Kristinn Guðmundsson myndlistarmaður býr í Brussel en er með annan fótinn á Íslandi þar sem matreiðsluþættir hans, Soð, eru komnir í sýningu á RÚV og verk leikhópsins sem hann er hluti af, Marmarabarna, verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu eftir áramótin. En hvernig stendur á því að myndlistarmaður gerist matreiðslumaður og leikari?
„Ég hef brennandi áhuga á mat,“ segir Kristinn hlæjandi. „Eins og margir myndlistarmenn hef ég að hluta til séð fyrir mér með vinnu í eldhúsum veitingastaða og upp úr þeirri reynslu spruttu þættirnir Soð á sínum tíma.“
Kristinn byrjaði á því að sýna þættina á Facebook og YouTube en það leið ekki á löngu þar til hann fékk tilboð frá Sjónvarpi Símans sem vildi taka þá til sýningar.
„Ég hafði ekkert endilega hugsað þættina sem sjónvarpsþætti,“ segir hann, „en einn starfsmaður hjá Símanum hafði samband við mig og spurði hvort hann mætti ekki stinga upp á að Síminn sýndi þá. Ég hélt það nú og yfirmenn Sjónvarps Símans voru sömuleiðis til í þetta þannig að við létum bara vaða.“
Spurður hversu margar þáttaraðir Síminn hafi sýnt þarf Kristinn aðeins að hugsa sig um.
„Ég held að þetta hafi verið fimm þáttaraðir,“ segir hann svo. „Meðal annars jólaþáttaröð og ýmislegt. Síðan fékk ég tilboð frá RÚV og fannst mjög spennandi að prófa að fara þangað, því mér fannst kannski að þær hugmyndir sem ég hef um þróun þáttanna passi frekar við dagskrána á RÚV. En ég er auðvitað alveg óendanlega þakklátur fyrir tækifærið sem ég fékk hjá Símanum. Ég var mjög ánægður með samstarfið við þá og ætla að vona að Síminn haldi áfram að bjóða svona algjörlega óþekktu fólki að gera þáttaraðir fyrir sig.“
„Það kemur bara í ljós eftir að hver sýning byrjar hvað það verður nákvæmlega sem er tekið upp úr sarpinum í það skipti.“
Spinnur í kringum staði og innihaldsefni
Blaðamaður hefur aldrei orðið svo fræg að sjá þættina og spyr því eins og auli hvernig þeir séu settir upp og hvers konar matur það sé sem Kristinn er að elda.
„Fyrstu seríurnar gerði ég í vinnustofunni minni, sem er algjörlega hrátt rými uppi á háalofti,“ útskýrir Kristinn. „Hugmyndin var að gera þáttaseríu sem gæti tengst útiþáttaseríu á Íslandi síðar. Ég hef mjög mikinn áhuga á að elda við mjög einfaldar aðstæður og á vinnustofunni var ég náttúrlega bara með gashellu og eigið ímyndunarafl.“
Hvernig matur er þetta sem þú ert að elda, einfaldur hversdagsmatur eða eitthvað flóknara?
„Ég er eiginlega að elda allt þarna á milli,“ segir Kristinn og hlær. „Í fyrstu seríunni eldaði ég belgískan mat og í næstu seríu á eftir gerði ég baunaseríu, allir réttirnir voru með einhvers lags baunum í. Ég veit að við Íslendingar erum svolítið hræddir við baunir, við þekkjum þær ekki nógu vel, og langaði svolítið að leggja mitt af mörkum til að breyta því. Svo fór ég að vinna dálítið með sveppi í myndlistinni minni og þá gaf það auðvitað augaleið að gera sveppaseríu. Þannig að ég tek yfirleitt annaðhvort stað eða innihaldsefni og reyni að spinna seríu í kringum það.“
Fyrsti þátturinn á RÚV var sýndur í síðustu viku og þeir fimm sem eftir eru verða sýndir með viku millibili næstu fimm vikurnar. Spurður hvort nálgunin sé eitthvað önnur en í fyrri þáttaröðum segir Kristinn að hún sé mjög svipuð, enda hafi hann unnið hana alveg sjálfur og einungis haft myndatökumann með sér. Breytingin sé aðallega fólgin í því að í þessari seríu sé hann að elda úti.
„Já, ég er að elda úti víðs vegar um Reykjanesið,“ útskýrir hann. „Ég er frá Keflavík og í þáttunum er ég að spjalla við kvikmyndatökumanninn Janus Braga Jakobsson og segja honum frá Reykjanesinu. Okkur tókst meira að segja að fara upp í Reykjanesvita og elda þar uppi á efstu hæð í keflvísku logni. Ég held það hafi ekki verið gert áður í íslensku sjónvarpi.“
Engar tvær sýningar eins
Næsta verkefni Kristins á Íslandi er af allt öðrum toga, eftir áramótin mun hann standa á Stóra sviði Þjóðleikhússins með félögum sínum í sviðslistahópnum Marmarabörn sem þar mun sýna glænýtt verk sem nefnist Eyður. Hvernig kom það til að myndlistarmaður fór að leggja fyrir sig sviðslistir?
„Við erum fimm vinir sem erum í Marmarabörnum og höfum gert nokkur verk saman,“ segir hann. „Saga Sigurðardóttir danshöfundur dró okkur saman og það var ákveðið að mynda sviðslistahóp. Við höfum sett upp fjórar uppfærslur saman, byrjuðum á Moving Mountains í Hamborg í Þýskalandi fyrir þremur árum og fengum þar góðan hljómgrunn, vorum til dæmis tilnefnd fyrir besta verkið og sem besti hópurinn í fagtímaritinu Tanz Magazin sem síðan opnaði okkur leið inn í Þjóðleikhúsið heima. Þar var okkur hleypt inn á Stóra sviðið og þau voru svo glimrandi ánægð með það sem við vorum að gera að þau ætla að hleypa okkur þangað aftur. Þar munum við frumsýna verkið Eyður þann 15. janúar á næsta ári þannig að ég verð meira og minna á Íslandi næstu mánuðina.“
„Ég hef mjög mikinn áhuga á að elda við mjög einfaldar aðstæður og á vinnustofunni var ég náttúrlega bara með gashellu og eigið ímyndunarafl.“
Spurður hvert hans hlutverk sé innan hópsins, hvort hann sé þar sem myndlistarmaður eða leikari, vefst Kristni tunga um tönn.
„Ja, eiginlega hvorugt,“ segir hann. „Ég er þar bara sem performer eins og þau hin, en kem kannski með smávegis myndlistaráherslu inn í hugmyndavinnuna, kem að þessu frá öðrum vinkli en hin. Annars erum við öll fimm bara performerar og vinnum verkin í sameiningu. Við spinnum þau í stúdíóinu og tökum það upp, skoðum upptökurnar og söfnum í sarpinn. Þessi sarpur kemur síðan með okkur upp á svið og við vitum í rauninni ekkert hundrað prósent hvað gerist á hverri sýningu, þótt við séum auðvitað búin að marka leiðina áður en við komum þangað. Þannig að munurinn á milli sýninga getur verið ansi mikill. Það kemur bara í ljós eftir að hver sýning byrjar hvað það verður nákvæmlega sem er tekið upp úr sarpinum í það skipti.“
Fann ástina í Brussel
Eins og fram hefur komið býr Kristinn í Brussel, hefur búið þar undanfarin sjö ár, og það var ástin sem dró hann þangað.
„Ég nældi mér sem sagt í kærustu hérna,“ útskýrir hann. „Ég var í námi í Amsterdam og var sendur af skólanum í hennar skóla. Hún er einmitt líka í leikhúsi og starfar sem leikstjóri. Meðan á náminu stóð var ég búinn að ákveða að flytja frá Amsterdam eftir að því lyki, var bara ekki alveg búinn að ákveða hvert. En þá kom hún til sögunnar og þar með tók ákvörðunin sig eiginlega bara sjálf og við höfum búið hér síðan. Ég kem samt mjög oft til Íslands og segi stundum að ég skipti mér eiginlega í tvennt milli Belgíu og Íslands, sem hentar mér mjög vel. Ég er ekkert endilega í Reykjavík þegar ég er á landinu, flakka um allt land og á eiginlega heima alls staðar.“
Þættirnir Soð eru sýndir á RÚV á fimmtudagskvöldum og það verður spennandi að fylgjast með eldamennsku Kristins í rokinu á Reykjanesinu næstu vikurnar á meðan við bíðum eftir því að Eyður birtist okkur í Þjóðleikhúsinu.