Laugardagur 28. desember, 2024
-1.4 C
Reykjavik

Fegurðardísin Elísa Gróa: „Skammaðist mín fyrir persónuleika minn og byrjaði að ganga í svörtu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elísa Gróa Steinþórsdóttir var í gærkvöldi kjörin Miss Universe Iceland og mun taka þátt í alþjóðlegu keppninni Miss Universe í Ísrael sennilega í desember.

„Þessi sigur þýðir mikið fyrir mig. Ég er búin að vera að keppa í þessum keppnum í sex ár og mig langar til að sýna fólki sérstaklega á Íslandi að það er bara allt í lagi að keppa í svona keppnum,“ segir Elísa Gróa en þetta var í fjórða skipti sem hún tók þátt í Miss Universe Iceland auk þess sem hún tók árið 2015 þátt í keppninni Ungfrú Ísland.

Árið 2019 keppti hún fyrir hönd Íslands í tveimur keppnum: Miss Eco International í Egyptalandi, og Miss Tourism World í Kína.

„Þessar keppnir eru svo góðar fyrir sjálfsmyndina og sjálfstraustið og mér finnst vera sniðugt að koma svona fram á sviði sem maður sjálfur en ekki sem módel fyrir einhvern annan. Það er ástæðan fyrir því að ég hélt áfram í þessum keppnum. Ég er ekki sama manneskja og ég var fyrir sex árum þegar ég byrjaði að keppa í þessum keppnum. Þetta gerir mikið fyrir mann og mér finnst vera mikill heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd í Miss Universe sem er stærsta keppnin í heiminum.“

Elísa Gróa Steinþórsdóttir

Elísa Gróa segist ung hafa byrjað að fylgjast með fegurðarsamkeppnum og heilluðu glamúrinn og glimmerið og bætir hún við að hún safni síðkjólum.

- Auglýsing -

„Stíllinn minn er bara glimmer, glimmer og glimmer. Það er ekkert einfalt við stílinn minn. Ég er rosalega „bleik“ manneskja og á mikið af bleikum hlutum. Ég á meira að segja bleikan bíl. Allt prinsessulegt og með glimmer er minn stíll,“ segir Elísa Gróa sem dreymdi um að verða prinssessa þegar hún var lítil stelpa og var almennt klædd eins og prinsessa á öskudaginn. „Núna er ég orðin drottning,“ segir hún og hlær, „en ég fékk kórónu og uppfyllti drauminn minn frá því ég var lítil.“

Elísa Gróa Steinþórsdóttir

Elísa Gróa er förðunarfræðingur að mennt og fyrir utan að vinna sem slíkur hefur hún unnið sem flugfreyja undanfarin ár.

- Auglýsing -

„Ég ætlaði alltaf að verða flugfreyja; ég ákvað það þegar ég var níu ára gömul.“ Hún segist vera í draumastarfinu en að hún sjái fyrir sér að vinna líka í framtíðinni tengt keppnum erlendis sambærilegum þeim sem hún hefur tekið þátt í; verða jafnvel þjálfari eða dómari.

 

Sjálfsvígsforvarnir

Elísa Gróa segir að sigrinum fylgi mikið prógramm.

„Ég svaf lítið í nótt,“ segir hún um miðjan dag daginn eftir þegar hún er stödd í ljósmyndastúdíói.

„Ég mætti í myndatöku í morgun og er þar ennþá og í kvöld á ég að skrifa undir samninga. Undirbúningurinn fyrir keppnina í Ísrael felst svo meðal annars í að ég mun dvelja í tvær til þrjár vikur líklega í Bandaríkjunum þar sem ég mun velja föt til að keppa í auk þess sem ég mun fara á ýmis námskeið meðal annars til að æfa mig í að ganga á sviði en það mikilvægasta er að fá fræðslu og kennslu í ræðumennsku og hvernig maður getur orðið innblástur fyrir fólk og tala um mikilvæg málefni. Partur af þessu er að láta gott af sér leiða og vera góð fyrirmynd.“

Nýkrýnd Miss Universe Iceland segir að það málefni sem standi henni næst séu sjálfsvígsforvarnir og talaði hún um þau á sviðinu á meðan á keppninni stóð. Hún nefnir Pieta-samtökin.

„Ég hef verið að styrkja samtökin frá því þau voru stofnuð en þau bjóða upp á fría sálfræðiþjónustu fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu og stuðningshópa fyrir aðstandendur. Mér finnst þetta vera mikilvægt málefni, sérstaklega núna í þessum heimsfaraldri þar sem fólki var sagt í ár eða jafnvel meira að vera heima hjá sér en það eru ekki allir öryggir heima hjá sér. Hlutfall þeirra sem taka eigið líf hefur hækkað í heimsfaraldrinum og mér finnst vera mikilvægt að tala um þetta. Fólk þarf að fá hjálp strax. Það er til dæmis hægt að hringja í Pieta allan sólarhringinn þar sem sjálfboðaliðar og fagaðilar vinna. Við stelpurnar í keppninni höfum verið að styrkja Pieta-samtökin í allt sumar og söfnuðum yfir 100.000 krónum. Það er eitthvað sem er mikilvægt fyrir mig og ég er mjög ánægð með að stelpurnar hafi samþykkt að vera með mér í þessu.“

Náinn ættingi Elísu Gróu tók eigið líf á sínum tíma sem hafði auðvitað áhrif á alla í fjölskyldunni. „Eftir það sá ég hvað það þarf að tala meira um þetta og að athuga hvort andleg heilsa þeirra sem standa manni næst sé í lagi. Þetta getur gerst allt í einu ef viðkomandi talar ekki um líðan sína eða leitar sér ekki hjálpar. Það er ekki hægt að vita hvernig manneskjunni líður þannig að mér finnst vera mikilvægt að tala um þessi mál.“

Vertu þú sjálf

Lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá nýkrýndri fegurðardrottningu. Hún segir að hún hafi skammast sín fyrir sjálfa sig á tímabili.

„Ég var þá ekki viss um að ég ætti stað í þessum heimi. Ég upplifði mjög dökkan kafli í lífi mínu þegar ég var 18-23 ára. Mér var oft strítt fyrir að vera „of mikið“ ef hægt er að orða það þannig. Of áberandi. Of stelpuleg. Of glöð. Ég þurfti einhvern veginn að tóna mig niður. Það varð til þess að ég skammaðist mín fyrir persónuleika minn og ég byrjaði að ganga í svörtum fötum, sem ég geri ekki í dag, og lét lítið fyrir mér fara.

Ég komst yfir þetta með stuðningi frá fólkinu mínu og líka með því að byrja að keppa í þessum keppnum. Ég er ekki sama kona og ég var fyrir sex árum. Þessar keppnir gerðu svo mikið fyrir mig. Ég lærði að maður verður að nýta persónuleika sinn og stíl og ég veit í dag að ég er alltaf mest fínt klædd alls staðar sem ég fer, ég er alltaf „over the top“. Og ég er bara búin að læra að njóta þess. Ég ætla bara að vera ég og þessar keppnir hafa hjálpað mér mjög mikið með það. Það geta ekki allir staðið á sviði í síðkjól og hvað þá sundfötum og verið ánægðir með líkama sinn og verið með sjálfstraustið í þetta.

Það þarf rosalega mikið sjálfstraust til að standa svona á sviði og hvað þá að þessu var streymt í beinni; það gátu allir séð keppnina hvar sem var í heiminum. Ég hefði örugglega ekki getað gert þetta fyrir nokkrum árum en mér fannst þetta ekkert mál. Þetta var bara skemmtilegt.“

Elísa Gróa verður án efa fyrirmynd ungra stúlkna í hlutverki sínu sem Miss Universe Iceland.

„Ég hef oft hugsað út í hvað ég hefði sagt við mig sem ungling ef ég gæti hitt mig sem ungling. Stærsta ráð sem ég get gefið er: Hættu að hugsa um hvað öðrum finnst af því að líf þitt er fyrir þig. Þetta líf er svo stutt og vertu bara þú sjálf. Það skiptir ekki máli hvað allir aðrir segja eða hvað þú heldur að allir aðrir séu að hugsa um þig. Ekki gefast upp. Eltu drauma þína og vertu þú sjálf.“

Elísa Gróa Steinþórsdóttir

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -