Nakinn maður, óvelkomnar endur og maður vopnaður boga og örvum eru meðal þeirra sem náðu á skrá lögreglu höfuðborgarsvæðisins síðastliðna nótt sem var með fjörugasta móti. Mikið álag var á sjúkraflutningafólk og til þess kom að kalla þurfti út mannskap af slökkvistöðvum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Síðasta sólarhringinn voru 102 boðanir á sjúkrabíla, þar af 27 forgangsútköll.
Flest voru útköllin tengd skemmtanlífi miðborgarinnar þar sem mikið var um ölvun og óskunda.
Berrasaður við girðingu
Lögregla var kölluð til er sást til tveggja manna reyna að brjóta niður girðingu og var annar þeirra nakinn. Ástæðan er ókunn enda voru mennirnir á bak og burt þegar lögreglu bar að garði.
Tvö útköll voru á slökkvibifreiðar, annað var vegna elds í bílskúr í Mosfellsbæ um miðjan dag í gær sem gekk greiðlega að slökkva og hitt mun hafa verið minniháttar vatnstjón.
Tvær ábendingar komu um slasað fólk í miðbænum, konu, sem vissulega reyndist slösuð þótt ekki komi fram hver alvarlega, svo og karlmann sem ekki var slasaður en aftur á móti ofurölvi.
Bláedrú endur á bensínstöð
Drykkjuskapur borgarbúa virðist hafa verið með mesta móti síðastliðin sólarhring en þær voru hins vegar bláedrú endurnar sem lögreglan var kölluð til að vísa út af bensínstöð í Kópavogi í gærkveldi. Þar hafði andahópur komið sér vel fyrir og hugði ekki á brottför. Lögreglu gekk þó vandræðalaust að vísa þeim á dyr.
Maður hefur verið kærður fyrir brot á vopnalögum en hann var vopnaður boga og örvum þegar lögreglu bar að honum í Árbæ í gærkveldi. Kvaðst hann vera að æfa sig að skjóta í tré í samtali við lögreglumenn. Var hann í annarlegu ástandi og dónalegur við lögreglumenn.
Partýlæti, innbrot og stútar við stýri
Partýhald var með líflegasta móti í Breiðholt og Kópavogi í nótt og var lögregla ítrekað kölluð þar til vegna hávaða. Tveir voru síðan handteknir í Grafarholti eftir tilkynningu um slagsmál. Reyndist annar maðurinn vopnaður hnífi og fengu báðir að gista fangageymslur í kjölfarið. Sama má segja um konu í Grafavogi sem tilkynnt var um að væri í annarlegu ástandi. Þegar lögregla hugðist keyra hana heim til sín sparkaði hún í lögreglumann og var þar með vistuð í fangageymslum.
Nokkuð var um innbrot á heimili svo þjófnaði í matvöruverslunum.
Ölvaður ökumaður varð valdur að árekstri í Breiðholti og handtekinn svo og annar sem auk á staur í Laugardal. Sá er talinn hafa verið bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þriðji stúturinn var handtekinn í Hafnarfirðin eftir að hafa keyrt á aðra bifreið.