Tinna Rós Steinsdóttir tók áskorunni 100 daga hamingja og upplifði meiriháttar breytingar á lífi sínu.
Þegar blaðamaður „skæpast“ við Tinnu, sem er búsett í Brussel, byrjar samtalið einfaldlega á ástæðunni fyrir því að hún að tók áskoruninni. „Ég var bara að gagna í gengum erfitt tímabil,“ svarar hún blátt áfram. „Vann ótrúlega mikið en komst aldrei yfir allt sem ég þurfti að gera. Var alltaf í ræktinni en fitnaði bara og fitnaði. Launin mín voru lág. Mér fannst ég bara ekki vera á þeim stað sem ég átti að vera á komin á, verandi á þessum aldri, og hafði ekki hugmynd um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Allskonar erfiðleikar sem ég held að margir kannist við og geta valdið því að maður brýtur sjálfan sig niður. Það var svo í maí að kærastinn minn hætti að vera með mér og það var þá sem ég missti öll tök. Fannst ég vera „feit, ljót og ömurleg“ og lá bara uppi í rúmi og horfði á Netflix. Það furðulega við þetta er að út á við hélt líf mitt áfram að vera uppfullt af ævintýrum og ég tók þátt í þeim og brosti meira að segja stundum en mér leið alltaf illa inni í mér. Meira að segja þegar ég var að gera skemmtilega hluti,“ lýsir hún.
Það hafi verið þá, þegar botninum var náð, sem hún sá Facebook-vinkonu sína mæra áskorunina 100 daga hamingja og það og samtal við systur hennar, sem hvatti hana eindregið til að gera eitthvað í sínum málum, hafi orðið til þess að hún sló til. En í hverju fólst áskorunin nákvæmlega? „Eitt af því sem hún gengur út á er að gera eitthvað spennandi á hverjum degi og pósta mynd af því á Facebook þannig að ef einhver bað mig til dæmis um að hittast eftir vinnu og gera eitthvað skemmtilegt þá sagði ég stundum já þótt mig langaði kannski miklu frekar til að fara heim og upp í sófa, bara til þess eins að ná mynd. En maður sá aldrei eftir því að hafa farið, því auðvitað var alltaf gaman að hittast.“
„Á hundrað dögum voru kannski svona fimm dagar sem ég bölvaði því í loks dags að eiga eftir að finna eitthvað til að vera hamingjusöm yfir og setja það á Facebook.“
Kaflaskil í Króatíu
Í kjölfar þessara daglegu Facebook-færsla segist Tinna hafa gert skemmtilega uppgötvun. „Ég fattaði fljótlega að flestar færslurnar mínar voru um fólk sem ég hafði hitt yfir daginn og það var þá sem ég áttaði mig á því að það er það, fólkið sem maður umkringir sig með, sem hefur einna mest mótandi áhrif á líf manns og hamingju,“ segir hún.
Fyrstu alvörukaflaskilin segir hún hins vegar hafa orðið í júlí þegar hún varði fjórum dögum einsömul í Króatíu. „Ég ákvað að nota tímann til að hugsa um lífið og tilveruna; hver ég væri og hver ég vildi vera. Ég ákvað að vera opin með hugsanir mínar og tilfinningar á Facebook, aðallega af því að það hjálpaði mér svo mikið að geta bara verið hreinskilin. Og það sem gerðist er að ég fór að fá skilaboð frá alls konar fólki sem sagði mér að hamingjuferðalagið mitt væri að hafa áhrif á líf þess, meira að segja fólki sem ég þekkti lítið. Ég hafði haft smááhyggjur af því að einhverjum fyndist ég hálfhallærisleg að gera þetta en þegar skilaboðin fóru að berast þá hurfu þær alveg. Það var ótrúlega magnað.“ Eftir það fór hún að gera róttækar breytingar á lífi sínu. Sagði meðal annars upp í vinnunni, sem henni þótt erfitt þar sem hún hefur mjög gaman af starfinu sínu og ákvað að flytja frá Belgíu. Það hafi verið nokkuð sem hún áttaði sig á að þyrfti að gerast ef henni ætti að líða betur.
„Ég fór að finna mun á mér. Til að byrja með var það helst þakklæti sem ég fann fyrir en það hefur svolítið einkennt þessa hundrað daga fyrir mér, þakklæti. Ég er þakklát fyrir lífið og fyrir allt frábæra fólkið í kringum mig. Ég er einstaklega heppin með fjölskyldu og vini og ég var minnt á það.“
Var ekkert erfitt að taka allar þessar stóru ákvarðanir og hreinlega að halda þetta út? „Nei veistu, þetta var eiginlega furðulega auðvelt. Á hundrað dögum voru kannski svona fimm dagar sem ég bölvaði því í loks dags að eiga eftir að finna eitthvað til að vera hamingjusöm yfir og setja það á Facebook. Ég átti þá nokkra tilbúna hamingjupósta til á lager ef ske kynni að ekkert skemmtilegt gerðist en þegar til kastanna kom leitaði ég samt bara einu sinni í þá lausn,“ segir hún og brosir.
Spurð hvort hún telji að þessi reynsla muni nýtast henni eitthvað áfram stendur ekki á svarinu. „Já algjörlega. Það sem stendur eftir er þjálfunin í að finna gleði og hamingju í litlu hlutunum; betri skilningur á hugtakinu að hamingjan komi að innan, mun meiri trú á sjálfa mig og vitneskjan um hversu mikil áhrif maður getur haft á annað fólk bara með því að vera opinn og einlægur um það hver maður er og hvað maður er að ganga í gegnum. Ég reyndi mikið að vera lausnamiðuð og uppörvandi í póstunum mínum og tala um erfiðleika frekar í þátíð en nútíð þegar ég hafði fundið góða leið til að takast á við þá. Þetta er algjörlega eitthvað sem ég tek með mér áfram í lífinu og verður gegnumgangandi í póstunum mínum á Facebook.“