nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman er hin fertuga og fimm barna móðirinn Ellisif sem á í dag mun betra og innihaldsríkara líf en hana hefði nokkurn tíma geta látið sig dreyma um.
Ellisif ólst upp við góðar aðstæður þar sem ekkert skorti; hvorki á tilfinningasviðinu né því veraldlega.
Hins vegar passaði Ellisif illa inn í hinn dæmigerða kassa sem skólakerfið virðist vilja setja alla í.
Ellisif var fremur ung er hún var greind með ADHD; seinna kom á daginn að hún væri á einhverfurófi; sem útskýrir að einhverju leyti vanda hennar varðandi félagsleg:
„Mér fannst ég hvergi passa inn, alveg sama hvar ég var, en ég þráði að tilheyra.“
Hún fann sig í hópi ungmenna sem farnir voru að neyta vímuefna:
„Það var í raun bara gjöf fyrir mig að byrja að drekka, allar hömlur fóru og ég drakk mjög illa. Ég var samt alin upp við það að passa mig á áfengi því það væri mikill alkóhólismi í minni fjölskyldu.“
Ellisif var ung er hún eignaðist tvíbura – tíu vikum fyrir tímann; þeir voru mjög veikir:
„Ég er týpa sem ýti frá mér vanlíðan og klára verkefni sem þarf að klára. Ég og við vorum auðvitað mjög hrædd þegar þeir voru litlir og ég varð fljótt aftur ólétt. Þegar dóttir mín var níu mánaða fór ég í hjáveituaðgerð, orðin 150 kíló, ekkert búið að vinna í fíkninni og ég gat ekki borðað.“
Á ekki nema einu og hálfu ári var allt komið í vaskinn hjá Ellisif; hún drakk á hverju kvöldi og skildi svo í kjölfarið; var inn og út úr meðferðum.
Í einni slíkri kynntist hún manni og ekki löngu síðar varð hún ólétt:
„Ég fatta að ég er ólétt þegar ég var komin 12 vikur og kona á kvennadeildinni kom mér inn á Vog. Það voru allir voða góðir við mig á þessari meðgöngu. Barnsfaðir minn aftur á móti fór að beita mig líkamlegu ofbeldi eftir að sonur okkar fæddist. Hann barði mig í stöppu þar sem voru blóðslettur í loftinu.“
Svo eignaðist hún annað barn með ofbeldismanninum; féll stuttu eftir það:
„Ég féll, sat ein fyrir framan sjónvarpið og drakk. Morguninn eftir hringdi ég í foreldra mína og lét sækja börnin mín og fór á fyllerí. Maðurinn minn var í mótorhjólasamtökum þar sem var mikið um drykkju, dóp, vopn, ofbeldi og allt mögulegt. Ég ætlaði bara á túr, fara svo í meðferð og verða aftur mamma en það gekk ekkert.“
Því miður varð ofbeldið aðeins verra og verra:
„Eitt skiptið kom löggan heim og ég lá meðvitundarlaus á gólfinu og var með far eftir mótorhjólahæl á kinninni. Það voru nánast allar tennurnar í mér brotnar og ég man ekki eftir að hafa pælt í þessu. Það var ekki fyrr en hann henti mér fram af annarri hæð og ég hljóp á nærbuxunum til nágrannans þar sem búið var að berja mig í klessu, rífa upp hársvörðinn og með brotin rifbein.“
Þessi hryllilega árás, tilraun til manndráps, var kærð til lögreglu, en felld niður.
Ellisif kláraði meðferð í Krýsuvík; var edrú í eitt og hálft ár; féll og ákvað að láta barnavernd vita – því hún vildi ekki að börnin hennar myndu horfa upp á hana í því hörmulega ástandi er hún var komin í.
Ellisif þurfti vegna ölvunaraksturs að sitja inni:
„Ég sat í rúminu í fangelsinu og prjónaði 13 peysur.“
Um leið og fangelsisvistinni var lokið hélt Ellisif áfram að nota vímuefni; flutti til vinkonu sinnar og byrjaði síðan að sprauta sig:
„Vinkona mín bauð mér að sprauta mig og mér fannst þetta rökrétt næsta skref í raun.“
Afar mörgum meðferðum, edrútímum og áföllum síðar kemur tímabil þar sem Ellisif horfir á sem sitt erfiðasta; hún gat ekki lengur notað vímuefni; gat ekki heldur verið edrú:
Ofbeldið sem hún bjó við var hrottalegt og fór vaxandi; Ellisif fór í eina meðferðina enn; á áfangaheimilinu Betra líf, en hún ber því heimili ekki góða sögu:
„Ég er edrú þrátt fyrir Betra líf. Það var mjög mikil neysla þar og ofboðslega erfitt að vita að ég gæti bara bankað á næstu hurð og fengið mér. Það urðu líka nokkur dauðsföll þar á meðan ég var þar. Ég endaði á að hringja í pabba og hann sótti mig.Ég vil meina að ég hafi bara fæðst beygluð, ég get ekki kennt neinum um fíknina mína.“