Eliza Reid forsetafrú er mjög ósátt við umfjöllun Morgunblaðsins í morgun, um heimsókn Friðriks, krónprins Danmerkur, á Bessastaði í gærkvöldi.
Eliza birtir ljósmynd úr Morgunblaðinu á Facebook-síðu sinni en á myndinni má sjá hana taka í höndina á Friðriki krónprinsi þegar hann mætti í kvöldverðarboð hjá forsetahjónunum ásamt fylgdarliði. Er ljóst á færslu Elizu að hún er mjög ósátt við Morgunblaðið. Ástæðan er sú að hvergi er minnst á Elizu í fréttinni en nöfn karlanna á myndinni birt.
„Í stuttu máli er myndatextinn á forsíðu blaðsins í dag svona: Einn karlmaður sem ber nafn kom í kvöldverð hjá öðrum karlmanni sem ber nafn. Með gestinum var þriðji karlmaðurinn sem heitir líka nafni [sést ekki á myndinni]. Meira var það ekki. #erukonurtil //“
Fjölmargir tjá sig undir færslu forsetafrúarinnar. Lára nokkur er ein þeirra. „Svei mér þá. Dæmigert – en ætlar þessu aldrei að linna?“ spyr Lára. Tatjana telur nauðsynlegt að finna eitthvað annað en Moggann að lesa. „Kemur ekki einu sinni fram í hvaða fötum ósýnilega konan var! Hvað eigum við konur að lesa þá?“ spyr hún.