Norðaustanstrekkingur nokkuð víða í dag og él á víð og dreif. Líklega þurrt um landið suðvestanvert. Þetta kemur fran í textaspá á vef Veðurstofunnar.
Hvessir síðan talsvert á laugardagmorgun, stormur og jafnvel rok syðst, en heldur hægari annað staðar. Áfram þurrt að mestu á Suðvestur- og Vesturlandi, en él í öðrum landshlutum. Frost um allt land.
Dregur svo dálítið úr vindi á laugardagskvöld en síðdegis á sunnudag fer lægðin loksins að reyna landgöngu og fer yfir landið seint á sunnudag og á mánudag. Hlánar víða á láglendi og lægir í kjölfar skilana en ekki er um mjög mikil hlýindi að ræða með þessari lægð. Svo taka við rólegri dagar og hiti nálægt frostmarki.