Stuðningsyfirlýsing birtist í Morgunblaðinu í dag en þar segist fjöldi manns styðja Katrínu Jakobsdóttur í áframhaldandi hlutverki forsætisráðherra. Meðal þeirra er Elín Hirst, fjölmiðlakona og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
Alls eru um 80 nöfn birt í yfirlýsingunni en þar má finna fjölda þekktra persóna. Ber helst að nefna Bubba Morthens, tónlistarmanns, Hilmi Snæ Guðnason, leikara, Söndru B. Franks, formann Sjúkraliðafélags Íslands og Gerði Kristnýju, skálds.
Það skýtur nokkuð skökku við að sjá nafn Elínar Hirst á listanum en hún sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkin frá 2013 til 2016. Flokkar kvennanna, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri Hreyfingin – grænt framboð, hafa lengi eldað grátt silfur saman enda með ólík sjónarmið í hinum ýmsu málum. Flokkarnir tveir hafa þó verið saman við stjórnvölinn undanfarin fjögur ár.