Þriðjudagur 21. janúar, 2025
-0.1 C
Reykjavik

Ekkja plastbarkaþegans fær ekki greiddar bætur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Karolinska-háskólasjúkrahúsið hefur sent lögfræðingi ekkju Andemariams Beyene í Svíþjóð bréf um að hún muni ekki fá bætur greiddar frá sjúkrahúsinu. Kemur þetta verulega á óvart þar sem talsmaður sjúkrahússins hafði áður lýst yfir að hún fengi bætur.

MM Samkvæmt Merhawit Baryamikael Tesfalase, ekkju Andemariams Beyene, fyrsta plastbarkaþegans, mun hún ekki fá bætur frá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var framkvæmd en hún segir að því hafi áður verið lýst yfir af talsmanni sjúkrahússins í viðtali í fjölmiðlum að fjölskylda Andemariams Beyene fengi bætur.

„Þetta er mér næstum ofviða ofan á allt sem hefur gengið á. Ef Andemariam hefði farist í bílslysi, hefði allt verið mun auðveldara. Þá hefðu hlutirnir legið fyrir, en þetta mál hefur elt mig í fimm ár og ætlar engan enda að taka. Ég get ekki lýst því hvað ég er vonsvikin,“ segir Merhavit Baryamikael Tesfalase um efni bréfsins.

Fékk eingöngu afsökunarbeiðni

Merhawit segir að talsmaður Karolinska-háskólasjúkrahússins hafi sagt í viðtali að sjúkrahúsið myndi greiða sér bætur vegna þess mikla missis sem fjölskyldan varð fyrir þegar eiginmaður hennar, Andemariam Beyene, lést í kjölfar þess að hann fór í tilraunaaðgerð þar sem plastbarki var græddur í hann. En nú hefur Karolinska-háskólasjúkrahúsið snúið við blaðinu og ákveðið að ekkjan fái engar bætur. Bréf þess efnis hefur borist Merhawit og var það undirritað af Melvin Samsom, forstjóra Karolinska-háskólasjúkrahússins, og sent til lögfræðings Merhawit en í því segir forstjórinn að ekki hafi tekist að ná sambandi við Merhawit.

Í bréfinu er Merhawit eingöngu beðin einlæglegrar afsökunar á þeim sársauka sem sjúkrahúsið olli henni og fjölskyldu hennar með þeirri meðferð sem Andemariam Beyene hlaut. Þar segir að ábyrgðin sé hjá Paolo Macchiarini og er vísað í skýrslu Kjell Asplund, fyrrverandi landlæknis í Svíþjóð, þess efnis og að sjúkrahúsið muni ekki þess efnis og að sjúkrahúsið muni ekki greiða henni bætur, það sé alfarið á hendi Sjúkratryggingafélagsins í Svíþjóð.

- Auglýsing -

Samsom segir þó í bréfinu að Karolinska-háskólasjúkrahúsið hafi ekki fylgt viðurkenndum verkferlum og að kerfi stofnunarinnar hafi brostið og því ekki tryggt öryggi Andemariam Beyene.

Í lok bréfsins segir að hún geti sótt um miskabætur hjá sjúktatryggingakerfinu líkt og aðrir sjúklingar í Svíþjóð sem telja sig hafa orðið fyrir skaða af völdum læknismeðferðar og að Karolinska-háskólasjúkrahúsið muni veita henni aðstoð við það, óski hún þess. Þær bætur eru þó mjög lágar miðað við alvarleika þessa máls en mál Merhawit hefur verið hjá lögfræðingi í tvö ár. Hún hefur eingöngu fengið smávægilegar bætur vegna jarðarfararkostnaðar Andemariams Beyene og hefur Merhawit ekki ákveðið enn hvort hún muni sækja um bætur úr sjúkratryggingakerfinu. Ekki hafa fengist svör frá lögfræðingi Merhawit í Svíþjóð um þetta og hvert sé næsta skref.

Saksóknari gæti ákært Macchiarini

- Auglýsing -

Saksóknari í Svíþjóð mun á næstu dögum eða vikum ákveða hvort opinber rannsókn verði gerð á máli Paolo Macchiarini, en þá gæti farið svo að hann yrði ákærður fyrir lögbrot í starfi. Saksóknari ákvað á síðasta ári að ákæra ekki Macchiarini en sú ákvörðun var gagnrýnd mjög í Svíþjóð. Samkvæmt heimildum Mannlífs er Macchiarini enn við störf á Spáni, Ítalíu og í Tyrklandi.

Íslensk lögfræðistofa hefur haft samband við Landspítala

Anna Sigrún Baldursdóttur, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir í samtali við Mannlíf að í Rannsóknarskýrslunni íslensku sé það tillaga nefndarinnar að Landspítali veiti ekkjunni fjárhagsaðstoð til að verða sér úti um lögfræðiaðstoð til að leita réttar síns. Landspítalinn hafi verið í sambandi við lögfræðing ekkjunnar í Svíþjóð og nú einnig lögfræðinga hennar hér á landi. „Málið er í höndum lögfræðistofu ekkjunnar hér á landi sem hefur sett sig í samband við spítalann fyrir hennar hönd og er málið þar statt,“ segir Anna Sigrún.

Þegar Mannlíf hafði samband við lögfræðing ekkjunnar hér á landi, Gest Gunnarsson, sagði hann að lítið væri að frétta af máli Merhawit er snerti Landspítala. Það væri í vinnslu.

Tilraunaaðgerðir á fólki

Plastbarkaaðgerðirnar voru taldar tilraunir á mönnum og ráðning Macchiarini til Karolinska-stofnunarinnar og Karolinska-háskólasjúkrahússins var í samræmi við stefnu um að byggja þar upp miðstöð fyrir háþróaðar öndunarvegsskurðlækningar. Umfangsmikið alþjóðlegt tengslanet Macchiarini átti að tryggja að miðstöðin yrði leiðandi á heimsvísu. Um var að ræða tilraunaaðgerð á Andemariam Beyene sem tilskilin leyfi voru ekki fyrir. Samkvæmt því sem kemur fram í nýútkominni bók blaðamannsins Bosse Lindquist, sem gerði Experimenten-þættina um málið, mun teymi lækna á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu hafa komið að ákvörðun um framkvæmd aðgerðarinnar örlagaríku á fundi á spítalanum daginn fyrir hana, þ.á m. læknar sem síðar voru meðhöfundar að Lancet-vísindagreininni sem hefur verið afturkölluð vegna vísindalegs misferlis. Þessi niðurstaða á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu kemur því þeim mjög á óvart sem fylgst hafa náið með þessu máli eða unnið að því í Svíþjóð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -