Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Elín Hirst fjölmiðlakona lítur um öxl: „Það voru allir grátandi. Vigdís líka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er mjög sjaldgæft að sitjandi þingmaður fái ekki brautargengi. Ég held ég hafi ekki passað inn í. Þegar Bláskjár var kominn þá var hann ekki ofsalega hollur,“ segir Elín Hirst fjölmiðlamaður í viðtali við Reyni Traustason en hún var alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2013–2016 og Sjálfstæðisflokkurinn var hennar flokkur.

Hver voru upphafin að stjórnmálaferlinum? Hún segir að þegar hún hafði skrifað greinar í Morgunblaðið um Kínverja og hún héldi að þeir væru að seilast til áhrifa á Íslandi varðandi kaup á jörðum og vatnsbólum þá hafi einhver komið til sín og spurt hvort hún vildi ekki fara út í pólitík; hún hafði fyrir þennan tíma hætt hjá RÚV og var búin að skrifa tvær bækur og hafði framleitt mynd og þá hafði það verið spurningin hvað hún ætti að fara að gera. Og hún ákvað að gefa kost á sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég fékk 5. sætið í Suðvesturkjördæmi; fór í prófkjör og örugglega náði langt út á andlitið. Ég var þekkt nafn. Ég hefði örugglega aldrei náð þessum árangri í prófkjöri nema út af því.“

Samt gaf ég kost á mér aftur.

Hvernig kunni hún við þetta?

„Eftir á að hyggja er þetta mjög mikilvægur partur af skóla lífsins að hafa farið þarna inn. Það er ofsalega skrýtið að koma inn eftir öll þessi ár á vinnumarkaði og hreinlega vera algjör byrjandi. Ég fann mjög mikið fyrir því og það tók mig heilt ár að læra undirstöðuatriðin varðandi störf þingsins; hvernig þingið vinnur og hvernig best sé að vinna til að koma einhverju áfram. Þetta er svo flókið kerfi. Hið lýðræðislega kerfi er svo flókið og stundum finnst manni það hægfara og það þarf að passa svo vel upp á öll sjónarmið. Ég myndi segja að ég hafi aldrei fundið mig þarna almennilega. Samt gaf ég kost á mér aftur. Ég myndi alls ekki hafa viljað missa af þessari reynslu; ekki fyrir nokkurn pening.“

Það var ekkert kemistrí.

Elín er þá ekkert últra-Sjálfstæðismaður?

- Auglýsing -

„Nei. Ég hélt að þetta væri breiðari hreyfing sem hefði gaman og gott af því að heyra nýjar raddir og vilja höfða til breiðari hóps, stétt með stétt. Enda fannst mér allt svo fallegt og gott og það eru engin viðskipti góð nema að báðir fari jafnglaðir frá borði; alls konar svona frasar sem ég var að lesa eftir gamla foringja flokksins. Þarna kom á daginn að mínar hugmyndir um pólitík og flokksins og forystu hans fóru ekkert saman. Það var ekkert kemistrí þarna á milli. Það er svo skrýtið að þeir sem eru svona dyggustu stuðningsmenn flokksins og mæta á alla fundi hafa gríðarlega mikil áhrif; ekki þessi massi sem er að kjósa heldur fólk sem er í þessu af lífi og sál án þess að vera sjálft í pólitík. Það skiptir öllu máli að maður kunni að vinna með því. Þetta er fólk sem er í þessu af lífi og sál og hefur ofboðslega sterkar skoðanir og er miklir stuðningsmenn sinna manna. Það er ekki vel séð ef einhver gengur ekki alveg í takt. Og mér finnst stundum eins og þetta sé jafnvel kannski dragbítur; þetta er kannski ekki það sem er best fyrir þingflokkinn að svona sé málum komið. Það er betra fyrir þingflokkinn að vera með alls konar fólk innanborðs.“

Elín segir að eitt af því sem hafi vantað var að hún var ekki innanbúðarmaður. „Það hringdi aldrei neinn í mig og ég frétti alltaf allt einhvers staðar úti í bæ.

Íslensk pólitík er engin flokkapólitík; þetta snýst fyrst og fremst um auðlindirnar og kannski svolítið um skattana en samt ekki vegna þess að við erum eiginlega öll sammála um að við viljum heilbrigðiskerfi, menntakerfi, velferðarkerfi og svo framvegis; við erum óskaplega demokratísk.“

- Auglýsing -

 

Allir grátandi

Elín er meðal annars með háskólapróf í frétta- og blaðamennsku frá bandarískum háskóla og byrjaði fjölmiðlaferilinn hjá DV árið 1984.

„Ég var nýútskrifuð úr skóla. Ég held að þeim hafi ekki litist á mig,“ segir Elín og á við þáverandi ritstjóra DV, Jónas Kristjánsson og Ellert Schram. „Ég var í pilsi og háhæluðum skóm, með langar neglur og með allt á hreinu en með ekkert á hreinu. Áttum okkur á því. En þeir tóku sénsinn og gátu skólað mig til.

Ég var sett í það til að byrja með að skrifa um dagskrá útvarps og sjónvarps. Ég fékk stöðuhækkun eftir nokkra mánuði og var sett í löggufréttir og var beðin um að vera alltaf tilbúin eldsnemma á morgnana með morgunvaktinni.“

Hún segir að blaðið hafi svo farið í prentun klukkan níu.

„Ég var að koma úr háskólanámi í Bandaríkjunum og taldi mig vera með óskaplega mikla þekkingu og reynslu á þessu öllu saman en þegar ég kom út á vinnumarkaðinn þá kunni ég ekki neitt.“

Elín Hirst varð svo reynslunni ríkari eftir því sem tíminn leið.

Þetta var svakalegt ástand.

Hvað stendur upp úr á fjölmiðlaferlinum?

„Súðavík,“ segir hún og á við snjóflóðin sem þar féllu. „Ég var þá fréttastjóri á Stöð 2 og Bylgjunni. Ég fór vestur. Fyrst sendum við Eggert Skúlason og myndatökumann; þeir fóru vestur með varðskipinu minnir mig. Síðan þegar var hægt að fljúga fórum við fleiri vestur og vorum með beinar útsendingar frá Hótel Ísafirði. Þetta var svakalegt ástand.

Fólk leitaði til hennar í sorg sinni og áfalli.

Fólk var ekki tilbúið að koma mikið í sjónvarp, en það gerði Hafsteinn Númason. Það var rosalega sterkt móment. Ég gleymi því aldrei.

Ég man að Vigdís forseti kom og var haldin stór athöfn í íþróttahúsinu á Ísafirði. Það voru allir grátandi. Vigdís líka.

Þarna sannaðist hvað forsetinn getur verið mikilvægur á svona stundum þegar þjóðin á svona erfitt. Fólk leitaði til hennar í sorg sinni og áfalli og fékk einhvern styrk.“

Elín Hirst

Kölluð Bláskjár

Elín hætti svo á Stöð 2.

„Mér var sagt upp.“

Hver var þá ráðinn?

„Ætli það hafi ekki verið Páll Magnússon. Það er ekkert gaman að ræða um þetta „ráðin, rekin“. Þetta er fram og til baka allan ferilinn.“

Elín segir að þáverandi meirihluti eigenda Stöðvar 2 hafi ekki verið ánægður með störf hennar sem fréttastjóri. „Ég var búin að finna það lengi þannig að það var hálfgert kraftaverk hvað ég fékk að lafa.“

ÉG var skíthrædd við hann fyrst.

Elín hóf aftur störf hjá DV. „Þá var Ellert hættur og ég þurfti að vinna mjög náið með Jónasi sem fréttastjóri. Það gekk rosalega vel. Hann var mjög hornóttur og ég var skíthrædd við hann fyrst en svo komast maður að því að hann var súper heili.“

Elín sótti síðar um stöðu fréttastjóra RÚV en fékk ekki. „Helgi H. Jónsson heitinn var varafréttastjóri og hann var ráðinn en hann tók mig samt inn sem óbreyttan liðsmann. Það var ansi vel gert.“

Elín segir að það hafi í fyrstu verið svolítið erfitt að vinna þar þar sem aðrir starfsmenn hafi litið á hana sem einhvern keppinaut og að hún myndi jafnvel gera lítið úr þeim sem fékk starfið. „En allt þetta var horfið eftir einn eða tvo mánuði. Þarna kom mjög góður blómatími sem óbreyttur fréttamaður.“

Elín var síðar ráðin varafréttastjóri Ríkisútvarpsins. „Bogi Ágústsson ákvað að fara í annað starf sem miðaði að því að sameina útvarps- og sjónvarpsfréttastofurnar og þá var ég ráðin fréttastjóri Sjónvarpsins og var í því starfi í fjögur eða fimm ár. Það reyndi mikið á. Þá varð ég í annað sinn fréttastjóri á stórum sjónvarpsfjölmiðli en ég bjó að mjög góðri reynslu frá Stöð 2.“

Og Elín Hirst var svolítið skömmuð fyrir að vera Sjálfstæðismaður.

„Össur vinur minn Skarphéðinsson, sem ég hitti nú seinna á ferlinum á þingi og varð ágætur kunningi, var óþreytandi. Ef hann kom inn í húsið og sá mig þá „Bláskjár“. Ég var með tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Maðurinn minn var mjög tengdur inn í flokkinn og hans vinir sem urðu síðan vinir mínir. Þetta háði mér ekki í umfjöllun minni fannst mér sem fréttamaður. En margir vildu setja allt sem ég gerði í þetta ljós. Maður á ekkert að vera hissa á því.“

Þeir sögðu að ég væri of dýr.

Páll Magnússon varð útvarpsstjóri og var ákveðið að sameina fréttastofur útvarps og sjónvarps. „Það var ákveðið að fréttastjóri útvarpsins, sem var Óðinn Jónsson, tæki við; yrði yfir báðum og tekinn fram yfir mig. Þetta var aldrei auglýst og það hefði þurft að gera þetta öðruvísi en þeir fengu mig kannski til að vera rólega af því að þeir sögðu að þeir vildu hafa mig áfram. Ég mátti vera með fréttaskýringarþátt og ég undi hag mínum ágætlega sem fréttaþulur og hugsaði með mér að þetta væri bara eins og lífið er; að stíga niður úr turninum einu sinni enn. En síðan kom uppsagnarbréf tveimur árum seinna. Ég hef aldrei fengið botn í það. Þeir sögðu að ég væri of dýr; væri of dýr starfsmaður. Fréttaskýringarþátturinn sem við – ég, Bogi og fleiri – vorum með, Fréttaaukinn, var svaka vinsæll á þessum tíma þannig að það var ekki það að það skorti áhuga eða vinnugleði.“

 

Fólk gerði lítið úr okkur

Og Elín Hirst hætti á RÚV í kringum 2011.

„Þá tók við ógleymanlegt verkefni sem er bókin hennar Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur. Ég fór í að skrifa hana og það var verkefni sem var mannbætandi fyrir mig.“ Guðrún Ebba er dóttir Ólafs heitins Skúlasonar biskups og steig hún fram með alvarlegar ásakanir á hendur föður sínum.

„Hún er eiginlega frumkvöðull í MeToo-byltingunni.

Sumir sem stóðu mér nærri sögðu „vert þú ekkert að fara inn á þetta svið“. Ég lít á mig sem sögumann. Hún var búin að hugsa um þetta mjög lengi og móta þetta mjög vel. Þarna kom ný reynsla inn í reynslubankann; að skrifa bók. Það er bara þvílíkt mál.“

Fólk gerði lítið úr okkur.

Guðrún Ebba varð fyrir hatrömmum árásum frá þeim sem fylktu liði með biskupnum. Hvað með Elínu?

„Já, ég fann alveg fyrir því. Fólk gerði lítið úr okkur; sagði að við værum að skálda og þetta væru minningar sem væru falskar. Það fékk afskaplega lítið á mig vegna þess að ég var búin að vinna með henni í heilt ár og sem reyndur blaðamaður fann ég alveg að tónninn var svo tær.“

Efaðist Elín aldrei um neitt?

„Nei.

Það var mjög lærdómsríkt að gera þetta; að fara í þetta mál.

Síðan framleiddi ég eina mynd um vesturfara. Ég gróf upp ættingja mína,“ segir Elín og á við afkomendur ættingja sína sem höfðu flutt vestur um haf í kringum 1875. „Þetta hefði ekki verið hægt nema með Internetinu.“

Elín vann fyrir nokkrum árum að verkefni hjá Saga Film og segir hún að í tengslum við það hafi hún eiginlega fengið fimm ára háskólanám í loftslagsmálum. „Við vorum að framleiða þætti um loftslagsmál sem höfðu ekki verið upp á pallborðið á Íslandi og enginn skildi og ekki ég heldur.“

Svo má minnast á verkefnið tengt spænsku veikinni.

„Það var árið 1998. Þá var ég fréttastjóri hjá Stöð 2 en með þessa bakteríu að gera sögulegar heimildamyndir. Ég ákvað að gera mynd um spænsku veikina 1918. Svo fékk ég fregnir af því að þetta væri heldur betur eitthvað sem væri að gerast í nútímanum vegna þess að alþjóðlegt teymi vísindamanna ætlaði að grafa upp á Svalbarða lík námumanna sem hefðu fengið spænsku veikina og dáið. Það var talið að þeir væru grafnir það djúpt ofan í sífrerann að líkin gætu hafa varðveist. Og það skipti náttúrlega rosalega miklu máli að ná í erfðaefni veirunnar eins og við þekkjum svo vel núna í Covid til að geta séð hvað það var sem gerði hana svona mannskæða og illskeytta.“

Í ljós kom að líkin virtust hafa verið grafin of grunnt. „Það náðust nokkur sýni en það var ekki hægt að byggja neitt á þeim. En svo var það nokkrum árum seinna sem þetta tókst og ég held það hafi verið í Alaska. Þar höfðu frumbyggjar verið grafnir á tveggja metra dýpi. Þetta var stórfrétt allavega í veiruheiminum.“

Elín Hirst

Fjölmiðlabakterían

Elín Hirst vinnur núna hjá Torgi sem gefur út Fréttablaðið, Markaðinn og DV og starfrækir sjónvarpsstöðina Hringbraut. Þá eru stafrænir miðlar í eigu Torgs: frettabladid.is, hringbraut.is, markadurinn.is og dv.is

„Ég fékk mjög gott tækifæri. Ég hitti hann Sigmund Erni Rúnarsson, gamlan samstarfsfélaga minn á DV og ég vann reyndar líka með honum á Stöð 2, og var ráðin í haust. Það opnaðist fyrir mér nýr heimur; ég var búin að vera í 10 ár í burtu og allt í einu er fjölmiðlaheimurinn svo margslunginn og spennandi; það er þessi margmiðlun sem ég hafði ekki kynnst fyrr.

maður er svolítið í þessu af lífi og sál.

Ég er að skrifa í Fréttablaðið; ég skrifa leiðara. Ég skrifa fréttaskýringar. Ég skrifa inn á netið og ég er með viðtölin á Hringbraut sem ég get svo sett inn á netið sem fréttir með viðtalsbútum. Þetta á svo vel við mig; svona skapandi.“

Það er stundum talað um fjölmiðlabakteríuna; að starfið yfirtaki fjölmiðlafólk.

„Já, maður er svolítið í þessu af lífi og sál. Það er munurinn á þingmennskunni; þá vissi ég að hún var ekki fyrir mig þrátt fyrir að ég biði mig svo aftur fram. Ég er í fjölmiðlastarfinu af lífi og sál og þarf meira að segja að passa mig á að taka ekki of mikið að mér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -