Bjarni Guðmundsson var ekki nema rétt liðlega tvítugur þegar hann féll frá. Móðir hans er full gremju og biturð, nú þremur árum eftir andlátið, sökum þess að hann fékk ekki þá hjálp sem hefði getað bjargað lífi hans. Bjarni skildi eftir sig einn son.
Þetta kemur fram í færslu góðgerðarsamtakanna Það er von en þau berjast gegn vímuefnum með áherslu á að fíklar geti náð bata. Bjarni leitaði í faðm fíkniefna á stuttri ævi sinni en hann var fæddur 1. júlí 1996 og lést 1. apríl 2017. „Lífinu hans elsku besta Bjarna míns sem hann hafði glímt við síðustu árin lauk með ósigri. Hann fann loks friðinn sem hann þráði svo heitt að hann leitaði hans jafnvel í faðmi fíkniefna.
Hann hafði verið að glíma við sjúkdóminn frá 14 ára aldri,“ segir Elín, móðir Bjarna, og bætir við:
„Ég sem mamma hans fyllist gremju og biturð gagnvart örlögunum, heiminum og lífinu þegar hann hefði átt að eiga framtíðina fyrir sér falla frá með þessum hætti. Hann fékk ekki hjálpina sem hefði getað bjargað lífi hans. Félagsþjónustan í Reykjavík baðst afsökunar á að hafa brugðist honum en það bætir ekki sorgina og sárin.“