Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Emilía fæddist á 23. viku meðgöngu: „Það er svo mikið í tísku að styðja fóstureyðingarfrumvarpið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var bara að horfa á fréttirnar eins og aðrir og sá umræðu um fóstureyðingafrumvarpið. Í kjölfarið sendi ég Ingu Sæland myndirnar bara í gegnum tölvupóst,“ segir Guðrún Björg Brynjólfsdóttir, móðir Emilíu Rósar, fyrirburans sem Inga Sæland, formaður flokks fólksins, sendi myndir af á alla fjölmiðla um miðja síðustu viku.

Emelía Rós er dóttir Guðrúnar og Andra Viðars Víglundssonar en fyrir á Guðrún þau Díönu Sól, 16 ára, Kolfinnu Ósk, 12 ára, Sigurð Eystein, 9 ára, og Elínu Perlu, 6 ára. Emilía er 3 ára í dag.  Móðir hennar segir það sjást á skapgerð hennar að hún hafi mátt berjast fyrir lífi sínu. Emiliía sé lífsglöð og ákveðin.

Emilía Rós er í dag hamingjusöm og heilbrigð. Mynd: Úr safni fjölskyldu Emilíu

„Glöð og ánægð með lífið“

Inga sendi myndir af Emilíu Rós á fjölmiðla landsins síðastliðinn miðvikudag. „Vegna fóstureyðingarfrumvarpsins sem nú býður atkvæðagreiðslu Alþingis, sendi ég ykkur þessar myndir með vitund og vilja foreldra þessarar litlu stúlku,“ sagði í tölvupósti formanns flokksins. Nánari skýringu var ekki að finna á sendingunni. Í bréfinu mátti þó sjá skilaboð Guðrúnar til Ingu. „Í dag er hún fullkomlega heilbrigð og bráðum 4 ára. Hún á heima á Hlíðarvegi á Ólafsfirði og er glöð og ánægð með lífið,“ skrifaði Guðrún.

„Emilía er yngsti fyrirburi á Íslandi sem hefur lifað af. Mín reynsla, ég er ekki líffræðingur, læknir eða neitt slíkt, ég er bara mamma fyrirbura. Ég hef séð svona lítið barn. Barnið er orðið manneskja. Hún gat lifað þetta af og lifir góðu lífi í dag. Mér finnst ekki rétt að leyfa fóstureyðingar út 22. viku,“ segir Guðrún um hvers vegna hún vill að fólk viti um Emilíu.

Emilía Rós fæddist á 23. viku meðgöngu og lifði af. Mynd: Úr safni fjölskyldu Emilíu

Verðum að horfast í augu við siðferðisspurningar

Guðrún vill að fólk viti af tilvist Emilíu og að myndirnar séu birtar. Hún segir einfaldlega verða að ræða mörk þess hvort um sé að ræða fóstur eða barn sem getur lifað utan móðurkvið. „Ég vil að fólk sjái Emilíu og að myndirnar séu birtar.“ Fæðinga- og kvensjúkdómalæknir á Landspítalanum sagði á fimmtudag, í samtali við Vísi, að útspil Ingu sé ósmekklegt.

- Auglýsing -

Guðrún segist hissa á því að enginn stærri fjölmiðill hafi birt myndirnar og er ósammála um að þetta komi umræðu um frumvarpið ekki við. „Það er svo mikið í tísku að styðja fóstureyðingarfrumvarpið. Það á að kýla þetta í gegn og gera þetta að lögum. Það er umræðan einhvern veginn og allar siðferðislegar umræður um réttindi barnsins eru afgreiddar sem íhaldssemi. Það vilja allir þetta fari í gegn,“ segir Guðrún. „Fólk þorir ekki að ræða þetta út frá trúmálum. Maður heyrir það alveg. Sama á við um siðferðislegar spurningar eins og hvenær verður fóstur að barni.“

Emilía Rós fæddist á 23. viku meðgöngu og lifði af. Mynd: Úr safni fjölskyldu Emilíu

– Telur þú rétt að þungunarrof sé val móðurinnar? „Já, það velja allir bara fyrir sig. Ég ætla ekki að vera dómari í málum annarra kvenna. Ég er að koma samt fram með Emilíu. Hún er fædd 23. viku. Mér finnst það voðalega skrítið að það megi fóstureyða á 22. viku.“

Kemur málinu við að mati Guðrúnar
„Auðvitað kemur yngsti fyrirburi sem lifað hefur af á Íslandi umræðunni við. Hún fæðist nokkrum dögum eftir að heimild til fóstureyðingar stoppar samkvæmt þessu nýja frumvarpi. Frumvarpið kemur öllum börnum við. Emilía var með allt þegar hún fæddist; heila, fingur, tær. Hún þurfti bara færi á að vaxa. Mér finnst það bara alveg koma málinu við hvernig barn lítur út á þessum tíma sem verið er að ræða. Það er ekki í tísku að ræða málið út frá siðferðisspurningum. Það er víst svo íhaldssamt.“

- Auglýsing -
Emilía Rós fæddist á 23. viku meðgöngu og lifði af. Mynd: Úr safni fjölskyldu Emilíu

Gildandi lög skilyrða eyðingu fósturs

Þungunarrof heimilt fram að 22. viku í dag en skilyrðum háð
Gildandi löggjöf heimilar þungunarrof á 22. viku en með ákveðnum takmörkunum. Samkvæmt gildandi lögum má ekki eyða fóstri eftir 16. viku þungunar „nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu.“ Undanþágur á samkvæmt lögum að sækja til nefndar landlæknis sem skipa skal lækni, lögfræðing og félagsráðgjafa. „Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs,“ segir í lögunum.

Emilía Rós fæddist á 23. viku meðgöngu og lifði af. Mynd: Úr safni fjölskyldu Emilíu

– Getur verið að ástæða þess að umræðan er ekki á þeim stað sem þú óskar sé sú að í raun er aðeins verið að færa ákvarðanaréttinn til konunnar? Í raun er ekki verið að lengja tímann sem eyðing fósturs er heimil. „Í núverandi lögum er samt ákveðinn siðferðisþröskuldur. Það er aðgreining á því að eyða fóstri fyrstu 16 vikurnar og svo síðar. Skilaboðin eru að við eigum að halda okkur innan ákveðins ramma en svo koma tilvik þar sem réttmætt er að fara yfir þann ramma. Það er ákveðinn ‘filter’ og viðurkenning á stigsmuninum að þurfa að ræða við félagsráðgjafa um þessa stóru ákvörðun. Heimild er alltaf veitt. Mér finnst samt að við eigum að halda í þennan ramma og stuðninginn sem kemur á síðari vikum. Ég veit alveg að það er alltaf sagt já við eyðingu. Hvers vegna ekki að halda í þann ramma?“ spyr Guðrún.

Barnið eigi talsmann í gildandi lögum
„Með núgildandi lögum er verið að segja að barnið eigi kannski einhvern smá rétt sem er ræddur við konuna,“ segir Guðrún og bendir á að hér sem um að ræða tímabil þar sem lífslíkur aukast hratt. Það þurfi því að velta því fyrir sér hvort um sé að ræða barn eða fóstur. – Áttu við að núverandi kerfi sé þannig að hið ófædda barn eigi talsmann? „Já, í rauninni. Fólk er allskonar og með þessu er verið að útskýra fyrir móðurinn hvað fellst í þessari ákvörðun. Það er félagsráðgjafi, læknir og lögfræðingur þarna. Þetta er bara viðurkenning á því að munur sé á lífslíkum fóstursins fyrir 16 viku og eftir.“ – Hvað áttu við? „Ég hef eignast barn á 23. viku. Ef hún hefði fæðst sólarhring áður hefði hún fæðst á 22. viku. Þetta er spurning um nokkra klukkutíma og þá hefði mátt eyða henni. Það þarf líka að ræða hvenær barn eigi rétt á að lifa. Hvenær um er að ræða fullburða einstakling sem hugað er líf utan móðurkvið. Þegar við erum á þeim mörkum þá finnst mér svolítið mikið að fara í fóstureyðingu. Auðvitað miðar þessi skoðun við mína lífsreynslu en þess vegna er mikilvægt að við ræðum þessa hluti líka.“

Endurskoðun staðið yfir frá 2016
Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, skipaði í mars 2016 nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun laga nr. 25/1995, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu í nóvember 2016 og lagði m.a. til að lögunum yrði skipt upp.

Megintillaga nefndarinnar var að gera ætti breytingar á löggjöfinni þannig að lög tryggðu sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Með það að leiðarljósi lagði nefndin til að þungunarrof yrði gert frjálst að beiðni konu fram að lokum 22. viku þungunar. Nefndin lagði einnig til að orðanotkun yrði breytt og orðið þungunarrof yrði notað í nýrri löggjöf. „Þungunarrof er heiti yfir það þegar rof er gert á þungun konu að hennar beiðni, annaðhvort með læknisaðgerð eða lyfjagjöf. Hingað til hefur umrædd læknisaðgerð verið kölluð fóstureyðing í lögum, en nú er lagt til að þeirri orðanotkun verði hætt og hugtakið þungunarrof komi í þess stað. Hugtakið fóstureyðing hefur verið talið gildishlaðið og sambærileg orðanotkun þekkist ekki í nágrannalöndum okkar,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingkona VG, við kynningu frumvarpsins.

Fóstureyðingar voru fyrst heimilar með lögum árið 1935. Áður giltu ákvæði hegningarlaga frá 1869 sem bönnuðu fóstureyðingar alfarið. Viðurlögin voru allt að átta ár í hegningarvinnu. „Einu gilti þótt lífi eða heilsu konu væri stefnt í hættu með áframhaldandi meðgöngu eða fæðingu og samkvæmt lögum voru hendur lækna bundnar. Þeim var óheimilt að hjálpa konum við þessar aðstæður. Ljóst er að farið var í kringum lögin á þeim tíma og þau brotin,“ sagði heilbrigðisráðherra við kynningu frumvarpsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -