Laugardagur 4. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

„Elskaði að hlusta á konurnar í kvöldboðunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Konur elska glæpasögur. Það er margsannað. Bæði að lesa þær og skrifa. Margir af þekktustu og vinsælustu glæpasagnahöfundum bókmenntasögunnar hafa verið konur og þeim fjölgar frekar en hitt. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum anga bókmenntasögunnar og eiga sér sínar ókrýndu glæpasagnadrottningar sem þjóðin dáir og virðir. Meðal þeirra er Jónína Leósdóttir.

 

Jónína Leósdóttir hafði skrifað alls kyns bækur, meðal annars unglingabækur, skáldsögur og leikrit, þegar hún söðlaði um og fór að skrifa glæpasögur þar sem kjarnakonan Edda á Birkimelnum flækir sér í alls kyns sakamál – og leysir þau auðvitað. En hvaðan kom Edda og hvers vegna hefur Jónína ákveðið að fimmta bókin sem hún vinnur nú að verði sú síðasta – í bili alla vega – um þennan dásamlega karakter?

Hvers vegna valdirðu að færa þig yfir í glæpasagnaformið? „Ég flakkaði talsvert milli bókmenntagreina í þeim þrettán bókum sem ég hafði skrifað áður en ég byrjaði á Eddumálum. Mér fannst gaman að sitja ekki föst á sama bás. En það gat verið snúið að svara spurningum um hvernig bækur ég skrifaði. Stutta svarið var: Alls konar! Langa svarið var: Skáldsögur fyrir ungt fólk, skáldsögur fyrir fullorðna, ævisögur og … ja, bara alls konar. Allar bækurnar mínar, fyrir utan tvær ævisögur annars fólks, eiga það þó sameiginlegt að fjalla fyrst og fremst um nútímafólk og mannleg samskipti þess. Það er efni sem heillar mig mjög. Kannski færði ég það bara í glæpasögubúning til þess að fólk vissi betur hvar það hefði mig …“

Hvaðan kom hugmyndin að Eddu sem aðalsöguhetju? Á hún sér einhverja fyrirmynd í raunveruleikanum? „Öflugar, klárar og svolítið kjaftforar ömmur höfðu komið við sögu í fjórum af fimm ungmennabókum sem ég skrifaði – og það var svo skemmtilegt að vinna með þær og með þeim að ég ákvað að prófa að hafa slíka týpu sem aðalpersónu í fullorðinsbók. Ég sé sko ekki eftir því, Edda er sérlega góður vinnufélagi. Eiginlega er Edda eins konar sambland margra kvenna sem settu svip á líf mitt í æsku, ekki síst tveggja föðursystra minna og vinkvenna þeirra. Þessar frænkur bjuggu undir sama þaki og við kjarnafjölskyldan, ég var mjög hænd að þeim og fékk alltaf að vera viðstödd svokölluð konuboð sem þær héldu nokkrum sinnum á ári. Í þessum kvöldboðum sat ég steinþegjandi í náttfötum og slopp, tróð mig út af kökum, hallaði undir flatt og drakk í mig hvert orð. Þarna flugu dásamlegar dönskuslettur, krassandi endurminningar og endalausar sögur af fólki í bænum. Fjörið varð svo mikið að konurnar steingleymdu að ég væri nærstödd svo þær voru sko ekkert að ritskoða sig. Ég held að Edda á Birkimelnum eigi rætur að rekja alveg aftur til þess sem ég hleraði við þessi tækifæri, það reyndist mikill sjóður.“

Þú hefur sagt að næsta bók verði sú síðasta um Eddu. Er of þvingandi að skrifa inn í svona seríu um sömu rannsóknarmanneskjuna? „Ég er enn að skrifa fimmtu Eddubókina en vona að mér takist að ljúka handritinu fljótlega svo hún komi út í ársbyrjun 2020 – sjö, níu, þrettán, ef guð lofar og allt það.

Það var aldrei á stefnuskránni að hafa bækurnar um Eddu fleiri en fimm, aðallega af því að ég vildi ekki að lesendur fengju leiða á henni. En vinnan með glæpasagnaformið reyndist ánetjandi og það hentar sérlega vel fyrir umfjöllun um alls kyns þjóðfélagsaðstæður samtímans og um líðan og tengsl fólks sem glímir við þær. Þótt Edda fái að hvíla sig langar mig því að halda mig á svipuðum slóðum.

- Auglýsing -

En kannski tökum við Edda upp þráðinn seinna. Ég ætla helst að skrifa fram á grafarbakkann og vona að hann sé nógu langt undan til að pláss sé fyrir margar bækur til viðbótar.“

„Ég væri alveg til í að skrifa nokkra þætti af sjónvarpsseríunni East Enders sem BBC hefur framleitt frá 1985. En ég á nú ekki von á hringingu frá Bretlandi.“

Sumir höfundar hafa tekið það til bragðs að láta aðalpersónuna deyja, eða gera hana ófæra um að sinna starfi sínu – Erlendur Arnalds og Wallander Mankells, sem dæmi – er það að þínu áliti góð leið til að slá á væntingar lesenda um fleiri bækur í seríunni? „Nei, veistu, það tekur á mig að fylgjast með fólki, sem ég hef tekið ástfóstri við, hrörna og/eða deyja. Þetta á jafnt við um sögupersónur sem fólk af holdi og blóði. Ég varð til dæmis alveg miður mín þegar það fór að slá út í fyrir Wallander. Það var hræðilegt! Ég vil frekar lifa í voninni um fleiri bækur, jafnvel þótt sú von rætist ekki, en að lesa um dapurleg endalok persónu sem er mér kær.“

Þetta form, glæpasagnasería, verður það auðveldara eftir því sem þú skrifar fleiri bækur? Er þetta eins og vöðvi sem verður sterkari með æfingunni? „Eiginlega ekki. Það er að vísu þægilegt fyrir höfund að þekkja aðalpersónuna, fjölskyldu hennar og vini strax í upphafi og hafa reynslu af glæpasagnaforminu. En þetta skapar líka pressu því bækurnar mega ekki verða of líkar, hvorki efnið né framsetningin. Og seríusaga verður að vera jafnaðgengileg fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrri bækurnar og þá sem bíða eftir næsta „skammti“.

- Auglýsing -

Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þetta yrði auðveldara. En vegna þessarar glímu eru skrifin einmitt svo ögrandi fyrir manneskju eins og mig sem finnst miklu meira spennandi að leysa erfiðar krossgátur og sudoku-þrautir en auðveldar. Ég sé engan tilgang í að leysa verkefni sem reynir lítið á.“

Ef þú værir ekki að skrifa glæpasögur hvað myndi þá helst heilla þig að skrifa um? „Ég væri alveg til í að skrifa nokkra þætti af sjónvarpsseríunni East Enders sem BBC hefur framleitt frá 1985. En ég á nú ekki von á hringingu frá Bretlandi. Svo væri áhugavert að prófa að skrifa skáldsögu þar sem alvara ríkir frá fyrstu til síðustu blaðsíðu. Ég er þó ekki viss um að ég geti það. Mér hættir til að sjá húmor í öllu. Líklega smitaðist ég af þessu þegar ég var fluga á vegg í konuboðunum í gamla daga. Þar var heldur betur slegið á létta strengi!“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -