Fjölmiðla- og listakonan Ellý Ármannsdóttir íhugaði sjálfsvíg vegna slæmrar fjárhagsstöðu og yfirvofandi gjaldþrots. Hún var úrskurður gjaldþrota í gær en fjárhagsvandræði höfðu fylgt henni frá skilnaði fyrir þremur árum.
„Mig langaði að hengja mig á sínum tíma. Þetta er satt. Ég er alveg hreinskilin með það en það er það sem fólk fer í gegnum. En ég veit í dag að þetta var ekki mér að kenna. Svo hugsaði ég „nei ég ætla ekki að láta þetta buga mig.“,“ sagði Ellý í samtali við Fréttablaðið.
Fjárhagsvandræðin tóku mikið á Ellý og reikaði hugur hennar á dimma staði. Hún segist hafa misst allt við skilnaðinn og það hafi lítið stoðað að reyna semja við bankann. „En þeir voru ekki fyrir það og ég reyndi og reyndi og lagði mig virkilega fram við það. Ég missti allt. Ég var í skilnaði og það var allt skrifað á mig. Síðan þá er ég búin að vera bíða eftir að þetta fari í gegn. Ég reyndi að mála upp í skuldina, ég reyndi að klóra mig upp á bakkann en það var ekki hægt. Ég náði því ekki,“ segir Ellý.
Ellý býr núna inni á unnasta sínum og reynir að mála sig í gegnum vandræðin. „Ég bý inn á honum. Þetta var húsið, við misstum bæði vinnuna, við skildum, þetta var helvíti. Ég er bara núna að mála og halda áfram og í rauninni er svolítið kaldhæðnislegt að ég gleymi vandamálunum þegar ég mála. En það er alltaf stutt í það að maður brotnar þegar maður er einn. Bankinn tók húsið, reikningunum mínum lokað og ég má ekki eiga neitt í tvö ár en það tekur enginn andardráttinn minn frá mér,“ segir Ellý.