„Mér fannst vanta hóp, í annars frábæra flóru foreldrahópa á Facebook, sem hefði þann tilgang að auðvelda foreldrum að finna afþreyingu og öðruvísi samverustundir fyrir foreldra og börn á öllum aldri,“ segir Silja Hlín Guðbjörnsdóttir, þrítug móðir og eiginkona í Breiðholtinu. Hún tók sig til og stofnaði Facebook-hópinn Viðburðir fyrir börn og fjölskyldur, til að auðvelda fjölskyldum að finna skemmtilega og áhugaverða viðburði.
„Ég og konan mín erum duglegar að nota helgarnar og tímann eftir vinnu í samveru með dóttur okkar,“ segir Silja, sem á dótturina Agötu Sól sem er tæplega tveggja ára. Á myndinni hér fyrir ofan er Silja lengst til hægri Agötu, og eiginkonu sinni, Önu. „Oftar en ekki er það óskipulögð samvera, enda er óþarfi að gera hvern einasta dag að ævintýri. En oft er gaman að fara á skipulagða viðburði eða taka þátt í einhvers konar félagsstarfi fyrir börnin eða með öðrum fjölskyldum,“ bætir hún við.
Facebook-hópurinn er opinn og er öllum meðlimum frjálst að mæla með viðburðum. Það má með sanni segja að þessi hópur hafi vakið mikla athygli, en á fyrstu tólf tímunum voru meðlimir orðnir rúmlega ellefu hundruð.
„Viðbrögðin eru rosaleg. Fólk sendir mér einnig einkaskilaboð og þakkar mér fyrir, sem er mjög skemmtilegt. En þessi hópur er stofnaður svo ég fái hjálp við eilífðarspurningunni: Hvað ættum við að gera skemmtilegt um helgina? Það er frábært að svo margir geti nýtt sér þetta og hafi áhuga á samveru með börnunum sínum. Það er klárlega hvatning fyrir mig að halda vel utan um þetta og gera alvöru úr þessu,“ segir Silja og bætir við að henni finnist hún oft hugmyndasnauð þegar kemur að afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.
„Oftast nær, ef við ætlum að gera eitthvað annað en að fara út á róló, hanga heima eða heimsækja ömmu og afa, verður oftast eitthvað frekar einhæft fyrir valinu. Við höfum nokkrum sinnum farið í Ikea, bara „af því bara“. Þar er náttúrlega smáleikhorn fyrir börn og síðan margt að skoða, en þetta verður til þess að maður kaupir alltaf eitthvað, sama hvort það er matur eða einhverjar Ikea-vörur. Það er nú alveg gott og blessað, en það er kannski óþarfi að samverustundirnar fyrir utan veggi heimilisins tengist einhvers konar neyslu eða verslunum. Mér finnst ég oft svo hugmyndalaus, og veit síðan ekki alveg hvernig ég á að nálgast eða afla mér upplýsinga um viðburði,“ segir Silja, en dóttir hennar elskar allt sem tengist tónlist.
„Dóttir mín er með eindæmum söngelsk og alveg sérstaklega danssjúk. Hún elskar að nálgast tónlist á allan hátt. Um jólin rákumst við á kór að syngja í Mjóddinni og mín dansaði og dansaði. Nú er þetta ekki beint skipulagt fyrir börn en engu að síður geta börn haft gaman að þessu. Það hefði verið fínt að geta planað fleira slíkt en ekki bara detta niður á eitthvað.“
Silja hyggur á að setja saman dagskrá eða samantekt af viðburðum fyrir hverja viku eða mánuðinn og merkja færslur með ákveðnum kassamerkjum, eins og #söngstund og #leikhús, til að auðvelda meðlimum leitina.
„Vonandi bætast fleiri við og við getum haldið uppi líflegum hópi. Ég vildi ekki hafa þetta sem síðu, heldur hóp þar sem allir gætu deilt og spjallað, meira gagnvirkt. Tilgangurinn er auðvitað að auðvelda leitina að skemmtilegum hlutum til að gera og einnig mögulega að hvetja til aukinnar samveru barna og foreldra, barna og annarra barna, og mögulega tengja foreldrana líka.“
Myndir / Úr einkasafni