Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ella Stína beitir núvitund við innkaup: „Vel gjafir handa fólki sem það getur borðað“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Matarfrumkvöðullinn, Elín Kristín Guðmundsdóttir, er neytandi vikunnar að þessu sinni. Hún er gift Árna Sigurðssyni viðskiptafræðingi. Þau búa þau í Kópavogi og eiga þrjú börn, tengdason og hund. Elín rekur fyrirtækið Ella Stína vegan og framleiðir veganvörur án allra aukaefna og viðbætts sykurs. Þau byrjuðu að selja eina tegund af buffi en eru í dag með átta vörur á markaði og fleiri í farvatninu.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég reyni að vera hagsýn þegar ég kaupi í matinn og passa að við sóum ekki mat. Fjölskyldan ákveður í sameiningu hvað skal hafa á borðum svo allir fái eitthvað við sitt hæfi. Það minnkar líkurnar á því að ég sé að eyða tíma í að versla inn og matbúa eitthvað sem endar svo í ruslinu. Ég er líka óhrædd við að frysta afganga og nýta aftur seinna sem sparar mikið og minnkar sóun töluvert. Ella Stína vegan er einnig í stöðugri vöruþróun og kem ég því oft heim með afganga úr tilraunaeldhúsinu sem við nýtum í fjölbreyttar máltíðir.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Ég hef alltaf átt auðvelt að búa til mat úr þeim hráefnum sem eru við höndina og nýti afganga vel. Það er gott að eiga nóg í frysti sem hægt er að taka fram og bæta við nýju meðlæti og sósu. Þá hefur maturinn öðlast alveg nýtt bragð og útlit og ekkert fer til spillis. Árið 2019 fór ég að beita núvitund í tengslum við innkaup og hefur þetta breytt mínu kaupmynstri til batnaðar. Ég nýti þetta á hverjum degi og mæli hiklaust með að fólk kynni sér þessa aðferð. Einnig mæli ég með að reyna að endurnýta fatnað. Á okkar heimili er reynt að fara vel með fötin svo þau dugi lengi og koma þeim áfram þegar fjölskyldumeðlimir eru hættir að nota þau.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

- Auglýsing -

Ég vel alltaf íslenskar matvörur fram yfir erlendar til að styðja við íslenska framleiðslu og minnka umhverfisáhrif matarframleiðslu í leiðinni. Ég reyni einnig að kaupa hæfilegt magn af mat miðað við þörf til að sporna við sóun. Litrík fæða úr plönturíkinu er það sem við reynum að borða mest af og ber matarkarfan þess merki með fjölbreyttu grænmeti, ávöxtum, baunum og korni. Ég reyni að kaupa sem mest lífrænt og forðast unnar vörum með langan lista af innihaldsefnum sem ég þekki ekki. Þegar ég versla fatnað á mig þá hef ég það fyrir reglu að kaupa ekki samskonar flíkur og ég á nema ég geti endurnýtt þær gömlu. Þetta hefur orðið til þess að ég versla minna á mig en áður, sem er bæði gott fyrir umhverfið og veskið mitt.

Þegar ég vel gjafir handa fólki reyni ég að finna eitthvað sem það getur borðað eða ég veit að það getur nýtt.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

- Auglýsing -

Ég er svolítið veik fyrir því að kaupa ný útivistar-og íþróttaföt og á erfiðast með að draga úr kaupum á þeim þegar kemur að sjálfri mér. Einnig öllu sem viðkemur eldhúsvörum sem auðvelda mér lífið í frumkvöðlastarfinu mínu.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Umhverfisvernd er eitthvað sem varðar okkur öll og það er ábyrgð okkar allra að passa upp á náttúruna. Fjölskyldan er alltaf að reyna að betrumbæta sig í flokkun, veljum vörur sem eru innpakkaðar í minna plast og erum hætt að nota einnota plast heima. Við hjá Ellu Stínu vegan veljum plastlausar umbúðir utan um okkar vörur ef það er hægt til að leggja okkar lóð á vogarskálar umhverfisverndar og gefa neytandanum tækifæri til að kaupa plastlausa vöru. Dýravernd er okkur auðvitað einnig hugleikin og með því að neyta ekki dýravara og bjóða upp á íslenskar veganvörur þá erum við einnig að sinna umhverfisvernd.

Ég myndi ráðleggja fólki að vera óhrætt við að prufa sig áfram í grænkera fæðu sem hefur áhrif á lífstílssjúkdóma og líka hefur áhrif á umhverfið okkar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -