Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Elísabet í harða neyslu 16 ára og var nauðgað: „Mér finnst ég vera óhæf móðir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elísabet Hauksdóttir ólst upp fyrir norðan og flutti um fjögurra ára gömul til Reykavíkur og svo flutti hún til frænku sinnar fyrir vestan þegar hún var 13 ára. 14 ára flutti hún með kærasta sínum til Borgarness. Hún flutti síðan með öðrum kærasta til Búðardals og lauk svo 10. bekk á Selfossi en þá bjó hún hjá einni frænku sinni um tíma. Hún hefur síðan þá meira og minna búið í Reykjavík.

Hún var 14 ára þegar hún fékk sér fyrsta sopann og drakk hún eftir það aðallega um helgar. „Það var algengt að maður færi á götufyllerí þar sem maður var ekki nógu gamall til að fara á skemmtistaði. Ég var þó farin að fara inn á skemmtistaði þegar ég var 17 eða 18 ára.“

Hún fór út í harðari neyslu þegar hún var um 16 ára. „Þá fór ég að reykja annað heldur en sígarettur og það sem ég sóttist mest í var að reykja og drekka og svo til að koma mér aftur á sporið þá tók maður oft í nefið. Mestu veikleikar mínir voru í raun og veru áfengi, spítt og hass.“

Mestu veikleikar mínir voru í raun og veru áfengi, spítt og hass.

 

Þunglyndið

Elísabet er einstæð móðir og á þrjá syni og er sá elsti 11 ára. Hún fór að finna fyrir þunglyndi eftir að hún eignaðist hann en segir þó að hún hafi áður fyrr fundið fyrir þunglyndi en hafi ekki viðurkennt það fyrr en þá. „Það var rosalega mikið tabú að viðurkenna að það væri eitthvað að; það voru allir að tala um hvað það fylgdi því æðisleg tilfinning að vera mamma en ég fann ekki þessa æðislegu tilfinningu. Ég var oft gröm, mér fannst hann gráta of mikið og ég kunni ekkert á hann. Mér finnst ég vera óhæf móðir og að ég ætti í raun og veru ekkert að vera með hann.“

- Auglýsing -

Hún er í dag á þunglyndislyfjum. „Það koma slæmir dagar þar sem þunglyndið er slæmt og fíknin kemur upp og þá finnst mér eina lausnin felast í að fá mér bjór og fara á fyllerí sem ég geri þó ekki enda búin að vera edrú í um þrjú ár. Það kemur fyrir að íbúðin lítur út eins og það hafi verið gerð sprengjuárás af því að ég hef mig ekki upp í að taka til. Svo daginn eftir get ég verið meira hyber en allt sem hyber er og liggur við að ég hangi í ljósakrónunni.“

Mér finnst ég vera óhæf móðir og að ég ætti í raun og veru ekkert að vera með hann

Elísabet Hauksdóttir

Nauðgunin

- Auglýsing -

Synir Elísabetar eru fimm, 10 og 11 ára. „Tveir elstu synir mínir eiga sama föður og ég varð edrú þegar ég kynntist honum án þess að fara í meðferð og var næstum því edrú í 10 ár á meðan við vorum saman. Það hrundi allt þannig séð þegar við hættum saman og þá féll ég í svolítinn tíma.“ Hún var í um tvö og hálft ár með hælisleitanda og eignaðist með honum yngsta soninn.

„Síðasta fylleríið mitt var 22. febrúar árið 2018.“ Maður sem hún kannaðist við nauðgaði henni á heimili hennar og í kjölfarið slitnaði upp úr sambandi hennar og barnsföður hennar. „Ég tók ákvörðun eftir þetta að þetta gengi ekki lengur og ákvað að verða edrú aftur; þá var ég búin að vera í drykkju on og off í svolítinn tíma. Ég fór svo ekki í meðferð inn á Teig fyrr en nokkrum mánuðum síðar þegar ég fann að ég var farin að fá löngun til að drekka. Ég fór í dagmeðferð af því að ég þurfti í raun og veru ekki að afeitra mig þar sem ég var búin að að vera edrú frá því daginn eftir að mér var nauðgað.“

Elísabet kærði nauðgunina en segir að kæran hafi verið felld niður þar sem þetta var orð á móti orði. Hún áfrýjaði dómnum og segist enn vera í bið hvað það varðar. „Ég var spurð hvort ég hafi barist á móti en ég gerði það ekki; það eina sem ég hugsaði allan tímann var að ég mætti ekki vekja börnin mín en strákarnir mínir voru sofandi. Ég vildi ekki opna munninn en maðurinn var drukkinn fyrir utan að vera undir áhrifum annarra vímuefna. Ég vissi ekki hvað hann myndi gera gagnvart börnunum mínum og ég vildi ekki að hann kæmi nálægt þeim. Ég fraus í raun og veru.“

Ég var spurð hvort ég hafi barist á móti en ég gerði það ekki; það eina sem ég hugsaði allan tímann var að ég mætti ekki vekja börnin mín en strákarnir mínir voru sofandi.

Elísabet segir að eftir nauðgunina hafi hún haft á tilfinningunni að allir vissu um hana. „Mér fannst allir hofa á mig og ég var í eigin augum orðin ónýt manneskja. Ég bjóst aldrei við að fara í samband aftur. Ég bjóst aldrei við að karlmaður myndi vilja tala aftur við mig. Mér leið eins og ég væri skítug. Ég kenndi sjálfri mér um þetta og fannst að ég hefði ekki átt að vera í þeim fötum sem ég var í þetta kvöld. Sektarkenndin var eiginlega öll mín megin.“

Elísabet fór að hugsa öðruvísi út í hlutina eftir að hún fór í meðferð á Teigi og gerði hún sér grein fyrir að þetta var alls ekki hennar sök. „Ég má klæða mig í það sem ég vil. Ég má haga mér eins og ég vil. En það má enginn fara yfir mín mörk.“

Elísabet Hauksdóttir

Fátæktin

Jú, Elísabet er edrú en hún segist taka einn dag fyrir í einu. „Og ég er í raun og veru þakklát fyrir það sem ég er núna.“ Hún er í endurhæfingu hjá VIRK og fer í Tinnu, sem er fyrir einstæða foreldra, og Pepp, grasrót fólks í fábækt, og gerir ráð fyrir að fara í 20% starf síðar í haust. „Ég veit ekki hvert ég fer eða hvað mun gerast. Ég fer í atvinnu með stuðningi og svo kemur í ljós hvort ég muni geta farið aftur út á vinnumarkaðinn. Miðað við hvernig skrokkurinn er búinn að haga sér upp á síðkastið þá eru hverfandi líkur á því að það muni gerast. Ég er með gömul meiðsli á hné, ég er með gömul meiðsli á putta og svo hef ég verið að kljást við bakverki. Svo er andlega hliðin ekki sú stabílista í heimi en ég er bæði með kvíða og þunglyndi. Svo er að halda sér edrú en það er vinna út af fyrir sig og tek ég eitt skref í einu af því að það er margt sem getur triggerað mig; sumir dagar eru mjög slæmir og þá langar mig bara verulega að detta í það. Það er ljótt að segja það en þegar maður er fíkill þá fær maður í raun og veru oft meiri stuðning heldur en í dag sem edrú manneskja með þrjú börn. Ég er með þrjá einstaklinga sem ég ætla að koma út í lífið á góðan hátt og það er vinna.“

Fátæktin. Elísabet, sem býr í félagslegri íbúð, þekkir fátæktina af eigin raun. Á tímabili var hún á götunni með synina þrjá á tveimur meðlögum og fjárhagsaðstoð sem nam um 180.000 krónum á mánuði.

„Ég hef í gegnum tíðina neitað mér um margt eins og tannlæknakostnað; ég er með handónýtar tennur í raun og veru en ég hef ekki efni á að fara til tannlæknis og láta gera við þær.“ Hún talar um að synirnir hafi þurft að kenna á bágri, fjárhagslegri stöðu hennar. „Þessar elskur hafa alveg fengið að finna fyrir fátæktinni þar sem ég hef til dæmis oft neitað þeim um að fara til dæmis með gjafir í afmæli sem þeim er boðið í þar sem ég hef ekki haft efni á að kaupa afmælisgjafir sem þeir gætu gefið og ég hef jafnvel mútað þeim; sagt að þeir fengju tvo sleikjóa ef þeir slepptu því að fara í afmælið.“

Ég hef í gegnum tíðina neitað mér um margt eins og tannlæknakostnað; ég er með handónýtar tennur í raun og veru en ég hef ekki efni á að fara til tannlæknis og láta gera við þær.

Hún hefur verið virk hjá Pepp-samtökunum og unnið sjálfboðaliðastarf á kaffihúsi þeirra í Mjódd sem á að fara að loka. „Það er ofsalega sárt að það eigi að loka kaffihúsinu en það hefur gefið mér mikið að vera þar. Ég fór þangað alltaf á daginn bæði sem skjólstæðingur og sjálfboðaliði og sat stundum og fékk mér kaffi og meðlæti og spjallaði við fólkið. Þetta gaf mér rosalega mikið félagslega. Kaffihúsið og það að vera innan um fólk hefur bjargað mér hvað varðar þunglyndið. Við ætlum að berjast fyrir því að finna annað húsnæði. Það er alveg á hreinu.“ Þess má geta að sunnudagurinn 17. október er alþjóðabaráttudagur gegn fátækt.

Kaffihúsið og það að vera innan um fólk hefur bjargað mér hvað varðar þunglyndið.

Neysla, nauðgun, kvíði og þunglyndi, fáækt… Hvað með lærdóminn af þessu öllu? Elísabet tengir tvær setningar við lærdóminn – setningar sem eru á púðum sem hún á: „Góðir hlutir gerast  hægt“ og „gerðu daginn í dag betri“.

Sunnudagurinn 17. október er alþjóðabaráttudagur gegn fátækt

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -