Drottningunni þykir illa farið með Philip prins í þáttunum.
Hin geysivinsæla Netflixsería The Crown fjallar um líf bresku konungsfjölskyldunnar og þá sérstaklega um átök, drama og erfiða atburði innan hennar. Hingað til hafa fjölmiðlar haldið því fram að Elísabet Englandsdrottning sé aðdáandi þáttanna, þrátt fyrir oft á tíðum óhagstætt ljós sem þeir varpa á hana og fjölskylduna, en í breska slúðurblaðinu Express í gær er haft eftir ónefndum heimildarmanni innan hallarinnar að það sé alls ekki satt.
Samkvæmt frétt Express er það sérstaklega einn þáttur í The Crown sem fer fyrir brjóstið á drottningunni, níundi þáttur annarrar seríu þar sem fylgst er með Karli syni hennar reyna að fóta sig í erfiðu umhverfi í heimavistarskóla í Skotlandi. Í þættinum er meðal annars sena þar sem Philip prins skammar son sinn fyrir að vera aumingi fyrir að standa ekki uppi í hárinu á hrekkjusvínunum í Gordonstoun-skólanum þar sem Philip sjálfur var í námi sem ungur maður. Heimildarmaðurinn ónafngreindi segir að það sé alls ekki rétt túlkun á því sem raunverulega gerðist.
„Drottningin gerir sér grein fyrir því að margir sem horfa á The Crown taka það sem þar er lýst sem rétta lýsingu á konungsfjölskyldunni og hún veit að hún getur ekki breytt því áliti,“ segir heimildarmaðurinn. „En ég get sagt ykkur að henni var brugðið vegna þess að Philip skuli vera lýst sem föður sem er alveg sama um velferð sonar síns. Hún var sérstaklega gröm yfir senunni þar sem Philip hefur enga samúð með Karli, sem greinilega líður mjög illa, þegar þeir eru í flugvél á leið heim frá Skotlandi. Það einfaldlega gerðist aldrei.“