„Ég slapp ótrúlega vel einu sinni; öll skipshöfnin mín fórst,“ segir Elías Svavar Kristinsson í viðtali við Reyni Traustason þar sem þeir koma víða við. „Það var nú þannig að ég var á loðnu þegar þetta var. Ég hafði verið stýrimaður á báti þarna á Eskifirði sem hét Hafaldan. Það voru góðir menn og miklir vinir mínir sem áttu þann bát; þetta var um 150 tonna bátur. Svo seldu þeir hann og keyptu minni bát. Þetta var í apríl og loðnuvertíðin að hætta og þá voru bátarnir oft bundnir; það voru engin önnur verkefni. Þeir vissu að ég væri á lausu og höfðu strax samband við mig og ég fór með þeim um borð og var með þeim tvo til þrjá túra. Svo kom 10 daga páskastopp og þeir ámálguðu að ég kæmi og ég sagði að það væru allar líkur á því; ég hefði ekkert annað að gera. Nema það að í páskastoppinu hringdi Arnbjörn, skipstjóri á Hólmatindi, og bað mig um að koma á Hólmatind. Ég sagðist vera búinn að lofa þeim en hann sagði að við yrðum löngu komnir þá. En svo varð það bara ekki þannig. Þegar við vorum komnir í land þá voru þeir farnir og komnir á net við Ingólfshöfða. Þannig að ég fór bara annan túr. Ég held það hafi verið í þeim túr að hann fórst með manni og mús þessi bátur; hét Hrönn. Ég held það hafi verið sex um borð.“
Þetta var svakalegt áfall fyrir mig og náttúrlega allt samfélagið.
Svona er stutt á milli lífs og dauða.
„Já, þetta er tilviljun. Þetta er svo ótrúleg tilviljun. Hann fórst inni í Reyðarfirði. Það var vitlaust veður.
Þetta var svakalegt áfall fyrir mig og náttúrlega allt samfélagið. Þetta voru einstakir menn; alveg ótrúlega fínir menn og vinir manns.“
Hringormar
Elías Svavar Kristinsson fæddist á Seljanesi og var þriggja ára þegar flutt var á Dranga. Hann er búinn að vera sjómaður frá því hann var um tvítugt.
„Ég var að vinna á slippnum á Akureyri að læra ketil- og plötusmíði. Ég var blankur; ég var í iðnskólanum og fór túr á togara. Þeir urðu nokkrir; svo fór ég vestur á Ísafjörð.“
Lentir þú í einhverjum ævintýrum á sjónum?
„Já, fjölda mörgum ævintýrum.“
Hvað stendur upp úr þegar þú lítur um öxl; hvar var mesta hættan og hvar var mesta gleðin?
„Ég var í Norðursjónum og það var mikil gleði þega við komumst í land þar; lönduðum í Danmörku. Svo vorum við fastagestir í Leirvík á Hjaltlandi. Það var talsvert mikil gleði þar. Heimamönnum fannst það heldur mikið.“
Já, það var svolítið slegist. Mikið drukkið.
Voruð þið fyrirferðarmiklir, Íslendingarnir?
„Já, frekar. Og það voru allra þjóða kvikindi, Rússar og Norðmenn.“
Mikið drukkið og slegist?
„Já, það var svolítið slegist. Mikið drukkið.“
Elías kláraði námstímann hvað varðar plötusmíðina en hann kláraði aldrei iðnskólann. „Ég tók aldrei prófið.“
Hann fann sig á sjónum.
„Svo þvældist ég austur á land og var á síldarskipum þar í Norðursjónum og aðeins á togara; Hólmatindi,“ segir Elías en hann var búinn að nefna Hólmatind áður. „Það var fyrsti togari sem var keyptur til landsins og ég var þar. Skuttogari. Svo fór ég í Stýrimannaskólann. Tók fyrsta bekk og svo annan bekk 12 árum seinna.“
Hvernig stóð á því?
„Maður var bara að búa og basla með börn og var blankur. Þetta var bara þannig. Ég starfaði samt sem stýrimaður mestan þann tíma. Á undanþágu. Svo var farið að taka fyrir þær og þá fór ég í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum.“
Og ég er alveg viss um að ég hafi líka fengið þetta.
Talið berst að hringormi; að manni sem smitaðist.
„Já, það var einn sem gerði það. Reyndar held ég að ég hafi smitast líka. Ég var alveg að drepast lengi. Við vorum að éta hrogn; sprautuðum þeim ofan í glas. Tókum hrá hrogn og sumir settu kanel út í þetta og átu þetta. Ég fékk mikla kviðverki sem ég fékk aldrei skýringu á. Og ég er alveg viss um að ég hafi líka fengið þetta. Svo fatta þessir ormar að þeir eiga ekki heima þarna og skríða annaðhvort niður úr manni eða upp úr. Það er annað hvort.“
Það hlýtur að vera svakalegt að fá þetta upp úr sér.
„Já, menn hafa vaknað við þetta. Þetta er alþekkt,“ segir Elías og segir að tilfellum hafi fjölgað um helming frá því að fólk byrjaði að borða sushi.
Fá aldrei nóg
Elías er á strandveiðum. Er ekkert vit í þessu?
„Það er ekkert vit í þessu; það er alveg satt. Útgerðaraðilarnir tala um fyrirsjáanleika. Þeir segja að kvótakerfið verði að hafa fyrirsjáanleika. Við höfum akkúrat engan fyrirsjáanleika. Sjávarútvegsráðherrann gefur kannski út kvóta tveimur dögum áður en veiðar byrja.“
Heildarkvóta. Og svo byrjar kapphlaup.
„Svo byrjar kapphlaup og kannski bætir hún við. Kristján bætti nú við í fyrra og bjargaði svona fram yfir miðjan ágúst. En við vitum ekki neitt.“
Þetta byrjar í maí og þið megið fara fjóra daga í viku nema þegar eru rauðir dagar og þið megið veiða hvað 800 kíló í róðaríi?
„770. Af óslægðu.“
Svo er þetta einn pottur þannig að það getur allt í einu verið stopp allt dótið.
„Eins og þetta lítur út núna þá verður stoppað í endaðan júlí.“
Það er alltaf verið að taka af þeim!
Þá er bara vertíðin búin.
„Já. Ef Svandís bætir ekki við. Ég hef enga trú á að hún geri það.“
Hefur þú ekki trú á Svandísi?
„Nei, ég hef ekki trú á henni. Ég hef bara enga trú á henni.“
Þetta eru umhverfisvænar veiðar til þess að gera og þetta færir líf í sjávarplássin. Hvernig myndir þú vilja sjá þetta?
„Ég myndi vilja láta bæta við þetta kerfi. Ég vil ekkert láta slátra stórútgerðinni. En það er stundum þetta viðkvæði hjá þeim að það sé aldrei nóg hjá þeim. Fá aldrei nóg. Ef það er verið að taka einhvern afla og setja í þennan pott þá er verið að taka af þeim! Það er aldrei talað um þjóðina í þessu.“
Það stendur í lögunum að þetta sé sameign þjóðarinnar.
„Það er alltaf verið að taka af þeim! Stundum finnst mér þeir veruleikafirrtir en þeir vilja stundum ekki reyna að ná sátt við almenning. Til dæmis væri sáttin það að þeir létu frá sér einhvern kvóta svo menn gætu stundað færaveiðar í kringum landið.“
Hvað er úthlutað miklum kvóta í dag á smábátana í kringum landið? Strandveiðarnar?
„Þetta eru um 10.000 tonn.“
Mætti það ekki fara í 15.000 og menn væru sáttir?
„Jú, 15-20.000 tonn. 30.000 tonn. Hvað er það? Stórútgerðir eru nokkrar útgerðir. Þetta eru yfirleitt sömu útgerðirnar. Þeir eru með loðnukvóta, þeir eru með makrílkvóta, kolmunakvóta, síldarkvóta, karfa og ufsa. Stórútgerðirnar eru með allar fisktegundir. Við þurfum bara þorsk. Og við viljum ekkert taka síldina af þeim; þó það væri gaman að gera það. Og makrílinn.“
Það verður kannski seint að þeir bæti svona duglega við en það gæti mjatlast eitthvað.
„Það vantar bara sjávarútvegsráðherra með bein í nefinu. Það er bara málið.“
Elías segist vera búinn að stunda þetta jafnvel í fimm sumur frá Norðurfirði.
Þetta er besta sumarið.
„Verðið. Langbesta verðið.“
Er það út af stríðinu eða hvað er það sem veldur?
„Það er stríðið.“
Eins dauði er annars brauð.
„Það á að loka allan innflutning frá Rússum og þeir voru stórir í fiski og þeir eru að endurnýja allan sinn fiskiskipaflota og verksmiðjur. Ofboðslega glæsileg skip.“
Framliðinn hundur
Á meðal þess sem Reynir og Elías tala um eru Drangaskörð. Draugagangur þar.
„Ég hef reyndar aldrei séð draug þarna en ég dreg ekki tilvist drauga í efa ef það eru sannsöglir menn sem segja mér frá því. Mér dettur það ekki í hug.“
Elías segir söguna af draugi í skörðunum.
„Ég man ekki hver sagði mér þetta en hann var að sækja fólk sem labbaði úr Drangavík yfir að Dröngum; ætlaði bara að fara yfir skörðin. Hann var á báti og sá í Kálfsgerði þrjá menn. Einn grænklæddur. Svo komu þeir niður og hann fór að huga að bátnum; skjóta út báti til að sækja þá á land. Svo þegar þeir voru komnir um borð þá spurði hann hvað hefði orðið um þann þriðja sem var með þeim. Þá var honum sagt að það hafi enginn verið með þeim.“
Við vitum ekki allt.
„Þetta var allavega sannsögull maður sem sagði mér þetta.·
Svo er hundur þarna á þvælingi.
„Já, það er hundur þarna. Framliðinn hundur. Hann hefur oft sést.“
HÉR er hægt að sjá viðtalið í heild sinni.