlaga sig að ólíkum áherslum annarra?

„Ég held það sé alveg rétt að ég eigi það og það átti í sjálfu sér alveg eins við í stjórnarandstöðu,“ segir Katrín. „Ég viðurkenni það að ég er ekki manneskja stórra orða og ég tek ekki fram fallbyssuna í hvert sinn sem eitthvað gerist. Mér finnst það ekki spennandi stjórnmál sem snúast bara um það.“

Þegar Katrín tók við forsætisráðherraembætinu vakti það einna mesta athygli erlendra miðla að hún væri sérfræðingur í glæpasögum sem myndi væntanlega koma sér vel í þessu starfi. Er hún sammála þeirri skoðun? Er það góður grunnur fyrir forsætisráðherra að hafa stúderað glæpasögur?

„Það er góður grunnur fyrir alla stjórnmálamenn,“ segir hún og glottir. „Þetta er náttúrlega skrýtinn geiri og glæpasögur byggja á þeirri forsendu að engum sé treystandi, þannig að er það ekki ágætis grunnur?“

Þurfa stjórnmálamenn þá alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að einhver styngi þá í bakið?

„Ja, maður hefur séð dæmi um það í stjórnmálum,“ svarar hún rólega. „Þótt ég þekki það ekki endilega persónulega af minni reynslu. En maður hefur séð það gerast hjá öðrum.“

Les skáldskap á hverjum degi
Glæpasögur eru varla eina áhugamálið, hvaða fleiri áhugamál hefur forsætisráðherrann?

„Ég hef engin áhugamál, ég er alltaf í vinnunni,“ svarar Katrín um hæl og skellir upp úr. „Nei, nei, ég hef rosalega gaman af því að vera úti á sumrin og njóta okkar náttúru og fallega lands. Sennilega er það stærsta áhugamál mitt að vera úti í íslenskri náttúru og síðan les ég nú fleira en glæpasögur. Ég les skáldskap á hverjum einasta degi. Þótt glæpasögur séu ágætar geta þær orðið leiðigjarnar til lengdar, maður er svolítið farinn að sjá það fyrir á blaðsíðu 200 hver morðinginn reynist vera á síðu 500 þegar maður hefur lesið svona mikið af þeim. Þannig að ég les alls konar skáldskap og þetta tvennt er efst á listanum, að vera úti og lesa.“

Það fylgir því auðvitað að vera í opinberu embætti að þurfa að gæta orða sinna en áttu ekki eitthvert athvarf, hjá vinum eða fjölskyldu, þar sem þú getur bara verið Katrín og sagt allt sem þér dettur í hug?

„Maður verður auðvitað að sinna þeim störfum sem maður tekur að sér og gerir það bara. Þau eru hluti af manni sjálfum líka. En það er nauðsynlegt að eiga góða vini og fjölskyldu þar sem maður getur talað í trúnaði og þarf ekki að vega og meta hvert orð. Og ég er mjög heppin með vini.“

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að vera tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Alveg einlæglega, hvað hefur reynst þér erfiðast í starfi forsætisráðherra?

„Kannski það að maður er alltaf í embættinu, eins og við vorum að tala um. Það er auðvitað ákveðið álag. Þess vegna er ég að tala um nauðsyn þess að eiga góða vini sem maður getur verið opinskár við og sagt hluti sem eru ekki „réttir“. Sagt bara allt sem ekki má. Það er alveg ljóst að maður talar ekki bara fyrir sína hönd þegar maður er forsætisráðherra, maður talar fyrir hönd landsins.“

Eitt af því sem gerir það að verkum að Katrín hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður á Íslandi er hvað hún er vel máli farin og fer vel með tungumálið, er það að hennar mati nauðsynlegur eiginleiki góðs stjórnmálamanns?

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að nýta tungumálið sem við eigum, við gleymum því stundum hvað við eigum mikil verðmæti í þessu tungumáli. Ég er oft spurð erlendis hvaða tungumál við tölum á Íslandi og það kemur mörgum á óvart þegar ég segi að við tölum íslensku. Það er eins og mörgum, sérstaklega stærri þjóðum, finnist það algjörlega galið að 350.000 manna þjóð tali eigið tungumál. Ég held hins vegar að það skipti okkur sem þjóð ofboðslega miklu máli að eiga þessar rætur og geta verið í þessum tengslum við okkar fortíð í gegnum tungumálið. Það er sérstaklega mikilvægt núna, þegar við sjáum heiminn í kringum okkur breytast dag frá degi og tæknina verða stærri og stærri þátt í lífi okkar, að íslenskan verði gjaldgeng í tækniheiminum.“

Katrín í ríkisstjórnarherberginu.

Hefur ekki þörf fyrir já-fólk
Talið berst aftur að eiginmanninum og hvort Katrín og hann séu til dæmis alltaf sammála um pólitíkina?

„Nei, það erum við ekki,“ svarar hún. „Við rífumst alveg um pólitík. Ég veit ekki einu sinni hvað hann kýs, ég fer ekki með honum inn í kjörklefann. En hann hefur hins vegar sýnt mér mikinn stuðning með ráðum og dáð þótt hann sé ekkert alltaf sammála mér. Enda geri ég enga kröfu um það. Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

„Ég var mikið uppáhaldsbarn, eins og oft er með yngstu börn,“ segir hún og hlær. „Ég er sex árum yngri en tvíburabræður mínir og fjórtán árum yngri en systir mín og þeim þótti uppeldi mínu mjög ábótavant. Þau gagnrýndu foreldra okkar mikið fyrir að hafa hætt öllu uppeldi þegar ég kom í heiminn. Það hef ég fengið að heyra frá því ég man eftir mér.“

Spurð hvað hún hafi ætlað sér að verða áður en stjórnmálin hertóku huga hennar vefst Katrínu tunga um tönn, nema hún segist aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður þegar hún yrði stór. „Ég hafði alls konar hugmyndir. Var minnt á það um daginn að ég hefði skrifað í einhverja bekkjarbók í grunnskóla að ég ætlaði að verða skurðlæknir. Ég hef líka mjög mikinn áhuga á því sem ég var að gera áður en ég varð stjórnmálamaður en þá vann ég bæði við bókaútgáfu og sem kennari og fannst hvort tveggja mjög gaman. Mér hafa reyndar fundist flest störf sem ég hef sinnt mjög skemmtileg.“

Birti tvær örsögur
Talandi um bókaútgáfu og færni í íslensku, skrifarðu sjálf skáldskap?

„Nei, því miður ekki,“ svarar Katrín og dæsir. „Ég er samt alltaf að ímynda mér að ég sé að fara að gera það bráðum. Ég skrifaði ljóð og einhvern hallærisskap þegar ég var unglingur en ég held það hafi beinlínis ekkert birst eftir mig af skáldskap nema tvær örsögur sem birtust í tímariti íslenskunema þegar ég var í Háskólanum. Ég lít svo á að skáld séu hugrakkasta fólk í heimi því þau rífa úr sér hjartað og leggja það á borð og eru svo jafnvel tekin af lífi og grilluð. Mér finnst það mjög ógnvekjandi starf.“

Ég bendi Katrínu á að stjórnmálamenn séu nú líka aldeilis grillaðir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en henni finnst það mun minna mál.

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Einhvers staðar las ég að þú værir ákveðin í að hætta í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lyki, er eitthvað hæft í því?

„Ég tek bara einn dag í einu,“ svarar hún véfréttarlega. „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Og ætlarðu þá að skrifa krassandi sjálfsævisögu og segja allt sem þú gast ekki sagt á meðan þú varst í opinberu embætti?

„Það verður svoleiðis,“ segir Katrín og skellihlær. „Og svo mun ég flytja eitthvað mjög langt í burtu!“

 

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -